Ólympískar skylmingar er íþróttagrein sem hefur vaxið mikið á Íslandi undanfarin ár. Árangur íslendinga hefur heldur ekki látið á sér standa þrátt fyrir að tiltölulega stutt sé síðan iðkun íþróttarinnar hófst fyrir alvöru hér á landi. Erlendis á þessi forna íþrótt sér hins vegar langa sögu og er víðsvegar mikilsmetin og vinsæl.
Búlgarskur skylmingameistari
Segja má að skylmingaiðkun á Íslandi í sinni núverandi mynd hafi hafist árið 1991 þegar til landsins kom búlgarskur skylmingameistari að nafni Nikolay Ivanov Matev. Nikolay skylmdist á níunda áratugnum með búlgarska landsliðinu sem var á meðal þeirra allra fremstu í heiminum á þeim tíma. Upphaflega var Nikolay fenginn til að kenna hérlendis á stuttu skylminganámskeiði en honum leist svo vel á land og þjóð að hann ákvað að setjast hér að og hefja uppbyggingu skylmingaíþróttarinnar á Íslandi.
Þrjár megingreinar skylminga
Skylmingum má skipta upp í þrjár megingreinar eftir sverðtegundum: Högsverð (sabre), lagsverð (Epée) og stungusverð (Foil). Talsverður munur er á milli þessarra þriggja keppnisgreina og er algengast að skylmingamenn einbeiti sér að einni tegund skylminga. Munurinn á milli þessarra greina liggur í stórum í eftirfarandi atriðum: stærð, lögun og þyngd sverðanna, leyfilegu skotmarki á líkama andstæðingsins og árásarreglum, s.s. hvort stungið er eða hoggið.
Áðurnefndur Nikolay var meistari í skylmingum með Höggsverði en áður en hann kom til landsins höfðu skylmingar með höggsverði ekki tíðkast á Íslandi. Nú er svo komið að Íslendingar einbeita sér nær eingöngu að skylmingum með höggsverði.
Frábær árangur
Aðsóknin í skylmingaiðkun hefur verið mikil á þessum fimmtán árum og hefur þurft að vísa mörgum frá sökum húsnæðis- og fjárskorts. Auk þess sem skylmingaæfingar hafa ekki verið auglýstar í mörg ár, heldur hefur aðsóknin að barna og unglingaæfingum að mestu “spurst út”.
Á einungis fimmtán árum hafa íslenskir skylmingamenn náð þeim árangri að verða fremsta skylmingaþjóð Norðurlanda með höggsverði. Hafa íslendingar nánast einokað verðlaunapallana á norðurlandameistarmótum. Besti árangurinn náðist líklega á Norðurlandameistarmótinu sem haldið var í Svíðþjóð í fyrra, en þá unnu Íslendingar gull í öllum flokkum! Íslendingar sigruðu í opnum flokki, 50+ , U21, U17, U15 og U13 auk liðakeppni – allt bæði í karla og kvennaflokkum. Íslendingar hafa einnig staðið sig vel á stærri mótum. Íslendingur hefur komist lengst í 16 manna úrslit á heimsbikarmóti, 32 manna úrslit á heimsmeistaramóti auk þess sem nokkrir íslendingar hafa komist á verðlaunapall eða sigrað á mismunandi mótum í norður-evrópsku bikarmótaröðinni.
Nokkrir Íslendingar eru einnig ofarlega á heimslista alþjóða skylmingasambandsins og eru þeir efstu:
Ingibjörg Guðlaugsdóttir, 46. sæti á heimslista kvenna U21.
Guðrún Jóhannesdóttir, 83. sæti á heimslista kvenna.
Ragnar Ingi Sigurðsson, 146. sæti á heimlista karla.
Fjölmiðlaumfjöllun
Í kjölfar þessarar upptalningu er óhjákvæmilegt er að skjóta þeirri spurningu að hvers vegna skylmingaíþróttin fær ekki meiri umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum en raun ber vitni um. Því árangurinn hefur svo sannarlega verið mun betri en í mörgum öðrum íþróttum sem fá mun meiri umfjöllun. Með nútímatækni sem erlendar sjónvarpsstöðvar nýta sér grimmt er auðveldlega hægt að sýna skylmingabardaga frá mörgum sjónarhornum og með hægri endurspilun svo auðveldara sé fyrir áhorfendur að greina hina snöggu en margslungnu tækni og viðbrögð skylmingamanna.
Spennandi tímar framundan
Eins og ljóst er að framansögðu hefur mikill uppgangur verið innan íþróttarinnar á íslandi en það eru líka mjög spennandi tímar framundan. Fyrir rúmum tveimur vikum síðan var Skylmingasamband Íslands loks formlega stofnað og mun það vafalítið styrkja stöðu skylmingaíþróttarinnar verulega. Seinna á þessu ári mun Skylmingafélag Reykjavíkur einnig fá til afnota glæsilega aðstöðu fyrir skylmingamenn undir stúku Laugardalsvallar þar sem frjálsíþróttamenn æfðu áður. Nú er unnið að því að gera breytingar á rýminu og verður komið upp 16 löglegum keppnisbrautum í skylmingum. Þetta mun gjörbreyta aðstöðu til skylmingaiðkunnar á Íslandi.
Skylmingamiðstöð norðurlanda
Markmið íslensku skylmingahreyfingarinnar til næstu ára er að halda áfram á þeirri braut sem lögð hefur verið undanfarin ár. Í samvinnu við skylmingasambönd á norðurlöndunum eru nú uppi hugmyndir um að á Íslandi verði stofnuð nokkurs konar skylmingamiðstöð norðurlandanna í höggsverði. Slík miðstöð yrði miðpunktur þjálfunar afreksmanna, mótahalds, æfingbúða og myndi verða enn eitt stórt lóðið á vogarskálar skylmingaíþróttarinnar hérlendis. Framtíðin er björt.
Nokkrir tenglar:
Alþjóða skylmingasambandið
Heimsmeistaramótið 2006
Skylmingasamband Íslands stofnað
Skylmingafélag Reykjavíkur
- Fjárfestingar í sprotafyrirtækjum - 11. nóvember 2010
- Störfin sem vaxa ekki á trjánum - 22. september 2010
- Viðhorf á villigötum - 11. ágúst 2010