Tugir mótmælenda komu saman við utanríkisráðuneytið í gær og mótmæltu árásum Ísraelshers á íbúðahverfi í bænum Beit Hanoun á Gasasvæðinu fyrir viku síðan. Tilefnið var fundur Miryam Shomrat, sendiherra Ísraels á Íslandi með aðsetur í Noregi, og Valgerðar Sverrisdóttur utanríkisráðherra. Átján manns létu lífið í árásunum, allt óbreyttir borgarar.
Átök á Gasasvæðinu hafa verið næstum daglegt brauð svo lengi sem menn muna. Íbúar Vesturlanda virðast kippa sér lítið upp við fréttir af slíkum atburðum og flestir verða væntanlega búnir að gleyma atburðunum í Beit Hanoun í næstu viku. Fámennur hópur Íslendinga sýndi þó hug sinn í verki í gær og mótmælti komu sendiherrans.
Pistlahöfundur er ósköp dæmigerður Íslendingur. Sama hversu sannfæring hans er heit og sama hversu mikið honum misbýður eitthvað sér hann sjaldnast ástæðu til að taka þátt í fjöldamótmælum. Það er einhvern veginn ekki innstillt í okkur Íslendinga að mótmæla hlutunum. Við erum seinþreytt til vandræða og svo framarlega sem enginn abbast upp á okkur erum við ekki mikið fyrir það að skipta okkur af öðrum. Við sitjum passíft hjá í stað þess að framkvæma. Þá sjá fæstir sér fært að taka þátt í mótmælum eins og þeim sem fram fóru í gær, enda allir uppteknir í vinnu – og hvaða fólk er það sem kemst frá á miðjum degi til að fylgja sannfæringu sinni? Íslendingar eru svo slappir í mótmælum að erlendir mótmælendur sjá ástæðu til að flykkjast til landsins til þess að klifra upp í krana og hlekkja sig við byggingar, enda myndum við seint taka upp á slíku.
Auðvitað er hinn gullni meðalvegur bestur í mótmælum sem öðru. Frakkar og Ítalir eru dæmi um öfgarnar í hina áttina, þar sem menntaskólanemar hlekkja sig við ofnana í skólastofunum til að mótmæla skorti á kyndingu og samgöngur riðlast að meðaltali einu sinni í mánuði vegna verkfalla lestarstjóra, rútubílstjóra o.s.frv. Pistlahöfundur getur samt ekki annað en dáðst að þjóðum sem standa saman þegar þeim er nóg boðið og mótmæla friðsamlega. Fjöldamótmæli í Ungverjalandi rötuðu í fréttirnar í vetur þegar upp komst að forsætisráðherra landsins hafði sagt ósatt um efnhagsástand í landinu. Slíkt myndi aldrei gerast hér á landi. Hér komast stjórnmálamenn upp með hvaðeina, enda verður allt gleymt áður en vikan er liðin. Þess í stað hljóta stjórnmálamenn, sem iðrast ,,tæknilegra mistaka” sem enginn tapaði á, brautargengi í prófkjörum og öruggt þingsæti.
Þó er samt eins og Íslendingar séu aðeins að vakna til lífsins – það eru ákveðnir hlutir sem okkur er ekki sama um og við erum tilbúin til að berjast fyrir. Fjöldaganga Ómars Ragnarssonar fyrir nokkrum vikum og almenn vakning til verndar umhverfinu sýna það svo ekki verður um villst.
Þótt pistlahöfundur hafi ekki lagt það í vana sinn að þramma í mótmælaskyni fagnaði hann aðgerðum mótmælenda við utanríkisráðuneytið í gær – enda hefur forsíðumynd Morgunblaðsins frá því í síðustu viku af karlmanni í Beit Hanoun, haldandi á líki lítils barns, vart horfið úr huga undirritaðar. Þvílík grimmd og mannvonska. Ef hægt er að koma í veg fyrir morð á óbreyttum borgurum þá er það þess virði að standa upp og sýna mótmæli í verki.
- Árleg mannekla - 18. september 2007
- Lítilla breytinga að vænta - 5. maí 2007
- Jarðgangagerð, opinber störf og niðurgreiðslur - 17. mars 2007