Hver sá sem ákveður að viðhafa ummæli á opinberum vettvangi opnar um leið fyrir mögulega gagngrýni og dóma þeirra sem á hlýða, og af frétta. Sumir kunna þá lyst betur en aðrir að nýta sér fjölmiðla og umfjöllum þeirra til að vekja athygli á sér og sínum málsstað meðan aðrir virðast hafa mjög takmarkaða tilfinningu fyrir því hvað er gott og hvað er slæmt að segja. Það sama gildir um val á þeim vettvangi sem menn kjósa til að deila skoðunum sínum á.
Ummæli og skrif geta þjónað margvíslegum tilgangi, eins og að svara spurningum, skýra afstöðu eða einfaldlega vekja athygli en oft og tíðum veltum við því fyrir okkur, hvers vegna í ósköpunum fólk lætur ákveðna hluti út úr sér. Þótt í flestum aðstæðum megi gera ráð fyrir því að fólk sé í nægu jafnvægi til að segja eða skrifa aðeins hluti sem það getur staðið við þá er sömuleiðis ljóst að ákveðnar aðstæður eru betur til þess fallnar en aðrar til að fá fólk til að segja eitthvað vanhugsað, eða jafnvel hugsa upphátt. Gott dæmi um slíkt eru viðtöl í beinni útsendingu fjölmiðla og annars konar aðstæður sem krefjast skjótra hugsana og svara. Sömuleiðis er fólk missterkt á eigin svelli og á það til að segja hluti til að þóknast viðmælendum sínum eða vegna þess að það telur sig öruggt í hópi skoðanabræðra eða systra. Ummæli sem falla undir slíkum kringumstæðum þola oft illa dagsins ljós og athygli almennings.
Kvikmyndin um fréttamanninn Borat hefur farið sigurför víða um lönd og kitlað hláturtaugar fjölda kvikmyndahúsagesta. Þótt myndin sé vissulega fyndin og verulega gaman megi hafa af henni þá er í henni að finna mjög sterka ádeilu, sérstaklega á ákveðna hluta bandarísks samfélags. Myndin hefur mun meiri dýpt heldur en sést á garslafullu yfirborðinu og hópur fólks opinberar sig algjörlega í myndinni sem viðmælendur hins tilbúna fréttamanns frá Kazakhstan.
Atriðið sem tekið er upp á ótemjureiðunum (e. Rodeo) þar sem Borat ræðir við miðaldra Bandaríkjamann er eitt dæmið um það þegar einhver telur sig vera innan um einhverja sem deila hans skoðunum. Aðeins með því að gefa tóninn í afstöðu síns lands til samkynhneigða kom hin tilbúna persóna, Borat, manninum á flug þar sem maðurinn deildi sínum vægast vafasömu skoðunum með honum og kvikmyndahúsagestum um allan heim. Maðurinn hefur orðið fyrir aðkasti í kjölfarið á vinsældum myndarinnar og hefði e.t.v. betur hugsað sig tvisvar um áður en hann lét skoðanir sínar í ljós fyrir framan myndavél.
Bandarísku stúdentarnir sem leika stórt hlutverk í öðru atriði í myndinni féllu í sama pitt með athugasemdum sínum um konur og minnihlutahópa í Bandaríkjunum. Nú eftir að myndin hefur náð þessum vinsældum hafa þeir kosið að reyna að verja mannorð sitt með því að stefna kvikmyndafyrirtækinu og bera því við m.a. að þeim hafi verið sagt myndin yrði aldrei sýnd innan Bandaríkjanna. Það er nú einu sinni þannig að sum ummæli eru alls ekki réttlætanleg óháð því hvar eða undir hvaða kringumstæðum þau falla og afsakanir um að það hafi verið gert fyrir aðra eða á einhverjum sérstökum forsendum eru harla léttvægar í því samhengi. Stúdentarnir hafa þurft að þola slæma umfjöllun og neikvæða athygli í kjölfar myndarinnar og hafa væntanlega lært þá lexíu að tjá ekki skoðanir sem þeir telja sig ekki geta staðið við í myndavél.
Myndin er uppfull af vísunum þar sem höfundurinn snýr einhvern veginn á hvolf viðteknum viðmiðum meðal fólks, viðmiðum sem mikið til hafa orðið til í hugum manna af vanþekkingu og fordómum. Hvort sem fólk hefur gaman af gríninu í myndinni, þá er hún mjög fróðleg út frá þeim raunveruleika sem hún býður okkur að kynnast.
Í ljósi þeirrar greinar sem kennd hefur verið við almannatengsl er einnig áhugavert að fylgjast með þróun ýmissa mála í heiminum þar sem persónur og hópar kljást við það verkefni að vinna fólk aftur á sitt band eftir kauðaleg ummæli, slælegt gengi eða einhvers konar uppákomur. Hér á landi þekkjum við nokkur nýleg dæmi.
Ummæli Jóns Magnússonar og Magnúsar Þórs Hafsteinssonar um útlendingamál á Íslandi vöktu hörð og mikil viðbrögð. Hvort ummælin voru látin falla til að vekja athygli á málinu eða flokki Magnúsar Þórs skal ósagt látið, en ljóst er að þau vöktu athygli og því áhugavert að sjá hvort þeim verði kápan úr þessu klæðinu og hvernig aðrir flokkar munu bregðast við í kjölfarið.
Jón Sigurðsson formaður Framsóknarflokksins er e.t.v. að reyna svipaða tækni og Magnús Þór þegar hann kom fram um helgina með yfirlýsingu um að stuðningur við stríðið í Írak hafi verið mistök. Flokkurinn er í svipaðri stöðu og flokkur Magnúsar Þórs og þarf nauðsynlega á einhvers konar athygli að halda á kosningaárinu til þess að forðast mikið fylgistap. Það má búast við að í kjölfar helgarinnar birtist skoðanakönnun um fylgi flokkanna og verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr því.
Árni Johnsen hefur verið á milli tannanna á fólki fyrir „tæknileg mistök“. Hvernig Árna og félögum vinnst úr þeirri stöðu sem nú er komið upp á eftir að koma í ljós en það verður vissulega áhugavert að fylgjast með því á næstu mánuðum í hvaða farveg umræðan um hans mál þróast.
Tína má til fjölda annarra dæma af sambærilegum toga þar sem fólk er annað hvort að reyna að vinna sér stöðu eða leiðrétta klúður í kjölfar fyrri ummæla eða aðgerða. Skopmyndateikningarnar í Danmörku, ummæli Benedikts Páfa fyrr á árinu og nú síðast upptaka þar sem leikarinn Michael Richards, betur þekktur sem Kramer úr Seinfeld þáttunum, lendir í munnlegum útistöðum við áhorfanda af öðrum kynþætti á uppistandi sem hann kom fram á. Í síðastnefnda dæminu berst leikarinn nú fyrir því að endurheimta æruna og orðsporið eftir vægast sagt óviðeigandi ummæli. Ef lesendur Deiglunnar hafa gaman af því að velta slíkum málum fyrir sér frá sjónarhóli almannatengsla og ímyndarstjórnunar þá geta þeir fylgst með ofangreindum málum og þróun þeirra sér til ánægju og yndisauka.
- Hitamál vikunnar - 11. ágúst 2007
- Allt vitlaust á vellinum - 12. júní 2007
- Stjórnarjafnan - 4. mars 2007