Hjúskaparstaða og hormónar

Það er ekki nóg með að hjúskaparstaða fólks sé eilíf uppspretta vangaveltna um lífið og tilveruna, lán og ólán og þar fram eftir götunum. Hjúskaparstaða fólks virðist nefnilega líka hafa bein áhrif á möguleika þess til að fjölga sér.

Það er ekki nóg með að hjúskaparstaða fólks sé eilíf uppspretta vangaveltna um lífið og tilveruna, lán og ólán og þar fram eftir götunum. Hjúskaparstaða fólks virðist nefnilega líka hafa bein áhrif á möguleika þess til að fjölga sér.

Nýleg rannsókn sem gerð var á 7000 ófrískum konum virðist staðfesta þetta, en af þessum fjölda misstu 600 konur fóstur. Óhætt er að segja að margt mjög áhugavert hafi komið fram í niðurstöðunum.

Samkvæmt þeim voru konur sem ekki bjuggu með barnsföður sínum eða voru einhleypar 73% líklegri til að missa fóstur. Ennfremur sýndi rannsóknin fram á það að konur sem voru ófrískar eftir annan mann en feðrað hafði þau börn sem konan átti fyrir, voru 66% líklegri til að missa fóstur en þær konur sem voru ófrískar eftir feður fyrri barna þeirra.

Fyrri rannsóknir hafa sýnt fram á að streita geti truflað þá hormónastarfsemi sem hefur áhrif á innri þekju móðurkviðs, og telja rannsakendur að líklegast megi rekja niðurstöðurnar til aukinna streituþátta sem þessar konur búa við. Þannig spili áhyggjur af stöðugleika sambands og af því að vera ekki í sambandi stórt hlutverk í velgengni fósturs á meðgöngu. Sömuleiðis kom á daginn að konur sem lenda í fleiri en tveimur mjög streituvekjandi atburðum, búa við þrisvar sinnum meiri líkur á fósturláti.

Fyrir liggur þó að almennt endar ein af hverjum fimm meðgöngum með fósturláti á fyrstu vikunum eða jafnvel áður en konan áttar sig á ástandi sínu. Á því hafa engar klárar skýringar fundist, en eitthvað verður þá yfirleitt til þess að sitthvað fer úrskeiðis í fósturþroskanum, og líkaminn losar sig einfaldlega við fóstrið sem aldrei átti þá viðreisnar von.

Þyngdarstuðull (BMI, body mass index) kvenna virðist sömuleiðis hafa áhrif, en of grannar konur með stuðul undir 18.5 voru í 72% meiri hættu á að missa fóstur heldur en þær konur sem voru með stuðul 18.5 – 24.9. Hinsvegar kom á óvart að offita virtist ekki auka þessa hættu.

Ennfremur staðfesti rannsóknin eldri niðurstöður sem sýndu að hin víðfræga og alræmda morgunógleði er klárt merki um að meðganga gangi vel og að daglegt súkkulaðiát hafi jákvæð áhrif og minnki líkur á fósturláti um nærri 20%!

Af slíkum vísindalegum niðurstöðum, leik með líkindi og prósentur má auðvitað draga ýmsar óvísindalegar ályktanir. Ein þeirra gæti til að mynda verið sú að hin gömlu gildi samfélagsins um barneignir innan hjónabands og með sama maka séu ef til vill ekki eins úreld og nútímafólk vill meina.

Heimildir:
New Scientist

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.