Samgönguráðuneytið undirbýr nú frumvarp til breytinga á umferðarlögum. Breytingarnar fela m.a. í sér harðari viðurlög við hraðakstursbrotum og þrepaskipt ökuleyfisréttindi. Umferðarlögin í núverandi mynd hafa verið gagnrýnd mikið að undanförnu, ekki síst vegna tíðra banaslysa í umferðinni. Það er því ljóst að mikil þörf er á breytingafrumvarpi sem eykur öryggi í umferðinni.
Í umræddu breytingafrumvarpi er margt gott að finna. Í því er t.d. lagt til að tekið verði sérstaklega hart á hraðakstursbrotum þegar ekið er á yfir tvöföldum hámarkshraða. En þar er einnig ýmislegt slæmt að finna. Í ljósi aukinnar gagnrýni og þrýstings virðist sem Samgönguráðuneytið, með Sturlu Böðvarsson samgönguráðherra í fararbroddi, ætli sér að finna blóraböggul fyrir hörmungarnar sem hafa átt sér stað í umferðinni að undanförnu. Sá blóraböggull er augljóslega ungt fólk.
Í drögum að frumvarpinu er að finna ákvæði sem heimilar samgönguráðherra að setja reglur um ákveðnar takmarkanir á akstur ungra ökumanna. Má þar nefna takmarkanir sem lúta að ákveðnum tíma sólahrings, takmörkuðum fjölda farþega yngri en 20 ára og afli hreyfils bíls sem ungt fólk ekur.
Samkvæmt upplýsingum sem finna má á heimasíðu Umferðarstofu fjölgaði ökumönnum sem aðild áttu að slysum á árunum 1999 til 2004 um 8,3% á heildina litið. Hins vegar fækkaði ungum ökumönnum sem aðild áttu að slysum um 12% á þessum árum. Jafnframt fækkaði yngstu ökumönnunum sem aðild áttu að slysum, eða 17 til 18 ára, um 18,7 % á þessum árum. Það má einnig nefna að á heimasíðunni kemur einnig fram að ökumönnum á aldrinum 17-18 ára sem fengu refsipunkta fækkaði um heil 25% á árunum 2000 til 2004. Umferðarstofa vill meina að gífurlegur árangur hafi náðst í að lækka slysatíðni ungra ökumanna. Þessar staðreyndir frá Umferðarstofu ýta undir þá ályktun að með frumvarpinu sé verið að mismuna ungu fólki, en þar koma hvergi fram takmarkanir á akstri annarra áhættuhópa í umferðinni.
Það sem af er á árinu hafa 24 látist í umferðarslysum. Það er því ekki von að skelfingu lostnir landsmenn sem lesa um hvert banaslysið á fætur öðru krefjist aðgerða af hálfu stjórnvalda. Þær kröfur eru ætíð gerðar til stjórnvalda að aðgerðir af hálfu þeirra séu í takt við aðstæður hverju sinni og miði að því að ná markmiði sínu. Það á sérstaklega við þegar um er að ræða íþyngjandi aðgerðir. Þessar aðgerðir sem beinast að ungu fólki eru ekki í takt við aðstæður og því ekki besta leiðin til að ná settu markmiði, þ.e. að auka öryggi í umferðinni.
Það verður líklegast alltaf til fólk á öllum aldri sem er vanþroskaðra og tillitslausara en annað. Ofsaakstri og glannaskap verður að öllum líkindum aldrei útrýmt úr umferðinni og á hverjum bitna þá fyrirhugaðar takmarkanir á akstri ungs fólks? Þær bitna mest á löghlýðnum ungmennum sem gæta ítrustu varkárni í umferðinni, ungmennum sem eru í miklum meirihluta.
- Besta hátíðin - 9. apríl 2023
- Lýðræðið mun sigra - 2. júlí 2021
- Norræn vídd í varnarsamstarfi - 29. júní 2021