Umræða um innflytjendur hófst á mikið flug í kjölfar ummæla Jóns Magnússonar lögmanns og Magnúsar Þórs Hafsteinssonar. Jón ræðir um hættuna sem fylgir útlendingum og þá sérstaklega “sonum Allah” en Magnús Þór um “stórslysið” sem varð þegar þegnar átta nýrra Evrópusambandsríkja öðluðust aukinn rétt til atvinnu hér á landi.
Umræða um þessi mál er þörf, en hún þarf líka að vera skynsamleg. Það er engum greiði gerður með upphrópunum og æsingi. Slíkur málflutningur er einungis til þess fallinn að auka á ágreining í þessum efnum og ala á tortryggni.
Því miður virðist það þó vera slíkur málflutningur sem Magnús Þór og félagar í Frjálslynda flokknum ætla að bera á borð fyrir kjósendur á þessum kosningavetri. Orðfæri hans og atferli í umræðuþáttum eru með ólíkindum æsileg. ”ófyrirgefanlegt slys sem varð í vor” segir hann um breytingu á vinnulöggjöf þann 1. maí s.l. og að þeir sem samþykktu breytinguna ”eigi að skammast sín”. Svo klikkir hann út með því að ”þetta endar með skelfingu.”.
Þetta er þingmaðurinn sem sagði á spjallþræði á netinu að það ætti að sprengja til Helvítis ungan mann sem var á öndverðum meiði við hann. Kannski eru þetta fordómar í mér gagnvart Magnúsi Þór, en ég myndi í það minnsta vilja biðja hann að halda sig á jörðinni.
Það er ekkert neyðarástand á landinu vegna útlendinga sem koma hingað að vinna. Þvert á móti væri ástandið hér mun verra ef þeir væru ekki hér. Það er aðeins rúmlega 1% atvinnuleysi hér á landi og er líklega það alminnsta í allri Evrópu og augljóst að hér er mikill skortur á vinnuafli. Eitt prósent atvinnuleysi er of lítið til að hagkerfið sé almennilega stöðugt.
En þetta er ekki það eina sem Frjálslyndir hafa fram að færa. Jón Magnússon segir í grein í Blaðinu sem hann kallar Ísland fyrir Íslendinga? m.a. þetta: “Enginn má skilja orð mín sem svo að ég sé á móti kristnu fólki úr okkar heimsluta.” Með gagnályktun mætti túlka orð lögmannsinns þannig að hugsanlega sé hann þá á móti öðrum hópum fólks. Það kemur einmitt á daginn síðar í greininni þar sem segir: “Ég vil ekki fá hingað fólk úr bræðralagi Múhameðs.” Er manninum alvara um að vera almennt á móti því að múslimar komi til landsins? Heldur hann virkilega að múslimar almennt séu verra fólk en annað?
Ef „þessu fólki“, Magnúsi, Jóni og félögum, er virkilega alvara um að vilja ræða málin og leysa þau vandamál sem uppi kunna að vera, þá er engum greiði gerður með orðfæri og yfirlýsingum sem þessum. En því miður er leið popúlismans stundum of freistandi þegar menn hitta á frjóan jarðveg fyrir hræðsluáróður.
- Línuleg menntun er liðin tíð - 31. mars 2021
- Afstæði á tímum Covid - 25. febrúar 2021
- Auður og afl og hús og verðtrygging - 30. janúar 2021