Dayton 95′

Mín skoðun er sú að þetta friðarsamkomulag sé úrelt og að
alþjóðasamfélagið ætti að finna sér nýjar leiðir til að leysa vandamálin í Bosníu. Nýjir tímar krefjast nýrra áætlana og aðgerða.

Markmið Dayton friðarsamkomulagsins (DPA) frá 1995 voru að “enda
borgarastyrjöld sem staðið hafði í hartnær fjögur ár, koma á lýðræði, flóttamenn fengju að snúa til síns heima og að koma í veg fyrir uppskiptingu Bosníu”
.

Með öllum þeim fjölbreyttu áætlunum og aðgerðum sem alþjóðasamfélagið kom með voru fleiri og fleiri sem sáu fyrir sér enda deilunnar. Það var tími kominn til þess að enda átökin og koma á friðarlausn í Bosníu. Mér þykir mikilvægasta spurningin í þessari deilu vera hvort lýðræðið sé á leið í fast form í landinu, sem getur tryggt frið í langtíma samhengi. Alþjóðasamfélagið hefur tekið að sér stórt hlutverk og tengist þetta stefnu alþjóðasamfélagsins um að koma á lýðræði, frelsi og friði um allan heim. Ég get verið sammála því að DPA átti rétt á sér og að þetta var rétt leið að ganga. Það leikur enginn vafi á því.

Margir hafa í dag áhyggjur af því hvort samkomulagið sé úrelt. Aðgerðir hafa gengið mishratt fyrir sér síðustu 11 árin, og var DPA framlengt árið 1998 án lokadagsetningar. Afhverju ættu Bosníumenn að eyða tíma og orku í að venjast einhverju kerfi sem þeir virðast aldrei fá að reyna sig í sjálfir? Þar sem alþjóðasamfélagið heldur öllu með harðri hendi, í núna samtals 11 ár. Okkar lýðræði á Íslandi er byggt á reynslu og þekkingu, og við höfum þannig hefð fyrir því að halda uppi lýðræði og frelsi einstaklingsins. Saga lýðræðis á Íslandi er langt frá því að vera fullkomin. En þannig lærum við öll, af okkar eigin mistökum. Ég hef stundum verið að velta fyrir mér hvort alþjóðasamfélagið sé eins og foreldri sem á erfitt með að sjá barn sitt læra af eigin mistökum. Því áhrif alþjóðasamfélagsins í Bosníu er eins og foreldri sem vill ekki sleppa barni sínu út í líf þeirra fullorðnu.

Hægt er að spyrja hvort alþjóðasamfélagið hafi gert nægilega mikið fyrir lýðræðisþróunina í Bosníu? En ég vill forðast þessa spurningu og heldur spyrja hvort ”alþjóðasamfélagið sé ennþá að gera réttu hlutina samkvæmt nútíma aðstæðum?” Ég er á þeirri skoðun að endurskoða þurfi Dayton friðarsamkomulagið. Alþjóðasamfélagið þarf að finna leið til þess að Bosníumenn fái sjálfir að lokum að stjórna sínu sjálfstæða ríki. Að alþjóðafulltrúinn skuli í dag 11 árum eftir undirritun samkomulagsins geta rekið kjörna fulltrúa fólksins í landinu getur ekki verið annað en óþolandi fyrir heimamennina. Spurning er hversu lengi þeir láti sig hafa það? Getum við kannski valdið nýjum átökum sjálf með því að þvinga landið undir okkar yfirumsjón of lengi? Fræðimenn sem skrifa um þjóðernishyggju og þjóðernisátök vara við þessu. Ef maður bíður of lengi í óbreyttu ástandi, þá geta átök hafist sökum óþolinmæðar. Ég get alla vega sagt með töluverðri vissu að ef einhver alþjóðafulltrúi hefði verið settur á Íslandi, með vald til að reka þingmenn og ráðherra Íslands, þá hefðum við ekki verið sérstaklega sammála um að kalla það lýðræði.

Ef það er þannig að kerfin í Bosníu hafa ekki náð að bæta sig nægilega á þessum áratug, þá gefur það okkur bara enn betri ástæðu til þess að koma á endurskoðun samkomulagsins. Það mætti íhuga öðruvísi stjórnunarhætti hvað varðar hlutverk alþjóðasamfélagsins. Því það er ekkert hægt að fela staðreyndir á borð við að spilling er þarna ennþá alvarlegt vandamál. En ef það væru rökin fyrir að halda slíkum alþjóðafulltrúa, þá eru ansi mörg lönd í heiminum sem við yrðum að leggja undir stjórn alþjóðasamfélagsins.

Mig langar ekki til að teikna einhverja svarta mynd af Bosníu eða ásaka DPA um að vera misheppnað. Því eins og ég sagði þá er ég sannfærður um að þetta er rétt leið að ganga með Bosníu og eitthvað sem mætti endurtaka á öðrum deilusvæðum. En við verðum að geta viðurkennt að ekki hafi allt tekist, og geta endurskoðað áætlanir og aðgerðir. Það er mikilvægt að heimamenn taki ábyrð. Því sá sem tekur ákvarðanir og hefur völdin er sá sem ber ábyrgðina. Og í þessu tilfelli er það alþjóðasamfélagið, en ættu að vera Bosníumenn sjálfir.

Heimildir og ítarlegri lesefni:
• Brown og Oudraat. “Internal conflict and international action” (1997)
• Chandler, David. “Bosnia: Faking Democracy after Dayton” (2000)
• Cousens og Cater. “The Dayton Framework”. Towards Peace in Bosnia:
Implementind the Dayton Accords (2001)
• www.un.org
• www.mbl.is

rej1@hi.is'
Latest posts by Reynir Jóhannesson (see all)