Tískan hefur mikil áhrif á okkur hvort sem það snýst um fatnað, húsgögn, mat, húsnæði eða annað í lífinu. Niðurstöður rannsóknar sem ég gerði í lokaritgerð minni á sinnustigi (involvement) háskólanema til tískunnar og kauphegðunar komu ekkert sérstaklega á óvart. Þar er staðfest að sinnustig kvenna til tískufatnaðar er talsvert hærra en karla en lítill munur er eftir aldri háskólanema. Tískan hefur ótrúlega mikil áhrif og það ræður yfirleitt ekki miklu við kaupákvörðun hvort fatnaður haldi á þér hita eða hrindi frá sér vatni. Aðalatriðið er að tolla í tískunni. Sama gildir um ýmislegt annað.
Hugsanlegt er að karlar séu ekki tilbúnir til að viðurkenna jafn mikið áhuga sinn á tískufatnaði sem leiði til lægra sinnustigs. Körlum gæti þótt tíska hafa kvenlegt gildi og þess vegna passað sig á að halda í karlmennskuna og samsama sig ekki vörunni. Mér virðist karlar hafa meiri áhuga á tískunni en þeir láta í veðri vaka en vel má vera að þeir kalli það ekki tísku þegar þeir velja sér ákveðinn fatnað. Á undanförnum árum hefur þó í auknum mæli verið fjallað um hina svokölluðu „metrómenn“ sem hugsa mikið um útlitið og tísku. Ef þeim heldur áfram að fjölga er ekki óeðlilegt að sinnustig karla aukist samfara því.
Það kom ekki á óvart að þeir háskólanemar sem kaupa sér oftar og eyða hærri upphæðum í tískufatnað hafi hærra sinnustig en aðrir. Þeir leiða hugann oftar að tískufatnaði enda er áhugi þeirra á vörunni yfirleitt mikill. Að sama skapi hafa háskólanemar sem kaupa tískufatnað eftir löngun hærra sinnustig en þeir sem kaupa föt eftir aðstæðum. Þetta eru augljós sannindi því fólk sem hefur lítinn áhuga á tískufatnaði kaupir hann frekar af nauðsyn eða vegna ákveðinna aðstæðna, svo sem vegna starfsviðtals eða veislu. Það er þá ekki endilega löngun og áhugi neytandans sem hvetur hann til að kaupa vöruna heldur hafa aðrir þættir áhrif.
Hafa verður í huga að þátttakendur í rannsókninni koma aðeins úr deildum Háskóla Íslands en með því að fá fleiri háskóla til að taka þátt yrði fjölbreytileikinn meiri og auðveldara að yfirfæra niðurstöðurnar á alla háskólanema.
En tíska snýst ekki bara um fatnað. Að undanförnu hef ég verið að kíkja í húsgagnaverslanir og það er alveg ótrúlegt hvað tískustraumar hafa þar mikil áhrif. Nú eru flest allar húsgagnaverslanir með samskonar húsgögn. Kassalaga, stílhrein, yfirleitt skandinavískt yfirbragð. Sama með bílana. Allt í einu eru allir komnir á sportjeppa af mismunandi gerðum og í raun margir með mjög svipað útlit. BMW, Porche, VW Touareg, Chevrolet Captive, Toyota eða Cherokee o.s.frv. Allir fara fljótt í sama farið.
En tískan hefur víða áhrif í okkar daglega lífi og í prófkjöri sjálfstæðismanna kom greinilega í ljós hvað klæðnaður og tíska hefur mikil áhrif og frambjóðendur eru meðvitaðir um það. Skiptir þá ekki máli hvort karlar eða konur eiga í hlut. Stuðningur fyrirtækja við frambjóðendur felst oft í því að kosta klæðnað frambjóðenda. Margir karlar halda fast í það að vera í dökkum fötum með rautt bindi þótt á því séu undantekningar, en lang flestir eru þeir í hvítum skyrtum. Konurnar eru aftur flestar í drögtum af mismunandi gerðum. Þar virðist fjölbreytileikinn og frelsið vera meira.
Tískan kemur víða við sögu í okkar lífi. Flestir vilja því tolla í tískunni.
- Hvað varð um þjóðarstoltið? - 27. maí 2010
- Hugverk til aukinnar sjálfbærni - 26. apríl 2010
- Tækifæri í gæðamálum - 26. mars 2010