Sean Bell með verðandi eiginkonu sinni og barni.
|
Á aðfaranótt sunnudags, aðfaranótt brúðkaupsdags síns var Sean Bell skotinn til bana í New York. Tveir félagar hans hlutu einnig skotsár og annar þeirra varð fyrir ellefu skotum. Í kúlnahríðinni skutu fimm óeinkennisklæddir lögreglumenn um fimmtíu skotum að bíl þeirra félaga. Þessi atburður hefur hlotið heimsathygli, einkum vegna þess að þremenningarnir voru óvopnaðir blökkumenn.
Atburðarásin hófst með því að þremenningarnir lentu í orðaskaki við lögreglumennina, sem voru að rannsaka meinta ólöglega starfsemi á skemmtistað. Samkvæmt vitnisburði lögreglumannanna mun einhver þremenninganna hafa nefnt byssu og haft í hótunum. Í kjölfarið settust þeir inn í bíl og Bell ók á einn lögreglumannanna og tvívegis á ómerktan lögreglubíl. Ekki hefur komið fram hvort Bell og félagar vissu að mennirnir voru lögreglumenn.
Ýmsir sögðu að lögreglumennirnir sem skutu Diallo hefðu brugðist öðruvísi við hefði hann verið hvítur.
|
Vissulega er mjög alvarlegt mál að ekið sé á gangandi vegfaranda og vísvitandi á bíl og stórmál að ráðist sé að lögreglu með þeim hætti. Það er erfitt að ímynda sér viðbrögð þeirra sem áttu í hlut, í myrkri og við spennuþrungnar aðstæður. En það er öllum ljóst núna – eftir á – að laganna verðir brugðust allt of hart við. Einn lögreglumannanna kláraði tvö skothylki og skaut alls 31 skoti að mönnunum.
Þetta mál þykir um margt minna á það þegar annar blökkumaður, Amadou Diallo var skotin til bana í skuggalegu hverfi í New York árið 1999. Þá báðu fjórir lögreglumenn hann að nema staðar þar sem hann stóð fyrir utan heimili sitt. Hann varð hræddur og brást flemturslega við. Í kjölfarið skutu lögreglumennirnir 41 skoti að honum og hittu hann 19 sinnum. Í báðum þessum tilfellum hleypa vel þjálfaðir lögreglumenn tugum skota af á örskömmum tíma en innan við helmingur þeirra hæfir skotmarkið.
Breska lögreglan taldi mögulegt að Menezes væri með sprengju í bakboka.
|
Þriðja málið sem er enn í fersku minni á er dauði hins brasilíska Jean Charles de Menezes sem var skotinn til bana skömmu eftir sprengjuárásir í London í júlí í fyrra. Hann var skotinn átta sinnum, þar af sjö sinnum í höfuðið. Breskir löggæslumenn töldu sig vera að elta mann sem hafði verið undir eftirliti vegna tengsla við hryðjuverkamenn og hann gæti verið með sprengju.
Ég hef mikla samúð með lögreglumönnum sem þurfa fyrirvaralaust að taka ákvarðanir sem geta haft svo skelfilegar afleiðingar. Þeir eiga það líka á hættu að láta sjálfir lífið ef þeir hika á röngu augnabliki. Það er einmitt þess vegna sem við eigum að forðast að lögreglumenn á Íslandi beri vopn. Örfá tilvik koma upp þar sem lögreglumönnum er ógnað með skotvopnum og þegar það gerist er sérsveitin boðuð. Hingað til hefur þetta ferli gengið farsællega.
Ákvörðun um beitingu vopns til sjálfsvarnar er sjaldnast tekin eftir vandlega íhugun og kúlunni verður ekki snúið við eftir að þrýst er á gikkinn.
- Línuleg menntun er liðin tíð - 31. mars 2021
- Afstæði á tímum Covid - 25. febrúar 2021
- Auður og afl og hús og verðtrygging - 30. janúar 2021