Íslendingar hafa lengi kennt útlendingum að íslenska sé erfitt mál, í stað þess að telja þeim trú um að hún sé auðveld.
|
Líklegast mundu flestir reka upp stór augu ef þeir læsu að besta leiðin til að bæta samgöngurnar í Reykjavík væri að kaupa fleiri neðanjarðarlestir í Borgina. „Það eru, jú, ekki einu sinni teinar í Reykjavík!“ mundi einhver segja. Svipuð staða er uppi á teningnum varðandi íslenskukennslu útlendinga. Stoðkerfið er ekki til staðar.
Þegar rætt er um slaka útkomu íslenskra grunnskólanemenda í stærðfræði verður niðurstaðan sjaldnast sú að íslensk börn séu heimskari en börn annars staðar í heiminum. Raunar verður flestum ljóst að helsta leiðin til að bæta árangurinn sé að bæta menntun stærðfræðikennara. Með svipuðum hætti ættu flestir að sjá að lykillinn, eða alla vega forsenda þess, að bæta tungumálakunnáttu nýrra Íslendinga, sé að efla menntun þeirra sem kenna hana. En hér stendur (fyrsti) hnífurinn í kúnni. Engin slík menntun er til staðar í landinu.
Það ætti að vera algjört forgangsverkefni að bjóða upp á slíkt nám innan Háskóla Íslands eða einhvers hinna háskólanna. Án þess, og án almennilegrar rannsóknarstofnunar á sviði kennslu á íslensku sem erlends mál, lendum við aftur í járnbrautardæminu: við höfum ekki einu sinni neitt til að efla.
Meðan við komum okkur upp sérþekkingu í kennslu á okkar eigin máli er vert að huga að því hvernig við tryggjum það, sem svo mörgum er umhugað um: að útlendingar á Íslandi læri íslensku. Hér má annaðhvort fara leið lagalegrar þvingunar, þ.e.a.s. gera íslenskunám að skyldu (eins og þegar hefur verið gert), eða beita öðrum hvötum. Í rauninni þarf ekki nema að skoða tölur frá Þjóðskrá til að átta sig á hvor leiðin sé vænlegri til árangurs.
Skv. frétt vísis.is voru um 4000 nýjar kennitölubeiðnir afgreiddar í ágúst og september. Þar af voru 1900 Pólverjar um 250 Þjóðverjar og svipað eins af Litháum. Þetta fólk kemur frá EES-svæðinu og verður ekki þvingað til eins eða neins. Það er því aðeins lítið brot þeirra sem nú flytjast til Íslands “þurfa” að læra málið. Hættan er á að aðrir, þ.m.t. Pólverjarnir, Þjóðverjarnir og Litháarnir líti svo á að nú “þurfi þeir ekki” að læra íslensku.
Mikilvægustu verkefni framundan eru að fjölga þeim útlendingum sem kjósa að læra íslensku og búa til þannig markað fyrir kennslu hennar. Einnig þyrfti að koma á viðurkenndum stigsprófum í íslensku sem myndu gera nemendum kleift að meta stöðu sína, færa sig á milli skóla og nýst gætu vinnuveitendum eða skólastofnunum við mat á íslenskukunnáttu tilvonandi starfsmanna eða nemenda.
Um þetta verður fjallað nánar í næstu pistlum.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021