Í byrjun þessa mánaðar var loks kveðinn upp dómur yfir Saddam Hussein fyrrum forseta Íraks. Var hann dæmdur til dauða fyrir glæpi gegn mannkyninu. Samkvæmt þarlendum lögum hefði Saddam átt að taka út refsinguna og verða hengdur eigi síðar en 3 vikum eftir að dómur var uppkveðinn. Dómnum var þó eins og við var að búast af heilum her lögfræðinga Saddams áfrýjað og er úrskurðar hæstaréttar að vænta í byrjun desember. Hér er þó aðeins um að ræða úrskurð fyrstu réttarhaldanna yfir Saddam, en í þeim voru hann og sjö samstarfsmenn hans sakaðir um að hafa fyrirskipað morð á 148 sjítum í þorpinu Dujail árið 1982, sem hefndaraðgerð fyrir mislukkaða aðför að lífi Saddams.
Skömmu áður en Saddam var dæmdur til dauða fullyrti einn af lögfræðingum hans að yrði hann tekinn af lífi þá myndu ‘hliðin að helvíti’ opnast í Írak og vísaði til þess að slíkur dómur yrði olía á elda þeirra trúarfylkinga sem eiga í trúardeilum í landinu. Í framhaldi hafa fjölmiðlar og málsmetandi menn um víða veröld keppst við að lýsa afstöðu sinni til dómsins og miklar umræður skapast um það hvort þyrma skuli lífi Saddams eður ei.
Einna fyrstur af evrópskum ráðamönnum kvað utanríkisráðherra Ítalíu sér hljóðs og lýsti sig eindregið mótfallinn því að forsetinn fyrrverandi yrði tekinn af lífi. Annars vegar vegna þess að dauðarefsing sé andstæð grundvallarhugmyndum Evrópumanna og hinsvegar vegna þess að slíkur dómur gæti hrundið Írak út í þá borgarastyrjöld sem landið virðist vera á barmi á þessa stundina. Ráðamenn fleiri þjóða fylgdu síðan í kjölfarið á svipuðum nótum.
Frá vestrænu sjónarhorni er afskaplega auðvelt og sjálfsagt að taka undir þessar raddir og samsinna Ítölum – en það virðist samt nær ómögulegt að segja til um hvort að viðsnúningur dómsins muni endilega hafa þau áhrif að líkur á átökum minnki. Gæti slíkur viðsnúningur frá austrænu sjónarhorni ekki einmitt verið álitinn vera vanvirðing við fórnarlömb ógnarstjórnar Saddams í samfélagi sem samþykkir slíkar refsingar? Því miður virðist þannig vera sem að hætt sé við því að hið eldfima ástand þoli hvorugan dóminn.
- Afstæðar og óbærilegar raunir - 25. mars 2021
- Konan sem vissi ekki að hana vantaði jarðskjálfta - 22. október 2020
- Offita og aumingjaskapur - 15. ágúst 2007