Vald fréttamiðla er mikið. Sú leið sem valin er við framsetningu tiltekinnar fréttar getur haft víðtæk áhrif, svo ekki sé minnst á röð af fréttum sem settar eru fram á sama hátt. Forsíða ónafngreinds fréttablaðs bar fyrir stuttu fyrirsögnina „Tólf útlendingar handteknir“. Slíkar fyrirsagnir eru alls ekki óalgengar, en fjöldi þeirra er til þess fallinn að móta og breyta skoðunum lesenda í garð heilla eða hálfra þjóðfélagshópa.
Á dögunum rakst pistlahöfundur á umræðuþráð á fjölsóttu vefspjalli sem bar yfirskriftina „Nauðganir og útlendingar“. Upphafsmaður þráðarins ræddi þar um hrottalegar aðfarir sem áttu sér stað á skemmtistað í Reykjavík þar sem: „nokkrir útlendingar tóku til sinna ráða og reyndu að nauðga konu, og gengu svo í skrokk á manninum hennar…“ Þá segir „eiga ekki að gilda strangari lög fyrir þá sem koma sem „gestir“ í okkar land en um okkur sjálf sem búum hér?“ Ótrúlegt að slík viðhorf búi hjá, að eigin mati, víðsýnni og siðmentaðri þjóð. Pistlahöfundur bjóst ekki við öðru en að rök þessa aðila yrðu skotin á kaf í athugasemdum þeirra sem á eftir komu. En það var öðru nær. Í ótal athugasemdum komu fyrir setningar eins og „úr því að Portúgalanum var sleppt eftir nauðgunina í Vesturbænum, þá…, þar varð maður kjaftstopp“ og síðar á spjallþræðinum kom fram að í fréttum í útvarpi hafi verið sagt að Portúgalinn hafi verið af „afrískum uppruna!“ Þessi tilvitnun í kynþátt viðkomandi, sem upplýst var um í útvarpsfréttum, var sem sagt notuð til að undirstrika það að hann hafi verið svo mikill útlendingur að ekki nóg með að hann hafi verið Portúgali, þá hafi hann líka verið af „afrískum uppruna“. Blessunarlega lét skynsamt fólk í sér heyra síðar í umræðunni, en m.a. var bent á það að eins fáránlegt sé að tengja saman hrottaskap og þjóðerni og að tengja nauðganir við karlmennsku. Gott að heyra að einhverjir, sem án efa tala fyrir hönd mikils meirihluta þjóðarinnar, tali af skynsemi.
Að sjálfsögðu er ekki hægt að kenna fjölmiðlum eingöngu um vaxandi andúð í garð innflytjenda. Hins vegar er alveg ljóst að frétt sem segir frá tveimur útlendingum sem brutust inn á heimili á Seltjarnarnesi vekur töluvert meiri athygli og viðbrögð en frétt sem segir frá tveimur mönnum sem brutust inn á sama stað. Það er eins og að þessi greinir „útlendingur“ sé það sem skilji eitthvað eftir sig. Dæmi um þetta eru uggvænlegar fregnir undanfarinna vikna af hrottalegum nauðgunum í miðbæ Reykjavíkur. Að sjálfsögðu hryllir öllum við að heyra af nauðgun, en það er eins og að menn æsist allir töluvert meira upp þegar fréttin segir frá því að gerandinn hafi verið portúgalskur, að ég tali nú ekki um ef hann er af afrískum uppruna!!! Hin sorglega staðreynd er sú að ein frétt af afbroti þar sem gerandi er sagður útlendingur virkar á við 10 fréttir þar sem gerandi er íslenskur (það er að segja ef ekkert er tekið fram um þjóðerni hans). Erfitt er að útskýra ástæður þessa, en það virðist vera að nánari lýsing á persónu geranda kalli fram sterkari mynd í hugum þess er les eða heyrir frétt. Lýsingar eins og: „ljóshærður karlmaður var handtekinn fyrir lyfjainnflutning“ myndu að sama skapi hjálpa þeim er les eða heyrir frétt að sjá fyrir sér framningu verksins, en þættu án efa fáránlegar og tilgangslausar. „Tilgangslausar“ er einmitt lykilorð í þessu sambandi. Það þjónar nefnilega engum tilgangi að taka sérstaklega fram hvort gerandi afbrots er íslenskur eða erlendur, öðrum en þeim að ala á fordómum og upphrópunum í samfélaginu í garð erlendra gesta eða íbúa landsins? Einn tilgangur gæti verið að sannfæra landsmenn um að svona hræðilegt afbrot myndi Íslendingur aldrei fremja, en allir vita að sjálfsögðu að tilraunir til slíkra sannfæringa eru blekking ein. Í fjölmenningarsamfélagi eins og á hátíðarstundum er haldið fram að ríki á Íslandi er því miður ekki óeðlilegt að útlendingar, Íslendingar að erlendu bergi brotnir eða innfæddir Íslendingar fremji afbrot, og e.t.v. væri ekki óeðlilegt ef tíðni slíkra brota væri í réttu hlutfalli við fjölda einstaklinga í hverjum hópi í landinu.
Tölulegar staðreyndir hafa hins vegar sýnt fram á að tíðni afbrota innflytjenda hafi ekki haldist í hendur við fjölgun þeirra. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu frá árunum 2002-2005 eru engar vísbendingar um fjölgun afbrota þar sem erlendir einstaklingar eiga hlut að máli. Þvert á móti hefur fjöldi hegningarlagabrota sem framin eru af útlendingum og tilkynnt hafa verið til lögreglu staðið í stað. Þetta er á sama tíma og innflytjendum hefur fjölgað töluvert. Hlutfall afbrota sem framin eru af Íslendingum hefur því væntanlega hækkað, eða hvað?
Málefni innflytjenda á Íslandi hafa mikið verið í deiglunni upp á síðkastið og svo virðist vera sem að sá hópur sem er með upphrópanir í garð þess þjóðfélagshóps fari aðeins stækkandi. Stefnubreyting ónefnds stjórnmálaflokks og umræður í kringum hana gerir ekkert annað en að varpa skýrara ljósi á þá staðreynd. Pistlahöfundur vill þó meina að fjölgun í þeirra hópi sé aðeins byggð á hræðsluáróðri og vanþekkingu, en einnig að hluta til af því að mikið skortir á löggjöf og utanumhald um málaflokkinn. Fyrirsagnir fréttamiðla gera ekkert annað en að hella olíu á eldinn og ala á þeirri tilhneigingu manna að fella alla innflytjendur í flokk óvinsælla manna sem eru illa séðir í þjóðfélaginu. Mismunandi þjóðerni breytir ekki glæpnum. Glæpur verður alltaf glæpur, burtséð frá kyni, hárlit, kynþætti eða þjóðerni geranda. Ef fréttamiðlar átta sig á því og sleppa tilgangslausum aðgreiningum afbrotamanna, myndi það án efa leggja lóð á vogarskálarnar í baráttunni við að slökkva þetta bál sem virðist hafa kviknað um málefni innflytjenda. Er hér með skorað á fréttamenn að þeir hugleiði það sem að ofan er sagt.
- Tólf útlendingar handteknir! - 7. nóvember 2006
- Óflekkað mannorð - 6. ágúst 2006
- Rock hallelujah! - 20. maí 2006