Í kynningu á fjárlagafrumvarpinu á dögunum kom fram að ríkið getur ekki sýnt fram á þær eignir sem liggja í byggingum þess í reikningsskilum sínum. Það er deginum ljósara að ríkið á mikið magn af byggingum sem hýsa stofnanir á vegum ríkisins og miklir fjármunir liggja bundnir í þeim. Það kom jafnframt fram að margar stofnanir ríkisins er í dag í húsnæði sem hentar þeim illa og því nauðsynlegt að breyta til – en aðrar stofnanir eru í mjög sérhæfðum byggingum sem henta aðeins undir starfssemi viðkomandi stofnunar. Þó að margar þessara stofnanna séu óþarfar og aðrar sem sinna störfum sem ríkið ætti alls ekki að skipta sér af, þá eru nokkrar sem gegna mikilvægu hlutverki gagnvart íslenskri alþýðu.
Dæmi um slíka stofnun í sérhæfðu húsnæði er Háskóli Íslands. Skólinn og hans 11 deildir er hýstur í vel á annan tug bygginga og þegar Háskólatorgið verður tekið í notkun á næsta ári munu tvær nýjar byggingar bætast í hópinn. Mikil vinna fylgir því að reka byggingarnar og það er ekki einungis miklir fjármunir sem liggja í húsbyggingum skólans, heldur kostar það líka mikið fé að reka þær. Því er sérstök Bygginga- og tæknideild með 10 starfsmönnum að finna innan stjórnsýslu Háskólans. Á vef Háskóla Íslands segir: „ Helstu verkefni Bygginga- og tæknideildar eru endurbyggingar, breytingar og viðhald húsnæðis og á kerfum s.s. raf-, hita-, loftræsti- og stýrikerfum, málningarvinna innandyra sem utan. Umhirða, lagfæringar og breytingar á lóðum, göngustígum og bílastæðum. Innkaup og viðhald á húsgögnum og búnaði ýmiskonar. Bruna-, innbrota- og aðgangsstýrikerfum. Rekstur á trésmíða-, véla- og rafmagnsverkstæði.”
Deildin hefur aðsetur í VR III við Hjarðarhaga, þannig að þessi deild rekur einnig byggingu fyrir sjálfa sig. Á lýsingunni að dæma, þá er greinilegt að deildin gegnir mikilvægu hlutverki við rekstur bygginganna og viðhaldi þeirra en maður spyr sig hvers vegna Háskólinn eyðir sínu takmörkuðu fé og kröftum í verkefni sem er eins langt út fyrir starfssvið Háskóla og hægt er? Kjarna starfssemi Háskóla Íslands er rannsóknir og kennsla. Ekki að reka og byggja hús. Verkefni sem þessi ættu að vera boðin út eða látin alfarið í hendur einkaaðila sem sérhæfa sig í slíku. Aðila sem einbeita sér að rekstri bygginga og engu öðru.
Happadrætti Háskóla Íslands er eitt öflugasta styrktarfélag Háskólans. Á hverju ári aflar það háum upphæðum sem renna til skólans. Til að efla rannsóknir hans? Nei, til að byggja fleiri byggingar. Dæmin sanna að Háskólanum hefur oft ekki tekist vel upp við að byggja sjálfur sínar byggingar en það tók hátt í tíu ár að byggja Öskju, náttúrufræðihús skólans. Það segir sig sjálft að helsti styrktaraðili skólans ætti frekar að styrkja rannsóknir heldur en steinsteypu.
Framboð af aðilum sem sérhæfa sig í að byggja og reka byggingar sem þeir síðan leigja til fyrirtækja og stofnanna hefur aukist á undanförnum árum. Reynslan hefur sýnt að fyrirtæki hafa dregið úr kostnaði sem fer í viðhald og losað mikla fjármuni í leiðinni sem annars voru bundnir í steinsteypu. Ríkið og stofnanir þess, svo sem Háskóli Íslands á að einbeita sér að sínum verkefnum – og láta aðra um það sem snertir ekki hlutverk og starfssemi þeirra. Háskóli Íslands ætti því að selja eitthvað af byggingum sínum til fasteignafélaga og gera langtíma leigusamninga um að leigja þær til baka fyrir sanngjarnt verð. Þar með myndi skapast svigrúm fyrir Háskólann til að minnka rekstrarkostnað og ráðstafa sínu fé á skynsamlegan hátt í það sem hann á að vera að gera.
- Svarið við áskorunum framtíðarinnar en ekki lausnin á vanda nútímans - 2. júní 2020
- Lifum við á fordómalausum tímum? - 9. maí 2020
- Má ég, elskan? - 21. júní 2008