Almenningur hefur ekki orðið varhuga af því að það ríkir kosningavetur á Íslandi. Fréttir og umræðuþættir í hvers kyns fjölmiðlum litast af umfjöllun um prófkjör og prófkjörsframbjóðendur, aðferðir við val á listum, fylgisskoðanakannanir, frammistöðu og afkastasemi þingmanna og hvaðeina annað sem vekur athygli í aðdraganda þingkosninga.
Eitt af því sem fjallað hefur verið um síðustu daga er eignarhald á þingsætum ef svo mætti kalla. Á kjörtímabilinu hefur það borið við að þingmenn hafa sagt sig úr flokkum og ýmist skipt um flokk eða sitja á þingi utan þingflokks. Ekki eru allir á eitt sáttir um hvort menn, sem ekki tilheyra lengur þeim flokki sem þeir voru kjörnir á þing fyrir, eigi yfirleitt áfram þingsæti sín.
Áður en hinar eiginlegu kosningar til Alþingis fara fram fer fram val á lista þeirra flokka sem taka þátt í kosningunum eftir hinum ýmsu kúnstarinnar reglum. Algengasta leiðin er prófkjörsleiðin en aðrar leiðir, svo sem uppröðun, þekkjast einnig. Hvaða leið sem farin er til að velja þá einstaklinga sem skipa lista flokkana í alþingiskosningum er ljóst að útkoman er listi einstaklinga sem sitja hann í umboði flokksmanna sinna, hvort sem þeir hafa valið þá sjálfir eða framselt það vald í hendur annarra með lýðræðislegum hætti.
Pistlahöfundur er þeirrar skoðunar að á meðan skipulag kosninga er með þeim hætti sem nú er sé ekki forsvaranlegt að þingmenn skipti um flokka á miðju kjörtímabili eða sitji á þingi utan þingflokka.
Þegar kemur að alþingiskosningum og listar flokkanna eru lagðir fram er lögð áhersla á að kynna kjósendum stefnu flokkanna í hverju kjördæmi fyrir sig, en minni áhersla lögð á að kynna einstaka frambjóðendur. Í óformlegri könnun sem gerð var á Bylgjunni í dag virtist jafnframt vera skilningur flestra að þegar þeir sætu í kjörklefanum væru þeir að kjósa stefnu þeirra flokka sem í framboði væru en ekki einstaka frambjóðendur. Þau litlu áhrif sem kjósendur geta haft á uppröðun þingmanna í alþingiskosningunum sjálfum, með útstrikunum eða tölusetningu, breyta þar engu um. Slíkar tilfæringar eru ekki mögulegar nema á lista þess flokks sem þú veitir atkvæði þitt og hafa áhrif þegar við kosningarnar. Þannig er sú uppröðun þingmanna sem sest á þing eftir alþingiskosningar sá listi sem kjósendur viðkomandi flokks hafa valið og verður því að líta svo á að þingmennirnir sitji í umboði kjósenda flokksins. Kjósi þeir, sem kjörnir eru á þing fyrir ákveðinn flokk, að segja skilið við flokk sinn, verður að telja að þeim beri jafnframt að standa upp úr þingsætum sínum og eftirláta þau þeim sem næstur er á lista flokksins og hefur umboð kjósenda til starfa.
- Þrautaganga þingmáls - 11. júní 2021
- Af flísum og bjálkum - 25. apríl 2010
- Já-kvæði - 27. ágúst 2008