Við höfum gengið marga míluna upp á síðkastið. Baráttunni gegn reykingum innandyra er að ljúka með fullkomnum sigri andstæðinga reykinga, munntóbak og neftóbak-annað en íslenskt-er óheimilt að flytja til landsins og áfengi er selt dýrum dómum í ríkisreknum áfengisverslunum til þess að takmarka aðgengi að því.
Ríkisreknir hópar í samfélaginu hafa af því atvinnu að segja öðrum hvað sé hollt og hvað sé óhollt, hvað beri að forðast og hvaða æskilegu hegðun ber að stunda og hvaða félagsskapur er æskilegur og hvaða félagsskapur er óæskilegur. Er gjarnan æðra markmið haft að leiðarljósi, svo sem bætt líf og heilsa einstaklinga sem búa í samfélaginu. Er mekka þessa hóps kallaður Lýðheilsustofnun. Er það vel eða hvað?
Á þessu ágæta vefriti hefur áður verið bent á hættu rétttrúnaðar og of mikillar forræðishyggju í samfélaginu-þar sem ríkið gerist einhvers konar stóra systir/ bróðir sem vill hafa vit fyrir litlum heimskum og áhrifagjörnum yngri systkinum sínum. Jafn framt hefur verið bent á að þegar tekin hefur verið ákvörðun um að hafa vit fyrir fólki á einu sviði er gjarnan snúið sér að því næsta og vit er haft fyrir fólki þar og síðan er snúið sér að einhverju öðru. Um er að ræða eins konar Salami aðferðir-þar sem ein sneið er skorin í einu þangað til pylsan er horfin-eða étin.
Baráttunni gegn reykingum er lokið-ákvarðanir í reykfylltum bakherbergjum þarf núna að taka í blindhríð á götuhornum.
En komið er nýtt átak og nýtt baráttumál sem berjast þarf við. Óvinurinn heitir að þessu sinni fita, sykur og salt sem í sameiningu stuðla að offitu í samfélaginu. Raddir hafa heyrst að skattleggja eigi sérstaklega sykur og sykraðar vörur til þess að draga úr eftirspurn. Síðan verða væntanlega feitar vörur skattlagðar og saltaðar sérstaklega í fyrstu. Framleiðendur verða að því loknu skikkaðir til þess að setja varúðarmerkingar á vörur sínar og að lokum myndir af fitubollum til þess að fæla fólk frá því að kaupa vörurnar.
Hugmyndaauðgi ríkisvalds-og forræðishyggjusinna-er við brugðið þegar kemur að aðferðum til þess að draga úr eftirspurn. Í fréttum vikunnar kom fram að vísindamenn hefðu reiknað út hvað flugfélög eyða meira í eldsneyti á flugferðum sökum þess að bandaríkska þjóðin hefur fitnað í seinni tíð ásamt því að reiknað var út hversu mikið umframeldsneyti er brennt í bílferðum við að transportera þessum feitabollum á milli staða. Er talið að þetta auki svonefnd gróðurhúsaáhrif vegna alls umfram bruna á eldsneyti.
Er fróðlegt að vita hvort tillaga muni koma fram hér á landi þar sem feitir bifreiðaeigendur verða skikkaðir til þess að borga sérstakt mengunargjald séu þeir yfir ákveðnu viðmiði.
Það kæmi undirrituðum að minnsta kosti alls ekki á óvart.
- Kveikt er ljós við ljós – burt er sortans svið - 24. desember 2020
- Hæstivirtur forseti,Royal Straight Flush! - 21. febrúar 2008
- Má Kaupþing þetta? - 7. nóvember 2007