Langflestir sem eitthvað fylgjast með fótbolta og fylgdust með síðustu heimsmeistarakeppni kannast við hinn frækna fótboltamann Zinedine Zidane. Á Kvikmyndahátíð í Reykjavík (Reykjavik international film festival) er nú verið að sýna myndina Zidane, un portrait du 21e siècle, en Sigurjón Sighvatsson er annar framleiðandanna. Þar er fylgst með Zidane í vinnunni sinni, þ.e. að spila fótbolta. Myndin er alveg hreint mögnuð upplifun.
Myndin er ótrúlega sérstök og ekki lík neinu sem ég hef áður séð. Hún gerist í rauntíma fótboltaleiks en í staðinn fyrir að fylgjast með gangi leiksins eru myndavélarnar á Zidane allan tímann. Maður gerir sér litla grein fyrir leiknum sjálfum en upplifir hann á annan hátt með því að fylgjast með Zidane.
Kvikmyndatakan er alveg hreint glæsileg. Skipt er á milli sjónarhorna í gríð og erg. Ýmist fylgist maður með frá sjónarhorni áhorfenda og heyrir þá í spænsku þulunum, eða maður er kominn inn á völlinn og upplifir það sem hann upplifir. Þá heyrast annaðhvort yfirgnæfandi öskrin í áhorfendum eða ekkert nema þögnin. Það getur maður einmitt ímyndað sér að fótboltamenn upplifi í leikjum sínum.
Að heyra Zidane anda, klóra sér og hrækja er ótrúlega sérstakt. Þegar hann svo sparkar í boltann er sem sprengju sé varpað. Hreyfingar hans, eldsnögg viðbrögð og vökul augu minna helst á pardus. Hann fylgist nákvæmlega með því sem fram fer, grípur inn í á hárréttum tíma og afgreiðir boltann frá sér á snyrtilegan hátt. Að fylgjast með þessu öllu frá svona nýstárlegu sjónarhorni gefur manni svo sannarlega nýja innsýn í venjulegan fótboltaleik.
Helsta ástæðan fyrir því að ég fór að sjá þessa mynd var einlæg aðdáun minn á Zidane. Hann er einn besti og glæsilegast fótboltamaður sem íþróttin hefur alið af sér, svo ekki sé minnst á kynþokkann sem geislar af honum. Ég hélt því fyrirfram að ég mundi sitja í 90 mínútur og dást að því hve Zidane væri myndarlegur, og ekki fannst mér það svosem leiðinlegt hlutskipti ef ég á að segja eins og er. Mig óraði hins vegar ekki fyrir þeirri sérstöku upplifun sem ég varð fyrir við að horfa á myndina.
Samkvæmt titli myndarinnar á hún að vera nútíma portrett og það er hún sannarlega. Það er með ólíkindum hversu vel manni finnst maður kynnast karakter Zidanes. Hann er virkilega agaður leikmaður og tekur leikinn mjög alvarlega. Honum stekkur ekki bros á vör þegar liðið hans skorar, svo alvarlegur er hann. Mörgum gæti fundist hann leiðinlegur fyrir vikið, jafnvel hrokafullur, en að mínu mati eykur það aðeins á sjarma hans.
Það er aðeins á einum stað í myndinni sem hann sést brosa, en þá er hann að hlæja og gantast með einum liðsfélaga sínum. Þetta er svo einlægt móment að það liggur við að manni vökni um augun. Ég hef heyrt að þetta hafi verið eina atriðið sem Zidane sjálfur var óánægður með. Því það væri ekki atvinnumannslegt að brosa svona og fíflast. Þetta finnst mér segja meira um manninn en mörg orð.
Einnig fær maður á tilfinninguna að Zidane sé mjög meðvitaður um uppruna sinn, en hann er ættaður frá Alsír, og að mótherjar hans hafi stundum nýtt sér þennan veikleika hans til að ergja hann. Enda komast mótherjar hans ekki með tærnar þar sem hann hefur hælana hvað tækni á vellinum varðar og þurfa þeir því að beita öðrum ráðum til að trufla hann og koma honum úr jafnvægi.
Áður en myndin hófst hélt Sigurjón Sighvatsson stutta tölu þar sem hann talaði um að myndin hefði ákveðið forspárgildi um það sem koma skyldi, en þau sögulok þekkja flestir sem fylgdust með HM. Því er mjög sérstakt að fylgjast með því sem gerist í myndinni og eiginlega erfitt að tengja hana ekki við það sem á eftir kom.
Myndin er eins og áður segir einstök karakterlýsing og ótrúleg upplifun. Hverri mínútu er vel varið yfir henni og sat ég sem dolfallin mest allan tímann. Ég mæli eindregið með henni og helst langar mig að fara aftur. Aðdáun mín á þessum einstaka fótboltamanni er nú meiri en nokkru sinni fyrr og leiðinlegt að fá ekki að fylgjast með honum í fleiri leikjum en hann hefur lagt skóna á hilluna.
- #FreeBritney - 22. júlí 2021
- Næstu skref í fæðingarorlofsmálum - 6. júlí 2021
- Hvað tökum við með okkur úr faraldrinum? - 23. júní 2021