Undanfarið hefur samkomulag ríkt á milli Lögreglustjórans í Reykjavík og framhaldsskólaflórunnar á umráðasvæði hans. Samkomulag um skólaböll. Á hverri önn hefur hver skóli fengið útgefin þrjú skemmtanaleyfi. Tvisvar sinnum fengu ungmenni blessun Lögreglustjórans til að skemmta sér til klukkan eitt að nóttu.En einu sinni á önn hafa þó nemendur fengið að skemmta sér til klukkan þrjú.
Nemendafélög skólanna hafa nýtt sér “þrjúböllin” á stórhátíðum félaganna. Þar má nefna árshátíðir og stærri þemaböll sem hefð getur hafa myndast fyrir í hverjum skóla. Lögreglustjórinn hefur þá þurft að vaka aðeins lengur, en fyrir vikið hafa þúsundir ungmenna fengið að upplifa og taka þátt í þeirri skemmtun sem seint verður gleymt.
Skólameisturum framhaldsskólanna á höfuðborgarsvæðinu barst þó bréf frá Lögreglustjóranum fyrir skömmu. Lögreglustjórinn kynnti þar reglugerð sína sem kvað á um breyttar reglur um balltíma. Þar með voru “þrjúböllin” alfarið bönnuð. Meðfylgjandi var þó enginn rökstuðningur. Lögreglustjórinn án efa orðinn of þreyttur.
Skömmu áður en bréf þetta barst skólameisturum, hafði leiðindaatvik átt sér stað í Skeifunni. Kalla þurfti út lögreglu vegna slagsmála sem brutust út. Þeir sem áttu í hlut voru flestir á menntaskólaaldri, og því sú ályktun strax dregin að nemendafélög skólanna væru sek. Stuttu seinna eftir umtalsverða fjölmiðlaumfjöllun birtist reglugerð Lögreglustjóra. Reglugerð sem óhætt er að kalla refsiaðgerð.
Samkvæmið í skeifunni var þó einkasamkvæmi, ekki á vegum nemendafélaga. Einkasamkvæmin eru þar sem lögreglan þarf hvað oftast að skerast í leikinn. Böll nemendafélaga eru hinsvegar draumasamkvæmi lögreglunnar. Öll ungmennin samankomin undir einu þaki, vel skráð símanúmer forráðamanna, kennarar, öryggisgæsla, sjúkraliðar og fleira ábyrgt og þjálfað starfsfólk stuðla að því að allt sé öruggt og að skemmtunin gangi vel fyrir sig.
Hlutverk nemendafélaganna er að standa að öruggu og heilbrigðu félagslífi framhaldsskólanema. Lögreglustjórinn hefur nú skert gífurlega rétt félaganna til þess. Ég tel það ekki fréttnæmt að ungmenni sem ætli að skemmta sér, finni sér leið til þess. Ef nemendafélög geta ekki staðið fyrir öflugu, heilbrigðu og öruggu félagslífi mun mannskapurinn leita annað. Ekkert annað er þá í boði en einkasamkvæmi, því að menntaskólanemar hafa flestir ekki aldur til að stunda skemmtistaði borgarinnar.
Áætlanir Lögreglustjóra um lengri og betri nætursvefn fara því í vaskinn. Sjálfur svæfi ég ekki vel vitandi að hafa svipt þúsundum ungmenna gríðarlegu skemmtanagildi. En á stórhátíðardögum nemendafélaga munu félagsmenn ekki hætta gleðinni klukkan eitt, hvert þeir leita er ekki mitt vandamál, heldur Lögreglustjóra og kaffiútgjalda hans!
- How do you sleep at night? - 23. október 2006