Umferðarómenning

Við Íslendingar eigum það til að setjast undir stýri og aka um götur bæjarins eins og við séum ein í heiminum. Gatnakerfið og umferðarljós hjálpa lítið til og úr verður umferðarteppa kvölds og morgna alla virka daga.

Við Íslendingar eigum það til að setjast undir stýri og aka um götur bæjarins eins og við séum ein í heiminum. Gatnakerfið og umferðarljós hjálpa lítið til og úr verður umferðarteppa kvölds og morgna alla virka daga.

Það líður varla sá dagur að ekki sé talað um umferðina í Reykjavík. Það er þá ýmist verið að gagnrýna bílstjóra, umferðarljós, gatnakerfið eða hinn ótölulega fjölda bíla sem eru á götum bæjarins. Fáum dettur þó í hug að líta sér nær, skoða eigið aksturslag og athuga hvort eitthvað megi þar betur fara. Svo væri að sjálfsögðu líka hægt að taka strætó, en það hvarflar varla að nokkrum manni. Það þýðir samt ekki alltaf að vera fórnarlambið og skella skuldinni á alla hina.

Með sanni má segja að ekki sé allt með felldu í umferðarmálum borgarinnar og sumar ákvarðanir í gatnaframkvæmdum eru vægast sagt furðulegar. Umferðarmannvirki sem flokkast undir mislæg gatnamót hafa sprottið upp eins og gorkúlur undanfarin ár og er markmiðið með þeim að fækka umferðarljósum, fækka slysum og auka flæði í umferðinni. Þetta hlýtur að teljast jákvætt þrátt fyrir að sum þessara mannvirkja séu svo flókin að dæmi séu um að bílar hafi ekið inn í þau og aldrei komið út aftur.

En hér er ekki ætlunin að dvelja við vandamálin eða hella úr skálum reiðinnar yfir gatnamálayfirvöld í Reykjavík. Gera verður ráð fyrir því að þar vinni allir í góðri trú og geri sitt besta, þrátt fyrir að stundum missi menn kannski sjónar á lokatakmarkinu og reyni jafnframt að finna upp hjólið oftar en þörf krefur.

Til þess að bæta umferðina til muna án þess að kosta miklu til þykir pistlahöfundi tvennt koma til greina. Annars vegar ætti að leyfa hægri beygju á rauðu ljósi og hins þarf að bæta til muna umferðarljósastýringu í borginni.

Hjálmar Árnason þingmaður hefur lengi verið einn helsti talsmaður hægri beygju á rauðu ljósi. Fyrir þá sem ekki þekkja tíðkast þetta víða í Bandaríkjunum og Kanada og er reglan þannig að bílstjóri á rauðu ljósi má beygja til hægri nema það sé sérstaklega bannað. Þetta hefur þau augljósu áhrif að spara umferðarmannvirki, greiða fyrir umferð og auka almenna ánægju bílstjóra.

Hugsanleg upptaka hægri beygju á rauðu hefur verið gagnrýnd nokkuð, þá sérstaklega frá sjónarhóli gangandi vegfarenda. Talað er um að gangandi vegfarendur geti ekki treyst græna gönguljósinu og að þetta komi sérlega illa við börn, gamalmenni, sjónskerta og hreyfihamlaða. Slík gagnrýni er að nokkru leyti réttmæt, sé gengið út frá því að bílstjórar séu hálfvitar.

Hægri beygja á rauðu ljósi yrði að sjálfsögðu aldrei skilgreind þannig að bílstjóri sem kysi að nýta þann rétt hefði forgang yfir allt og alla. Hann beygir eingöngu ef aðvífandi umferð gefur færi á því og jafnframt hafa gangandi vegfarendur á grænu ljósi forgang. Eflaust mætti þá segja að fáir bílstjórar virði rétt gangandi vegfarenda, en þó er hæpið að koma í veg fyrir jafngóða breytingu og þessa á slíkum forsendum.

Hvað varðar umferðarljósastýringu þá virðast þeir sem ákveða hvernig henni er háttað aðeins hafa misskilið grundvallaratriðin. Markmið þeirra er að á stofnbrautum á borð við Hringbraut séu ljósin stillt þannig að bifreið sem ekur á löglegum hámarkshraða geti náð grænu ljósi vestan úr bæ og norður í land. Þetta er líklega ágætt á nóttunni en þegar umferðin er hvað mest aka fáir á 60 km hraða og ná því aldrei grænu.

Mun farsælla væri að sækja í smiðju Bandaríkjamanna og láta ljósin stjórnast af umferðinni. Í viðtali við gatnamálafrömuð fyrir skömmu kom fram að á dagskránni væri að skoða þessi mál og hugsanlega breyta ljósastýringu í þessa átt. Þetta fyrirkomulag hefur virkað vel í Bandaríkjunum síðastliðna áratugi, en það er samt ánægjulegt að vita að menn ætli að fara að skoða þetta á Íslandi árið 2006.

Það má margt bæta í umferðinni á Íslandi en kostnaðurinn er oft töluverður. Litlar og ódýrar breytingar geta þó skilað miklu og eflaust meiru en ætla mætti í fyrstu. Að lokum má samt segja að það sem myndi gera mest til þess að bæta umferðina væri almenn meðvitund bílstjóra um umhverfi sitt og vilji þeirra til þess að láta umferðina ganga sem best fyrir sig og aðra. Almennu hugarfari manna verður þó ekki breytt á einni nóttu en væri sannarlega efni í annan pistil.

Latest posts by Davíð Gunnarsson (see all)