Flugstöð Leifs Eiríkssonar, af vefnum www.airport.is.
|
Síðustu vikur hefur ríkisstjórn Íslands í tvígang brugðið frá þeirri grundvallarstefnu sinni að draga ríkið út úr samkeppnisrekstri og láta einkaaðilum eftir að vinna þau verk sem heppilegra er að þeir sinni. Þessi furðulega ríkisvæðing er stílbrot og veldur miklum vonbrigðum.
Frá því að samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hófst vorið 1995 hefur verið mörkuð sú grundvallarstefna að draga ríkisvaldið með markvissum hætti út úr samkeppni við einkaaðila og leyfa kostum hins frjálsa markaðar að njóta sín. Hvergi er árangurinn af þessari stefnu sýnilegri en á íslenska fjármálamarkaðnum sem orðinn er meginstoð íslensks efnahagslífs.
Frá þessari stefnu eru nokkur stílbrot og eitt af því sem gagnrýnt hefur verið sem mest af þeim sem láta sér annt um markaðsfrelsi og lágmarksríkisafskipti er staða ríkisins á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Ríkisrekstur fjölmiðla á ekki rétt á sér frekar en annar atvinnurekstur ríkisins í samkeppni við einkaaðila og þegar til stendur að binda hendur einkaaðila með margvíslegum takmörkunum samkvæmt s.k. fjölmiðlafrumvarpi á sama tíma og ríkisreksturinn er efldur til muna, þá er ástæða til að rísa upp gegn slíkum tilburðum.
En ríkisrekstur á fjölmiðlamarkaði er þó ekki til umfjöllunar í þessum pistli heldur nýlegar ráðstafanir tveggja ráðherra ríkisstjórnarinnar sem fela í sér afturhvarf til ríkisafskipta. Á þeirri fyrri ber samgönguráðherra Sturla Böðvarsson ábyrgð, þar sem undirstofnun hans, Íslandspóstur, festi nýlega kaup á prentþjónustufyrirtækinu Samskipti ehf. Með kaupunum er ríkisfyrirtækið Íslandspóstur komið í beina samkeppni við aðrar prentsmiðjur á markaði. Þessi sókn hins opinbera inn á samkeppnismarkað er með öllu óþolandi. Samgönguráðherra hefur reyndar síðar sett fram athyglisverðar hugmyndir um greiðari aðkomu einkaaðila að vegaframkvæmdum og því er ástæða til að binda vonir við að ríkisvæðingarskrefið á prentmarkaði hafi verið undanþága frá grundvallarstefnu ráðherrans.
Síðari ráðstöfunin sem um ræðir varðar þá ákvörðun Valgerðar Sverrisdóttur, utanríkisráðherra, að fela sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli þann hluta öryggiseftirlits sem fyrirtækin Securitas og Öryggismiðstöð Íslands hafa haft með höndum á flugvellinum síðustu misseri. Eftir því sem best verður séð miðað fjárveitingu til sýslumannsins mun kostnaður við öryggiseftirlit á flugvellinum aukast um 44% við þessa ríkisvæðingu – og þarf það í sjálfu sér ekki að koma á óvart.
Það sem einkum er gagnrýnisvert við þessa ráðstöfun utanríkisráðherra er sú staðreynd að viðkomandi einkaaðilar hafa sýnt fram á að þeir geta rekið þessa þjónustu í samræmi við ítrustu kröfur viðurkenndra eftirlitsaðila og með mun lægri tilkostnaði en opinberir aðilar. Þar að auki gengur þessi ákvörðun beinlínis gegn nýlegri útvistunarstefnu ríkisins, að ekki sé minnst á grundvallarstefnu ríkisstjórnarinnar. Utanríkisráðherra hefur ekki gert minnstu tilraun til að rökstyðja þessa ráðstöfun sína. Það vekur í sjálfu sér ekki mikla athygli því rök fyrir þessari ríkisvæðingu eru vandfundin.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021