Mörgu er gjarnan snúið á haus. Í opinberum umræðum geta menn oft komist hæglega upp með að skapa sjálfum sér samúð á meðan þeir ráðast harkalega og ómálefnalega að varnarlausu – og stundum eru það þeir sem benda á misgjörðir annarra sem fá álit almennings gegn sér. Þeir sem vilja ala á tortryggni í garð útlendinga virðast til að mynda eiga mjög auðvelt með að gera fórnarlömb úr sjálfum sér með því að grenja undan gagnrýni – og gera lítið úr öllum sem andmæla þeim með því að ásaka þá um hugsunarlausan pólitískan rétttrúnað. En hvað í veröldinni er pólitísk rétthugsun – og hvað er svona slæmt við hana?
Í hugtakinu pólitísk réttthugsun felst fyrst og fremst sú viðleitni manna að haga máli sínu þannig að fólk sé ekki sært að óþörfu. Reyndar felst það einnig í pólitískri rétthugsun að ákveðin málefni eru talin svo augljós og margsönnuð að óþarfi sé að ræða þau nánar. Það er til að mynda algjör óþarfi að ræða það hvort ólíkir kynþættir manna hafi mismikla andlega burði eða hvort tiltekið höfuðlag manna bendi til glæpahneigðar. Vísindin hafa svarað þessum spurningum. Umræða sem fer fram á forsendum kynþáttahyggju hefur ekkert gagn. Hún getur ekki annað en meitt og sært saklaust fólk. Slíkri umræðu ber ekki að fagna – þótt engin ástæða sé heldur til þess að þagga niður í henni eða banna hana.
Að sama skapi og ekki er þörf á því að ræða um mismunandi gáfur kynþátta, eða aðra eðliskosti á grundvelli uppruna, þá er engin sérstök þörf á því í vísindum að velta fyrir sér spurningunni um hvort jörðin sé flöt. Jafnvel þótt einhverjir rugludallir haldi því fram að svo sé og heimti að sjónarmið þeirra sé tekið jafngilt á við viðteknar skoðun – vísindalegan rétttrúnað – þá er slíkt tal mesti óþarfi. Ef einhver heldur því fram að jörðin sé flöt eins og diskur og standi á baki risavaxinnar skjaldböku sem borði kókópöffs í hvert mál og þess vegna sé moldin brún þá er svo sem ekkert við því að segja. Mönnum er frjálst að vaða í sinni villu. Hins vegar er mesti óþarfi að „fagna umræðunni“ eða að álykta sem svo að „öll umræða sé af hinu góða“ og að „mikilvægt sé að þagga ekki niður í þessum röddum.“
Þegar rætt er um málefni minnihlutahópa eiga stundum sömu rök við. Stundum er umræðan ekki endilega til góðs jafnvel þótt aðstæður kunni að skapast sem geri hana óhjákvæmilega. Þau eru mörg úrlausnarefnin sem fylgja búferlaflutningum fólks. Þannig hefur það alltaf verið en sem betur fer er sú staða uppi hér á landi að þessi vandamál eru mjög smávægileg.
Það eru því mjög góðar og gildar ástæður fyrir því að margir hrökkva verulega í kút þegar hér á landi upphefst umræða sem á tíðum hefur undirtón trúarbragðafordóma og elur jafnvel á sundurlyndi. Flestir vita að slíkt tal er óþarft og jafnvel skaðlegt. Þeir eru hins vegar til sem taka svona málflutningi fegins hendi og telja hann renna stoðum undir kreddur og fordóma sem þeir hafa alið með sér en ekki haft kjark til að bera á torg.
Upp á síðkastið hafa menn málað þann skratta á vegg að raunveruleg hætta sé á því að hér muni hópar taka að lifa eftir sjaría lögum. Það er látið að því liggja að frjálslynt fólk sé svo skyni skroppið – og svo útsósað af menningarlegu umburðarlyndi – að það þori ekki að gagnrýna nokkurn hlut í fari annarra. Jafnvel að þeir, sem eru hlynntir því að útlendingar fái að ganga inn í íslenskt samfélag, séu tilbúnir að sætta sig við að hér lifi menn eftir tvennum eða þrennum lögum eftir trúarbrögðum. Þetta halda menn að sé „pólitísk rétthugsun.“ Þetta er auðvitað hlægilegur áróður.
Þeir sem eru tortryggnir í garð útlendinga leyfa sér að nota orðin „pólítísk rétthugsun“ sem skammaryrði. Það er vitaskuld hægt að ganga of langt í nærgætni, jafnvel svo langt að það verður niðrandi, en það, að vilja hlífa saklausu fólki við fúkyrðaflaumi stjórnmálamanna, sem vilja fleyta sjálfum sér áfram á grundvelli tortryggni og hræðslu, er sannarlega ekki dæmi um að kröfur um siðsemi séu farnar út í öfgar. Gleymum því ekki að þeir sem ákveða að taka þátt í opinberri umræðu um þessi mál gefa skotleyfi á sjálfa sig. Hinir, sem sitja varnarlitlir undir árásum af þessu tagi, hafa ekkert val. Þeir báðu ekki um að umræðan hæfist og hæpið er að þeir „fagni umræðunni.“
Það að baula „Pólitísk rétthugsun!“ á andstæðinga sína ætti ekki að verða mönnum til framdráttar í umræðum. Eða viljum við að næst verði hægt að afskrifa menn úr umræðum með því að saka þá um „mannréttindaöfgar“? Kemur ef til vill sá tími þegar stjórnmálamaður getur slegið keilur með því að segja við andstæðing sinn: „Þú ert bara svo niðursokkinn í náungakærleik að það er ekkert við þig talandi.“
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021