Umræða um málefni innflytjenda hefur aukist verulega undanfarin ár, bæði meðal almennings og stjórnmálamanna, en á sama tíma hefur lítið farið fyrir almennri stefnumótun stjórnmálaflokka og hins opinbera í þessum málaflokki. Á síðastliðnum tíu árum hefur erlendum ríkisborgurum fjölgað úr 1,8% í 4,6% af íbúum landsins.
Umræðan hefur að miklu leyti snúist um hvaða vandamál fylgi innflytjendum og hvernig herða og takmarka megi aðgengi þeirra að landinu – í stað þess að horfa til þess hvernig innflytjendur geti styrkt og auðgað íslenskt samfélag með margvíslegum hætti, sé þeim veitt færi á að njóta sín í samfélaginu án fordóma. Flutningur fólks milli landa er óaðskiljanlegur þáttur alþjóðavæðingunnar og gengur í báðar áttir. Við Íslendingar erum stoltir af útrás íslenskra fyrirtækja á alþjóðamarkað og væntum þess að eiga sömu möguleika á erlendum jafnt og á innlendum vettvangi. Viljum við ekki tryggja að slíkt hið sama eigi við útlendinga á Íslandi?
Öll viljum við vera metin að verðleikum hvar sem við erum niðurkomin í heiminum. Fyrir flesta sem taka þá ákvörðun að setjast að í nýju landi er erfitt að yfirgefa heimaland sitt, fjölskyldu og vini, læra nýtt tungumál, aðlagast menningunni svo fátt eitt sé nefnt. Það er ekki á bætandi að mæta mótlæti í samfélaginu.
Við þurfum að búa vel að innflytjendum og sjá til þess að þeir njóti jafnra tækifæra á við aðra þjóðfélagsþegna og gera þeim þannig kleift að verða hluti að samfélaginu bæði í félagslegu og lagalegu tilliti. Mikilvægt er að sjá til þess að innflytjendur verði ekki einangraður minnihluti samfélagsins, en hægt er að fyrirbyggja slíkt með markvissum aðgerðum og þar leikur stefnumótun stjórnvalda, upplýsingar og fræðsla lykilhlutverk. Til dæmis má nefna aðgengi að upplýsingum um réttindi og skyldur, en oft á tíðum virðist réttarstaða útlendinga vera óljós. Það stafar í flestum tilfellum af stefnuleysi eða upplýsingaskorti sem koma má í veg fyrir með markvissri stefnu í þessum málaflokki.
Þær breytingar sem átt hafa sér stað í innflytjendamálum kalla á framtíðarstefnumótun hjá hinu opinbera. Það á að vera okkar markmið að draga úr fordómum gagnvart fólki af erlendum uppruna með markvissum hætti og tryggja að það geti nýtt sér samfélagslega þjónstu til fulls. Mikilvægt er að slík stefnumótun sé innleidd bæði hjá ríki- og sveitarfélögum og henni sé fylgt eftir með fræðslu og þannig sé gagnkvæm aðlögun innflytjenda og Íslendinga tryggð.
Í nágrannalöndum okkar hafa risið upp stjórnmálaöfl sem telja að fjölgun innflytjenda sé meiri en góðu hófi gegnir og beita þessi öfl sér markvisst gegn innflytjendum. Rót vandans er að mínu mati að tilhneigingin virðist vera að horft sé á innflytjendur sem vandamál í stað þess að horfa til þeirra jákvæðu áhrifa sem þeir geta haft á samfélagið með fjölmenningarlegum áhrifum á land og þjóð.
Ef við horfum til þróunar í þessum málum hjá nágrannalöndum okkar þá ætti að vera deginum ljósara hversu mikilvægt er að við, mótum stefnu í þessum málum, lærum af mistökum annarra þjóða og komum í veg fyrir að horft sé á innflytjendur sem vandamál.
- Þessi blessaða veira er fordómalaus, reynum að vera það líka - 30. mars 2021
- Má ég faðma þig? - 13. janúar 2021
- Til hamingju Frú Vigdís - 15. apríl 2020