Efnahags- og samfélagsþróun í þróunarríkjunum er, ásamt loftslagsbreytingum og öryggismálum, sennilega mikilvægasta verkefni alþjóðasamfélagsins á næstu árum og áratugum. Þróunarmálin skera sig úr, að minnsta kosti frá loftlagsbreytingunum, að því leitinu til að þau hafa verið eitt mikilvægasta verkefni alþjóðasamfélagsins í marga áratugi.
Í síðustu viku birti Þróunarstofnun Sameinuðu Þjóðanna sína árlegu skýrslu fyrir árið 2006 (Human Development Report 2006). Eitt af markmiðum skýrslunnar er að bera saman lönd með víðtækari mælingum en einungis þjóðarframleiðslu með því að taka einnig tillit til menntunar og lífslíka. Þessa þrjá þætti notar Þróunarstofnunin til að setja saman þróunarskala (Human Development Index) til að lýsa betur aðstæðum í hverju landi (þetta árið er Ísland í öðru sæti á eftir Noregi). Heildarmyndin sem skýrslan sýnir er vel þekkt — þróun gengur að mörgu leiti vel í Asíu en stendur í stað í Afríku. Lönd eins og Kína og Indland sýna frábæra þróun og jafnvel Bangladesh (þar sem ég bý núna), sem var mun aftar í þróunarmálum en Afríka á áttunda áratugnum, hefur sýnt mjög jákvæða þróun. Til dæmis hefur hlutfall ungs fólks í grunn og framhaldsskólum aukist úr 37% í 57%, lífslíkur hafa aukist úr 59 árum í 63 og landsframleiðsla á mann, leiðrétt fyrir verðlagi (GDP(PPP)), hefur aukist úr 1480 dollurum í 1870 frá árinu 1999 til 2004.
Því miður hefur þróunin í Afríku sunnan Sahara nánast staðið í stað síðan 1980. Ein helsta ástæðan fyrir stöðnuninni í Afríku er eyðnifaraldurinn sem hófst á áttunda áratuginum. Suður Afríka er eitt af þeim löndum sem hefur orðið fyrir hvað mestum áhrifum af faraldrinum en þar hafa lífslíkur lækkað úr 63 árum árið 1993 í rétt rúmlega 45 ár í dag. Ástæðan hefur meðal annars verið slæm stefnumótun — meðmæli Suður Afríska heilbrigðisráðherrans um að kjarngóð næring byggð á ávöxtum sé góð vörn gegn alnæmissmiti er bara nýlegt dæmi af mörgum. Þessi slæma stefnumótun Suður Afríku var tekin sérstaklega fyrir í ávarpi Stephen Lewis, sérstökum ráðunauti Sameinuðu Þjóðanna um alnæmi í Afríku á síðustu Alnæmiráðstefnunni í Toronto. Hvort sem að ráðstefnan hafði bein áhrif eða ekki er nýleg stefnubreyting Suður Afríku í alnæmismálum þar sem lagt er áhersla á viðurkenndar forvarnir og meðferðarúrræði að minnsta kosti mjög velkomin. Slíkum jákvæðum breytingum í stefnumótun fylgir því miður oft jafn neikvæð þróun annars staðar eins og til dæmis stefnumótun Robert Mugabe undanfarið sem hefur nánast lagt hagkerfi Zimbabve í rúst.
Eftir tilkomulítinn árangur í þróunarmálum fjölmargra ríkja er þörf á nýjum hugmyndum. Margar góðar hugmyndir hafa komið fram á síðustu misserum, til dæmis mætti nefna 5 milljón dollara verðlaunin sem milljónamæringurinn Mo Ibrahim ætlar að gefa besta leiðtoga Afríkuríkis samkvæmt vali rannsakenda frá Harvard háskóla. Verðlaunin eru aðeins gefin eftir að leiðtoginn látið af völdum og annar lýðræðislega kosinn leiðtogi hefur tekið við.
Annað nýtt dæmi er ætlun .com fumkvöðla eins og Pierre Omidyar stofnanda eBay og Stephen M. Case meðstofnanda America Online. Þeir stefna að því að þróa áfram örlánahugmyndina sem Muhammad Yunus hefur þróað og útfært í Bangladesh, og tryggði honum nýlega Friðarverðlaun Nóbels. Ætlunin er að berjast gegn fátækt með hjálp fyrirtækja sem stefna að hagnaði í stað hjálparstofnana sem þeir telja ósjálfbæra leið.
Hvort þessar nýju hugmyndir eigi eftir að virka og stuðla að áþreyfanlegum breytingum verður að koma í ljós. Því miður gæti þjóðarleiðtoga í Afríku þótt 5 milljón dollara verðlaunin heldur lítilfjörleg miðað við þá tugi eða hundruðir milljóna sem mætti kannski auðveldlega láta hverfa úr ríkissjóði. Einnig er líklegt að Omidyar og Case lendi í vandræðum við að útskýra hvernig þeir ætli að hjálpa fátækum með því að setja á fót gróðafyrirtæki sem býður þeim lán á himinháum vöxtum.
- Við, þau og loftslagsbreytingar - 20. júní 2007
- Veðjað á þakið - 24. mars 2007
- Kosningar í Bangladesh - 27. janúar 2007