Please Don’t Hate Me er frumburður tónlistarmannsins Lovísu Elísabetar eða Lay Low. Lay Low hélt útgáfutónleika í gær fyrir troðfullu húsi í Fríkirkjunni. Það var ekki laust við að Lay Low væri hrærð yfir þeim fjölda sem þarna var mættur og sömuleiðis viðtökunum sem hún fékk. Bæði átti hún þó fyllilega skilið enda einstaklega skemmtilegur diskur og góður tónlistarmaður þarna á ferð.
Lay Low er aðeins 24 ára gömul en hefur frá unga aldri stundað tónlistarnám og er nú við nám í tónsmíðadeild Listaháskóla Íslands. Á Please Don’t Hate Me er tónlist sem er nokkurs konar sambland af blús, rokki og kántrí-tónlist, eins og segir á heimasíðu útgáfufyrirtækis hennar, Cod Music. Blús, rokk og kántrí er óneitanlega tónlist sem flestir tengja við Bandaríkin, enda hefðu tónleikarnir líklega sæmt sér vel inni í reykmettuðum blús-klúbb í Chicago þar sem tónleikagestir hefðu setið með bjór í hönd og spjallað við tónlistarmanninn í hléi.
Á undanförnum árum höfum við séð marga frambærilega tónlistarmenn spretta fram á sjónarsviðið. Öflug tónlistarkennsla og nám á væntanlega sinn þátt í því. En þó tónlistarnámið sé mikilvæg undirstaða þá þarf líka að vera einhver framtíðarvon til að menn sjái sér hag í því að semja og gefa út tónlist. Það er væntanlega ekkert sældarlíf að vera tónlistarmaður á Íslandi og sennilega framfleyta flestir íslenskir tónlistarmenn sér á einhverju öðru en bara tónlistinni. Það er þó einn afskaplega einfaldur hlutur sem við getum gert til að ráða bót á þessu en það er að styðja við bakið á íslenskri tónlist með því að kaupa diskana og fara á tónleikana. Það er að minnsta kosti algjört lágmark að menn sjái sóma sinn í því að stela ekki tónlistinni með ólöglegri fjölföldun og njóti hennar síðan óspart án þess að láta neitt af hendi rakna.
Það er því óskandi að þetta verði íslensk tónlistarjól líkt og íslensk bókajól og menn flykkjist til að kaupa tónlist eftir innlenda tónlistarmenn og hvetji þannig tónlistarmenn til dáða.
Fyrir þá sem eru tæknivæddari má hlusta á tónlist og lesa um tónlistarmanninn á http://www.myspace.com/baralovisa
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020