Ég hef oft velt fyrir mér þeim áhrifum sem fjölmiðlar hafa á börn og hvort þau eru einhver. Ég hef verið hörð á því í gegnum tíðina að foreldrum beri að fylgjast með á hvað börnin þeirra horfi og jafnframt hvað þau sjá á internetinu til þess að ákveða hvort þetta sé við hæfi. Staðreyndin er því miður sú að foreldrarnir og aðrir uppeldisaðilar eru bara allt of seinir því þeir telja ekki að barnið/börnin sín muni verða fyrir áhrifum af einhverju sem er ekki heilbrigt fyrir þau. Því er ekkert gert fyrr en vandamálið sýnir sig.
Hver eru áhrifin sem börn og unglingar hafa orðið fyrir? Ég ætla að nefna ykkur dæmi. Unglingar sem eru núna í 8.bekk grunnskóla eru fædd árið 1993. Á þeirra stuttu lífsleið hafa þeir orðið vitni af ýmsu sem gæti haft áhrif á þau. Árið 1996 komu Spice Girls fram á sjónarsviðið og með þeim kom bylgja af stelpuböndum. Það sem einkenndi þessar “grúbbur” voru stutt pils, flegnir bolir og bert á milli laga. Árið 1998 varð Britney Spears skyndilega ein vinsælasta poppstjarna í heimi. Upphaflega var hún máluð sem góð skólastúlka en á einni nóttu breyttist stúlkan í kyntákn. Á eftir þessu varð hipp hopp tónlist mjög vinsæl. Myndböndin við flest lögin snúast um karla sem eiga fullt af peningum og gellum sem eru einungis í pjötlum en þær eru yfirleitt upp á náð og miskunn karlmannsins komnar. Eitt og sér er hvert myndband eða hver mynd ekki í raun skaðleg en þegar áreitið er nánast stanslaust er erfitt að láta það ekki hafa áhrif á sig.
Hvað hefur breyst? Kynlíf er orðið hluti af menningarlegu lífi okkar í dag. Þó við sjáum ekki kynlíf í beinni merkingu daglega er samt alltaf eitthvað í okkar umhverfi sem tengist kynlífi. Það er í raun ekkert athugavert við þá staðreynd. En er þetta öruggt fyrir unglingana og börnin? Hin svokallaða klámvæðing hefur eflaust leitt til þess að kynhegðun unglinga hafi breyst og þá líklegast ekki til hins betra. Við heyrum öfgafullar sögur um unglingapartý þar sem inngönguskilyrðið er til dæmis munnmök við einn af partýhöldurunum og partý þar sem kynlíf er veitt í stað eiturlyfja eða áfengis. Margar fleiri slíkar sögur þykjumst við ekki heyra svo við þurfum ekki að gera neitt í þeim eða verra, trúa því ekki að þetta geti gerst fyrir barnið okkar eða systkini.
Eru þetta ekki bara dæmi um ógæfu unglinga? Þetta er ekki bara einn hópur unglinga heldur birtist þetta í hinum ýmsu myndum og því er það okkar að finna leið til að leysa vandann. En hvað er hægt að gera? Við getum komið í veg fyrir ,,óæskilega og skaðlega” kynhegðun með því að fræða unglinga um heilbrigt kynlíf. Unglingar verða að vita að tónlistarmyndböndin, kvikmyndirnar og allt það efni sem flæðir um ljósvakann er ekki eins og lífið er í raun. Því er mín ábending til þeirra sem sjá til dæmis um fræðslu á grunnskólastigi að taka á þessum staðalímyndum og reyna að koma í veg fyrir að kynhegðunin verði ,,óæskileg og skaðleg”.
- Óður til Dollýar - 29. júlí 2021
- Aðförin að heilbrigðisþjónustu landsmanna - 9. júní 2021
- Þegar mennskan hverfur - 26. apríl 2021