Einar mestu hörmungar þessa áratugar fara fram í Darfur héraði í Súdan um þessar mundir. Meiriháttar mannréttindabrot eru þar daglegt brauð. Spurningin sem brennir á vörum margra er: „Hvers vegna er ekki búið að gera neitt róttækt í málunum?“
Það ætti öllum að vera ljóst að ástandið í Darfur er vægast sagt ömurlegt. Frásagnir berast af ótrúlegri mannvonsku, manndrápum og nauðgunum á fullorðnum jafnt sem börnum. Frjáls félagsamtök hrópa hástöfum mannúðaríhlutun en ekkert er gert.
Af hverju er ekkert gert? Af hverju grípa Sameinuðu þjóðirnar eða einstök ríki ekki inn í atburðarásina með afgerandi hætti? Hugmyndir um helgi mannslífa og og aðrar háleitar hugsjónir hjálpa lítið við þá skoðun.
Í fyrsta lagi eru Sameinuðu þjóðirnar myndaðar af ríkjum. Þó að öryggisráð samtakanna geti heimilað friðargæslu og aðgerðir vegna ófriðarhættu, friðrofa og árása til að koma á röð og reglu er ekki þar með sagt að aðildarríki þess hafi pólitískan vilja til að grípa til slíkra aðgerða.
Í öðru lagi eru ríki ekki mikið fyrir að skipta sér af innanríkismálum annarra ríkja nema það þjóni hagsmunum þeirra á einhvern hátt.
Í þriðja lagi kostar hernaðaríhlutun blóðsúthellingar og peninga. Ríki eru yfirleitt ekki tilbúin að fórna blóði hermanna sinna og fjármagni nema slíkt samræmist skýrum þjóðarhagsmunum þess.
Í fjórða lagi er það ríki sem hefur hvað mest bolmagn til að beita sér hernaðarlega, þ.e. Bandaríkin, varla tilbúnið til meiriháttar innrásar þar sem það þarf að hugsa um Írak og Afghanistan auk þess sem kjarnorkubrölt N-Kórea er meiriháttar hausverkur fyrir Bandaríkjamenn. Bandarískir skattborgarar yrðu jafnframt varla sáttir við frekari útgjöld til hernaðarmála sem ærin og umdeild eru fyrir.
Í fimmta lagi eru önnur aðildarríki NATO væntanlega frekar óspennt að grípa með afgerandi hætti í taumana enda eru þau með hugann við að ráða niðurlögum talibana í Afghanistan með takmörkuðum árangri.
Í sjötta lagi þarf að hafa í huga að ekki er nóg að ráðast inn í Darfur og stoppa óöldina. Héraðið er algjörlega í rúst og vinna þarf í áratugi til að ná árangri við endurreisn þess. Til þess þarf peninga sem enginn er tilbúinn að láta af hendi.
Þessi atriði sem hér hefur verði bent á gefa til kynna að erfitt sé „að selja“ hugmyndina um mannúðaríhlutun í Súdan til þeirra sem hafa bolmagn til að láta til sín taka. Ef eitthvað er til í þessum vangaveltum má draga þá ályktun að þar til bærir aðilar komi ekki til með að grípa til aðgerða í Darfur með þeim afleiðingum að ríki náttúrunnar verður áfram ráðandi í héraðinu.
- Fara fyrirætlanir E.C.A. Program gegn samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar? - 24. mars 2010
- …að vera eða vera ekki herloftfar… - 23. mars 2010
- Friðlýsingahugmyndir stangast á við hafréttarsamning SÞ - 19. maí 2009