Stundum koma upp í umræðunni hugtök sem fólk tekur hreinlega ástfóstri við og eru þau notuð í tíma og ótíma við hinar ýmsu aðstæður. Dæmi um svona tískuhugtak er „innvígður og innmúraður“ sem fór um eins og eldur í sinu fyrir rúmu ári síðan eftir að það kom fram í skrifum um margfræga tölvupósta. Tók hugtakið sér bólfestu í orðaforða fólks sem slær enn um sig með þessum fleygu orðum, annað hvort í glensi til að vekja kátínu í hóp eða með þungum svip til að ljá alvarlegum orðum sínum meiri dramatík. Að vera „innvígður og innmúraður“ getur verið hin mesta upphefð eða hin argasta skömm. Fer það eftir samhengi hverju sinni hvort það teljist eftirsóknarvert.
Annað dæmi er hugtak sem undirrituð heyrði fyrst fyrir sjö vikum síðan. Þann 3. september síðastliðinn lýsti fyrrverandi stjórnmálaleiðtogi nokkur stoltur í bragði fyrir þáttastjórnanda aðferð sem hann hafði beitt í gegnum tíðina til að leika á pólitíska andstæðinga sína. Aðferðina lærði fyrrverandi stjórnmálaleiðtoginn af frænku sinni sem hafði tjáð honum hvernig losna ætti við læti í kettinum. Lét hún þá smjörklípu í feld kattarins sem beindi eftir það allri athygli sinni að því að sleikja smjörið úr feldinum. Þessari „smjörklípuaðferð“ sagðist fyrrverandi stjórnmálaleiðtoginn hafa beitt til að beina athygli pólitískra andstæðinga sinna frá hverju því sem þurfti það sinnið.
Í umræðum eftir þáttinn ætluðu sumir ekki á sér heilum að taka. Vænissjúkir samsæriskenningarsmiðir gripu þetta á lofti og töldu þarna aldeilis búið að fletta ofan af megnri spillingu og draga fram í dagsljósið hvers konar myrkraverk hefðu viðgengist innan flokks umrædds fyrrverandi stjórnmálaleiðtoga. Miðað við umræðuna mætti halda að hér hefði í fyrsta skipti í sögunni maður gerst sekur um að reyna að dreifa athygli annarra.
Glöggir kverúlantar hafa verið iðnir við að benda á dæmi um smjörklípuaðferðina síðan hún var fyrst nefnd í téðu viðtali. Nýjasta dæmið ku vera nýhafnar hvalveiðar Íslendinga sem búið er að undirbúa í sjávarútvegsráðuneytinu um nokkurt skeið. En á það hefur verið bent að hér sé verið að beita smjörklípuaðferðinni til að draga athyglina frá þeirri umræðu sem verið hefur um hlerunarmál.
Hugtakið „smjörklípuaðferð“ er óðum að festa sig í sessi í málvitund íslensku þjóðarinnar yfir það þegar talið er að verið sé að beina athygli frá einu máli yfir á annað. Enda er ekkert mál það smátt að það geti ekki verið tilraun til að draga athyglina frá einhverju öðru álíka smáu máli. Rík þörf er á að menn séu vakandi fyrir því að grandskoða hvert það mál sem kemur upp og velta fyrir sér út frá öðrum málum hvort hugsanlega sé verið að reyna að draga athyglina frá þeim. Smjörklípuaðferðin getur leynst hvar sem er.
- Vinnum upp mannfagnaði - 11. maí 2021
- Sameiginlegir hagsmunir - 6. apríl 2021
- Draumaverksmiðju-kryddið - 9. mars 2021