Milton Friedman, lést í gær 94 ára að aldri. Dánarmein Friedmans var hjartabilun. Friedman var einn áhrifamesti baráttumaður fyrir frjálshyggju og markaðshyggju á öldinni sem leið. Ben Bernanke, núverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, sagði um Friedman árið 2003 að “hugmyndir hans hafa gegnsýrt þjóðhagfræði svo gjörsamlega að helsti vandinn við að lesa skrif hans í dag er að kunna að meta hversu frumlegar og stundum jafnvel byltingakenndar þær voru þegar hann setti þær fram.” Áhrif Friedmans á stjórnmálaþróun 20. aldarinnar voru mikil og víðtæk. Hann var mikilvægur ráðgjafi Margrétar Thatcher, Ronald Reagan, Augusto Pinochet og fleiri. En auk þess höfðu skrif hans gríðarleg áhrif á marga leiðtoga og áhrifamenn um allan heim.
En Milton Friedman var einnig risi innan hagfræðivísindanna. Aðeins örfáir aðrir, svo sem John Maynard Keynes og Paul Samuelson, komast með tærnar þar sem hann hefur hælana varðandi varanleg áhrif innan hagfræðivísindanna á 20. öldinni. Stærsta byltingin í þjóðhagfræði á síðari hluta 20. aldarinnar var innleiðing hugmyndarinnar um að fólk sé framsýnt. Skrif Friedmans um áhrif varanlegra tekna á neyslu (e. permanent income hypothesis) og verðbólguvæntinga á samband verðbólgu og atvinnuleysis (e. expectations augmented Phillips curve) voru stór framfaraskref í þróun þessara hugmynda.
Friedman hafði einnig meiriháttar áhrif á hugmyndir hagfræðinga um áhrif peningamagns á verðlag og hagsveiflur. Á tíma þegar peningamál nutu ekki mikillar athygli hagfræðinga færði hann rök fyrir því að stjórn peningamála væri einn mikilvægasti áhrifavaldur hagsveiflna. Árið 1963 gáfu hann og Anna Schwartz út bókina “A Monetary History of the United State, 1867-1960.” Í bókinni færðu þau meðal annars rök fyrir því að mistök í peningamálastjórn Bandaríkjanna hafi átt stærstan þátt í því að orsaka kreppuna miklu. Árið 1967 spáði hann því að þáverandi hugmyndir hagfræðinga um peningamálastjórn myndu valda ört vaxandi verðbólgu og atvinnuleysi á 8. áratuginum. Þessi spá rættist og hugmyndir Friedmans um ástæður þess lögðu grunninn að peningamálastjórn síðustu 30 ára.
Friedmann var afburða snjall ræðumaður. Hann á heiðurinn að nokkrum af ástælustu frösum hagfræðinnar. Þar á meðal: “There is no such thing as a free lunch” og “Inflation is always and everywhere a monetary phenomenon.” Hugmyndir hans breyttu heiminum til hins betra.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009