Við og við blossar upp umræða um dauðarefsingar, oft í tengslum við umdeildar aftökur. En hver eru rökin með og á móti dauðarefsingum? Hefur verið sýnt fram á marktækt samband milli dauðarefsinga og morðtíðni?
Dauðarefsing er sá verknaður að taka af lífi dæmda sakamenn í refsingarskyni. Dauðarefsingar hafa komið við sögu flestra samfélaga, en hafa nú verið afnumdar í mörgum löndum. Í Asíu eru dauðarefsingar þó leyfilegar í flestum ríkjum, og það sama má segja um mörg Afríkuríki. Afar fá Vesturlandaríki heimila dauðarefsingar, aðeins Bandaríkin virðast vera eftir. Dauðarefsing er notuð vegna glæpa sem þykja alvarlegastir í hverju samfélagi. Sem dæmi um slíka glæpi má nefna morð, en í mörgum ríkjum er refsingunni einnig beitt við glæpum eins og landráði, nauðgunum, fíkniefnaglæpum, þjófnaði og hryðjuverkum. Fjölmörgum aðferðum hefur verið beitt við fullnustu dauðarefsinga. Algengast er að fólk sé hengt, hálshöggvið, skotið eða líflátið með eitri.
Helstu rökin fyrir beitingu dauðarefsinga er svokölluð gjaldastefna. Hún felur það í sér að refsingar eigi að vera í samræmi við alvarleika afbrots og styðst við það að afbrotamaðurinn eigi refsinguna skilið. Þannig er dauðarefsing réttlætanleg fyrir t.d. morð eða manndráp af ásetningi. Þýski heimspekingurinn Immanuel Kant var fylgismaður gjaldastefnunnar. Hann hélt því fram að refsing ætti að miða að því að gjalda líku líkt. Refsingin ætti þannig að vera af sama toga og afbrotið. Þessari kenningu fylgja töluverð vandkvæði og má ætla að erfitt væri að ákvarða refsingar fyrir t.d. þjófnað og nauðgun ef fara ætti eftir henni.
Önnur rök eru þau að dauðarefsingar hindri borgarana í því að fremja þá glæpi sem til hennar liggja; séu víti til varnaðar. Staðreyndin er þó sú að ekki hefur verið sýnt fram á það með óyggjandi hætti að dauðarefsingar nái meiri árangri, ef svo má komast að orði, en lífstíðarfangelsi með tilliti til morðtíðni.
Þau rök gegn dauðarefsingum sem vega hvað þyngst eru þau að þær verða ekki teknar til baka. Engin leið er að leiðrétta mistök ef þau verða eftir að dómnum er fullnægt.
Fylgi við dauðarefsingar hefur farið vaxandi í Bandaríkjunum þrátt fyrir að þær hafi verið afnumdar í mörgum ríkjum á síðustu áratugum. Sem dæmi má nefna að 98 fangar voru teknir þar af lífi árið 1999, en hærri tölur er ekki að finna frá 1950. Undanfarin ár hafa dauðadómar í Bandaríkjunum einskorðast við morð, en það virðist stundum vera frekar tilviljanakennt hverjir hljóta þennan dóm, auk þess sem hann er augljóslega bundinn við þau ríki sem heimila dauðarefsingu. Það sem hefur úrslitaáhrif er t.d. eðli morðanna og svo val á kviðdómi. Einnig virðist það skipta máli hvert fórnalambið var, svo sem hvort hann var fyrirmyndarborgari eða ekki. Fjölmiðlar og stjórnmál eru einnig taldir hafa mikil áhrif á framgang dóma um dauðarefsingar.
Heimild til dauðarefsinga var afnumin úr lögum hérlendis árið 1928, um öld eftir að síðasta aftakan fór fram. Hún fór fram í Vatnsdalshólum í Húnavatnssýslu 12. janúar árið 1830 þegar Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigurðsson voru hálshöggvin fyrir morðin á Nathani Ketilssyni og Pétri Jónssyni. Fjórum árum síðar var síðasti Íslendingurinn tekinn af lífi í Kaupmannahöfn. Það var Sigurður Gottsveinsson, en hann hafði verið dæmdur til ævilangrar þrælkunar fyrir húsbrot og rán á Kambi í Flóa. Í fangavistinni réðst hann á fangavörð með hnífi og hlaut dauðadóm fyrir.
Bæði Sameinuðu Þjóðirnar og Amnesty International hafa lengi barist fyrir afnámi dauðarefsinga. Fjöldi þeirra ríkja sem beita dauðarefsingum á síðustu árum hefur fækkað, en fjöldi aftaka hefur ekki minnkað.
Burt séð frá öllum rökum með og á móti dauðarefsingum hlýtur sú spurning að sitja eftir sem lýtur að því hvort einhver mannlegur geti réttilega tekið sér það vald að deyða annan mann. Sendir verknaðurinn í sjálfu sér, að taka einhvern af lífi, ekki frá sér röng skilaboð?
Sá sem telur afbrotamann ekki fá hæfilega refsingu með lífstíðardómi og telur jafnframt að réttlætinu sé ekki fullnægt, hlýtur þó þegar allt kemur til alls að samþykkja það að það sé mun meira óréttlæti að dæma saklausan mann til dauða. Í réttarkerfi sem menn hafa sett á fót verða mistök og þar eru sum mistök dýrkeyptari en önnur.
- Besta hátíðin - 9. apríl 2023
- Lýðræðið mun sigra - 2. júlí 2021
- Norræn vídd í varnarsamstarfi - 29. júní 2021