Eldur í austri

Tuttugu ár eru frá því að stórveldin tvö, Sovétríkin og Bandaríkin áttu í vopnakapphlaupi. Heimurinn stóð á öndinni og minnstu munaði að til kjarnorkustyrjaldar kæmi. Í dag má gera ráð fyrir svipaðri stöðu í austri vegna hugsanlegrar kjarnavopnaeignar Norður Kóreu, ekki síst vegna tilraunasprengingar þeirra.

Tuttugu ár eru frá því að stórveldin tvö, Sovétríkin og Bandaríkin áttu í vopnakapphlaupi. Heimurinn stóð á öndinni og minnstu munaði að til kjarnorkustyrjaldar kæmi. Í dag má gera ráð fyrir svipaðri stöðu í austri vegna hugsanlegrar kjarnavopnaeignar Norður Kóreu, ekki síst vegna tilraunasprengingar þeirra.

Verulega var hrist upp í alþjóðakerfinu í sumar þegar fréttist að Norður Kóreumenn væru að þróa kjarnavopn. Japanir og Bandaríkjamenn báðu um atkvæðagreiðslu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um tillögur þeirra varðandi refsiaðgerðir gegn Norður Kóreu vegna eldflaugatilrauna þeirra. Öryggisráðið samþykkti þessar tillögur einróma.

Í þessum aðgerðum fólst meðal annars að Norður Kóreumenn fengu ekki að flytja inn nein hráefni til eldflaugagerðar. Krafðist ráðið þess að stjórnvöld í Pyongyang létu alfarið af tilraunum sínum til að þróa langdrægar eldflaugar og hvers kyns gereyðingarvopn. Og hvað svo? Jú, Pak Gil Yon, sendiherra Norður Kóreu hjá Sameinuðu þjóðunum gaf þeim nánast fingurinn. Ekki yrði orðið við kröfum ráðsins. Skýringin? Eldflaugaáætlun landsins þjónaði mikilvægu hlutverki í þróun friðar og stöðugleika norðaustur Asíu. Það var nefninlega það. Furðulegt að fleiri slái þá ekki til og api eftir Norður Kóreumönnum.

Í ágúst dökknaði útlitið enn frekar. Fréttir um að Norður Kórea væri að undirbúa kjarnorkutilraunir fóru eins og eldur um sinu, en þær komu fyrst frá ónefndum bandarískum embættismönnum. Grunsamlegir flutningar höfðu átt sér stað og var það álit leyniþjónustu Bandaríkjanna að möguleiki væri á tilraun til kjarnorkusprengingar.

Spennan eykst

Eftir að fregnir bárust af áformum Norður Kóreumanna hófu Bandaríkjamenn og Suður Kóreumenn miklar heræfingar í Suður Kóreu. Þá sögðst N-Kóreumenn hafa rétt til árása af fyrra bragði vegna þessarra æfinga.

Í byrjun september tókst Bandaríkjaher að skjóta niður eldflaug yfir Kyrrahafi í prófun á eldflaugavarnarkerfi landsins. Það var talið mikilvægt skref í þróun eldflaugavarnarkerfis á Kyrrahafi sem ætlað væri að verjast hugsanlegum eldflaugaárásum frá Norður Kóreu og Íran. Frá árinu 2002 hefur allt að tíu milljörðum bandaríkjadala verið varið árlega í hönnun þessa kerfis.

Ætla ekki að skjóta af fyrra bragði

Stjórnvöld Norður Kóreu tilkynntu svo út nú í byrjun október að þeir myndu ekki beita vopnum af fyrra bragði og væru í raun hlynntir því að Kóreuskaginn yrði gerður að kjarnorkuvopnalausu svæði.
Það er alkunnugt að um leið og ríki eignast kjarnavopn raskast valdajafnvægið. Grannríki sem ekki eiga gereyðingarvopn telja sér þá ógnað. Þetta ýtir undir það að fleiri ríki fari að framleiða kjarnavopn og því er ekki talið ólíklegt að kjarnavopnaríki verði orðin 20-25 innan fárra ára.

Mörg ríki hafa næga þekkingu til þess að þróa og búa til kjarnorkuvopn. Japan er t.d. með mjög háþróaðan kjarnorkuiðnað og sérfræðingar telja að þeir gætu framleitt slík vopn á nokkrum mánuðum ef þeir vildu. Pakistan var síðasta ríkið sem sprengdi kjarnorkusprengjur í tilraunaskyni. Sprengdar voru fimm sprengjur neðanjarðar árið 1998. Það var svarið við tilraunasprengingum Indverja hálfum mánuði fyrr.

NPT-samningurinn

Alþjóðasamfélagið vill stöðva útbreiðslu kjarnavopna. Af þeim sökum var NTP – samningurinn undirritaður árið 1970 og hafa 189 ríki undirritað hann. Þau ríki sem eftir standa eru Indland, Pakistan og Ísrael. Norður Kórea undirritaði þennan samning en sagði sig frá honum árið 2003. Þeir unnu svo á laun við að búa til vopn en tækniupplýsingar til þess fengu þeir frá Pakistan.
Margir telja sér ógnað vegna þessara áforma Norður Kóreumanna en Japanir einna mest. Þá mætti nefna Suður-Kóreu, Kína og Bandaríkin en þeir eru með um 30 þúsund manna herlið í Suður Kóreu.

Alþjóðasamfélagið hefur skorað á Norður Kóreustjórn að hætta við áform sín. Stjórnir Bandaríkjanna og Rússlands hafa snúið sér beint til stjórnvalda í Pyongyang og varað þau við afleiðingunum. Samt sem áður létu Norður Kóreumenn verða af því að sprengja tilraunasprengjuna þó sumir efist enn um svo hafi verið. Vísindamenn leggja nú allt kapp á að mæla geislavirkni á því svæði sem talið er að þeir hafi sprengt á til þess að staðfesta að um kjarnorkusprengingu hafi verið að ræða.

Eftir að fréttir bárust af tilraunasprengingunni fordæmdi alþjóðasamfélagið hana. Þó var talið ólíklegt að gripið yrði til hernaðaraðgerða gegn Norður Kóreu. Það þykir pistlahöfundi undravert í ljósi þess gruns sem Bandaríkjamenn höfðu um vopnaeign Íraks á sínum tíma. Þá þykir einnig furðulegt að Pakistan, Indland og Ísrael fái að eiga slík vopn án nokkurra athugasemda súperveldisins vestra.

Helstu rök Bandaríkjamanna gegn kjarnavopnaeign Norður Kóreu hafa verið þau að mikill fjandskapur sé milli ríkjanna tveggja…sjálfsagt er varhugavert að beita land hervaldi sem býr hugsanlega yfir svo máttugum vopnum. Engu að síður er það morgunljóst að áform Norður Kóreu stefna ekki einungis friði og öryggi í Austur Asíu í hættu heldur öllum heiminum.

Heimsbyggðin verður svo bara að bíða og sjá hvað gerist næst…

Heimildir:
Reuters
RÚV
Friður.is

Kristín María Birgisdóttir
Latest posts by Kristín María Birgisdóttir (see all)

Kristín María Birgisdóttir skrifar

Kristín María hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.