Í dag er annar sunnudagur í aðventu. Fyrir flesta Íslendinga hefur þetta lítið að segja. Það má vera að einhverjar fjölskyldur, sem halda fast í góða siði, hafi útbúið, eða keypt, aðventukrans og tendri því á honum tvö kerti. Hinsvegar er heldur líklegra að dagurinn hafi sinn vanagang hjá flestum, enda til full mikils ætlast að uppteknir Íslendingar geri sér daga mun við jafn litla hátíð og þessa. Það er gömul klisja en þó svo afskaplega ný að Íslendingar séu of uppteknir af vinnu og verslunaræði í desember til þess að virkilega meðtaka heilagleika hátíðarinnar.
Þegar ég tala um “heilagleika” á ég ekki endilega við fæðingu Jesú Krists og fögnuðinn sem hefur fylgt henni. “Heilgaleikinn” sem átt er við er hvorki jafn forn né alþjóðlegur, hann er íslenskur eða öllu heldur skandinavískur. Fyrir þann tíma er Íslendingar gerðust sannkristnir var haldin hátíð um sama leyti og jólin eru á okkar dögum. Var það vani manna að safnast saman og gleðjast í nafni einhvers sem við köllum heiðinn sið í dag. Þrátt fyrir að kristin trú hafi síðar verið samþykkt hérlendis með tilheyrandi hátíðum og tyllidögum, þá hafa Íslendingar ávallt fyllt umhverfi sitt ánægjuljóma um miðjan vetur.
Með þessum orðum er á engann hátt verið að draga úr fagnaðartilefni kristinnar manna heldur aðeins verið að benda á að hér á Íslandi ætti hátíðin ekki að vera bundin við eina trú. Jólahátíðin felur ekki aðeins í sér trú á Jesú Krist, hún felur í sér von um betri tíma. Íslendingar til forna bjuggu við fábrotinn kost í alla staði. Hver einstaklingur ætti því ímynda sér hvernig hrálendið Ísland lítur út á aðfangadagskvöld án nokkurar lýsingar sem vert er að geta. Þannig var raunveruleikinn sem blasti við forfeðrum okkar og þar lá ástæðan fyrir þeirri hátíð sem haldin var um miðjan vetur. Eftir margra mánaða erfiði í kaldri tíð og sífellt meira svartnætti, var loks kominn sá tími er dagsbirtan lengdist um eitt hænufet á dag. Það var kominn tími til að þjappa fólki saman í nafni gleði og vonar. Trú á betri tíð með blóm í haga var drifkraftur þessa fólks.
Það er þessi trú sem Íslendingar gleyma of gjarnan. Jafnvel þó aðstæður hafi breyst stórkostlega og við búum ekki við það harðræði sem forfeður okkar þurftu að þola, þá er enn jafn mikil þörf á hátíð gleði og vonar. Þörf á tíma þar sem við hættum að bíða eftir morgundeginum og horfum í kringum okkur. Það er ávallt einhver sem þarf á okkur að halda og oftar en ekki erum það við sem þurfum “fólkið okkar” í kringum okkur. Það verður að teljast ólíklegt að jólin muni snúa af þeirri verslunarþróun sem einkennir hátíðina í dag. Engu að síður geta jólin enn gengt veigamiklu hlutverki í lífi hvers og eins, það er okkar að viðhalda boðskap gleðinnar, kærleiksins og vonarinnar!
- Fimm til að fylgjast með - 17. ágúst 2011
- Raunveruleika útgáfan af FM (CM) afturkölluð af UEFA - 15. júlí 2011
- Þorláksmessa knattspyrnuaðdáenda - 10. júní 2010