Í Fréttablaðinu síðastliðin laugardag var haft eftir Ögmundi Jónassyni, þingmanni Vinstri grænna og formanni BSRB, að það væri vinnandi að senda viðskiptabankana úr landi til að geta aukið jöfnuð í samfélaginu. Ögmundur heldur því jafnframt fram að misskipting og ranglæti þrífist og breiði úr sér sem aldrei fyrr. “Bankarnir greiði aðeins 12 milljarða í fjármagnstekjuskatt af 120 milljarða hagnaði og hóta að hverfa úr landi verði skatturinn hækkaður” var jafnframt haft eftir Ögmundi Jónassyni í Fréttablaðinu.
Ögmundur Jónasson þarf nú aðeins að skoða betur reikninga bankanna. Kaupþing banki greiddi fyrir árið 2005 hærri skatta en Fjársýsla ríkisins og er það í fyrsta sinn sem fyrirtæki greiðir hærri skatta en Fjársýslan. Í því sambandi langar mig að minna lesendur góða á það að Fjársýsla ríkisins er ríkið sjálft og því er þarna um tilfærslur að ræða úr einum vasa í annan. Kaupþing banki greiddi fyrir árið 2005 í opinber gjöld tæpa 7 milljarða króna en alls greiddu Kaupþing banki, Landsbanki, Glitnir og Straumur- Burðarás alls 13,2 milljarða í opinber gjöld. Samkvæmt grein Guðjóns Rúnarsson framkvæmdastjóra Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja í Morgunblaðinu 31. júlí sl. kemur fram að Kaupþing banki, Landsbanki og Glitnir hafi á síðasta ári einnig greitt til viðbótar um 3 milljarða í virðisaukaskatt af innlendum rekstrarkostnaði. Þá er ótalið skattgreiðslur starfsmanna og greiðslur bankanna í formi tryggingargjalds vegna starfsmanna sinna en það var um 6,5 milljarðar króna árið 2005. Í þessum samanburði má nefna að heildarútgjöld dóms- og kirkjumálaráðuneytisins fyrir árið 2006 nemur tæpum 18 milljörðum króna.
Það sem af er ári hefur hagnaður bankanna hækkað umtalsvert frá fyrra ári og má því gera ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af bönkunum og starfsmönnum þeirri eigi eftir að vera enn hærri fyrir árið 2006. Allir ættu að fagna því.Já Ögmundur svona fyrirtæki eigum við að senda úr landi sem allra fyrst þannig að samfélagið fái örugglega ekki að njóta þess hversu vel fjármálafyrirtækjum landsins hefur gengið.
Framlag fjármálafyrirtækja sem hlutfall landsframleiðslu er meira en framlag sjávarútvegsins sem eins og hvert mannsbarn veit hefur verið undirstaða íslenskt samfélags frá ómunatíð. Í alltof langan tíma höfum við Íslendingar treyst á sjávarútveg sem helstu atvinnugrein þjóðarinnar. Það er mjög hollt fyrir íslenskt efnahagslíf að efla og styrkja fleiri stoðir þess. Ögmundur vill kannski að landinn stundi bara sjóinn já eða vinni álveri, ég held ekki.
Íslenska þjóðin fær á margan hátt að njóta velgengi íslensku bankanna. Bankarnir gefa mikið til samfélagsins og eru bakhjarlar fjöldamargra íþróttagreina, listahátíða og líknarfélaga svo eitthvað sé nefnt. Svo má ekki gleyma að sterk fjármálafyrirtæki styrkja viðskiptalífið. Íslensk fyrirtæki hafa verið í landvinningum undanfarin ár á erlendri grundu, má þar nefna m.a. Bakkavör, Össur og Baug. Án sterkra bakhjarla, sem íslensku bankarnir eru, hefði árangur ekki orðið sá sami og raun er orðin.
Jæja Ögmundur, þú ert tilbúinn að fórna fyrir jafnaðarsamfélagið 12 milljörðum ( skv. þínum útreikningum) og nokkrum strákum og stelpum í silkifötum. Þjóðin skal vona að þú komist aldrei til valda og hrekir glæsileg fyrirtæki úr landi sem eru orðin stærsta undirstaða íslensk atvinnulífs. Það er hagsmunir allrar þjóðarinnar að bönkunum haldi áfram að vegna vel og haldi áfram að vera sterk stoð íslensk samfélags.
- Ertu með KEA kortið? - 12. apríl 2021
- Frjáls verslun með áfengi - 17. mars 2007
- Skamm Ögmundur! - 8. nóvember 2006