Fimmtudagurinn 28. september síðastliðinn markaði tímamót þegar hafin var fylling í hið nýja Hálslón á öræfum Austurlands. Viðburðurinn var eflaust sigur – og léttir – í hugum margra, ekki síst í ljósi þess hversu umdeild framkvæmdin hefur verið undanfarin misseri. Viðburðurinn var síðan ekki síst ósigur í hugum annarra, sem töldu að með Fljótsdalsvirkjun og stíflugerð á hálendi Austurlands væri stigið óheillaskref og að maðurinn væri með þessu að seilast heldur langt niður í pyngju móður náttúru.
Það er ljóst að Fljótsdalsvirkjun er orðin að veruleika. Og allar líkur á að hún taki til við að framleiða rafmagn fyrir Fjarðaál á næsta ári. Og því er ómögulegt að neita með fullu að þar sé stigið framfaraskref í atvinnumálum fjórðungsins. Fjórðungurinn hefur – líkt og nánast öll önnur svæði landsbyggðarinnar – þurft að horfa á bak fólki í leit að atvinnu og lífsgæðum undanfarna áratugi. Það er því ekki nema von að íbúar Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs gleðjist við nýtt akkeri byggðar sem álverið í Reyðarfirði verður. Útflutningstekjur landsins koma einnig til með að aukast töluvert og stuðla að sjálfbærari vexti þjóðarframleiðslu. Sem er jákvætt.
En hvaða kraftar liggja að baki þessari viðleitni? Hvað er það sem skóp álverið við Reyðarfjörð og Fljótsdalsvirkjun? Er hægt að skrifa það á samkeppnishæfni landsins í raforkuverði, aðgengi að innri mörkuðum Evrópusambandsins og stöðugu stjórnmála- og efnahagsástandi? Er unnt að benda á þetta sem óhefta og frjálsa markaðskrafta að verki í sinni fullkomnu mynd? Sennilega ekki. Og í raun augljóslega ekki.
Þeir þættir – sem nefndir voru hér að ofan – eru e.t.v. eitthvað sem kalla má nauðsynlegar forsendur fyrir tilkomu álversins við Reyðarfjörð. En ólíklega eru það nægjanlegar forsendur fyrir uppbyggingunni eystra.
Það er erfitt að ímynda sér að dæmið hefði gengið upp nema með verulegri opinberri íhlutun eins og þeirri sem mótað hefur allt ferlið frá upphafi til enda. Sem dæmi þá er seljandi raforkunnar er sameignarfyrirtæki í eigu opinberra aðila og sem starfar eftir lögum um raforkuver, sett voru sérstök lög um byggingu álvers við Reyðarfjörð, skilgreint hlutverk Orkustofnunar er að hvetja til nýtingar orkulinda landsins. Leitað var kaupenda að orkunni og var sú leit kostuð af opinberum – eða í það minnsta hálfopinberum – aðilum. Efasemdir hafa lengi verið til staðar um arðsemi virkjunarinnar og undarleg er sú leynd sem ríkir um söluverð raforkunnar til handa Alcoa í ljósi þess að um er að ræða söluaðila í eigu hins opinbera.
Ekki má gleyma því þegar umhverfisráðherra hnekkti úrskurði Skipulagstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkastíflu, sem kvað framkvæmdina valda of miklum óafturkræfum umhverfisáhrifum til að hún gæti gefið henni grænt ljós. Og að Norsk Hydro dró sig út úr verkefninu af sömu ástæðum.
Það má því e.t.v. fyrst og fremst þakka hinni duglegu og mjög viljugu opinberu stjórnsýslu landsins fyrir tilkomu álversins og virkjunarinnar. Án hennar hefði dæmið sennilega aldrei gengið upp.
En hver er undirrót þessarar viðleitni? Hví eyða allri þessari orku og fjármagni í dæmi sem óvíst er að skili verulegum arði fyrir þjóðarbúið og hefði að öllum líkindum mátt ná fram með því að leyfa óheftum og eðlilegum markaðskröfum að leika sitt hlutverk í hinni margslungnu framvindu þjóðarefnahagsins? Hví tvístra þjóðinni í tvær fylkingar í umræðu um nýtingu náttúruauðlinda og skapa úlfúð og illdeilur sem seint munu gróa? Hví seilast jafn langt í fjársjóð hins ósnortna hálendis okkar Íslendinga og gert var við Kárahnjúka? Og á tímum þegar allsnægtir – ekki neyð – einkennir þjóðlíf og efnahag?
Svarið við þessu felst sennilega í tvennu.
Í fyrsta lagi eru allsnægtir þjóðfélagins farnar að skiptast töluvert upp á milli landshluta. Hinar dvínandi jaðarbyggðir landsins fylgjast með nánast stanslausri velgengni borgarinnar við Sundin og sífellt harðnandi samkeppni um lífsgæði og almenna velmegun. Forsendur og stoðir atvinnulífs verða sífellt veikari á mörgum – ef ekki flestum – minni stöðum úti á landi. Tækninýjungar, breyttar samgöngur og ekki síst annað og breytt menntunarstig þjóðarinnar hefur orðið til þess að þær forsendur sem mótuðu markað fyrir smábyggðir við strendur landsins eru að mestu horfnar. Þjóðin fór að safnast saman á fáa þéttbýlisstaði. Og í ljósi þess að Reykjavík hafði eilítið forskot á sviði menntunar og stjórnsýslu hefur hún sópað til sín megninu af þjóðinni. Þessi þróun er mörgum þyrnir í augum. Jafnvel höfuðborgarbúa, sem margir hverjir fæddir og uppaldir á stöðum sem í dag berjast í bökkum. Þetta er kjarninn í því sem nú kallast byggðastefna stjórnvalda. Stefna sem hefur það að megininntaki að grípa inn í þróunina og beita sér fyrir því skapa nýjar forsendur atvinnustarfsemi á landsbyggðinni. Og með því þá er tekin sú ákvörðun að þvinga inn forsendur fyrir uppbyggingu og bjaga ferlið þannig að það gagnist jaðarbyggðunum. Þetta er kjarninn í núverandi byggðastefnu stjórnvalda.
Í öðru lagi eimir sennilega þó nokkuð eftir af ákveðinni miðstýringar- og forsjárhyggju í íslensku þjóðfélagi. Að það sé hlutverk hins opinbera að skapa störf í gegn um íhlutun og með miðstýringu þjóðlífsins. Eins og nefnt var hér að ofan eru það ekki síst afleiðing þess háttar viðleitni að til er að verða hinn nýi stóri vinnustaður við Reyðarfjörð.
Það má draga í efa skynsemi beggja þessara þátta. Það á ekki að vera í verkahring hins opinbera að stýra þróuninni öðruvísi en með því að aflétta haftir og hámarka það frelsi sem markaðskraftarni þarfnast til að móta bestu og hagkvæmustu lausnina. Þó er engu að síður mjög skiljanlegt af hverju hið opinbera leggur sig fram um að bjaga ferlið og stýra þróuninni í þá vegu sem nú er að kristallast með Fljótsdalsvirkjun og Fjarðaáli.
Frá gerð Kárahnjúkastíflu
|
Öllum breytingum fylgir hræðsla og sársauki. Það er auðvitað dapurlegt að fylgjast með hnignun ákveðinna staða úti á landi á meðan aðrir vaxa og dafna. En það er langt í frá í fyrsta skipti í Íslandssögunni sem það gerist. Þjóðflutningar hafa í raun verið nátengdir sögu þjóðarinnar í gegn um aldanna rás. Í upphafi voru sveitirnar numdar og stunduð kvikfjárrækt. Síðan fluttist fólkið niður að ströndu og hóf fiskveiðar. Síðan mynduðust setur þekkingar og trúar á ákveðnum stöðum. Síðan tók það sig saman og myndaði verslunar- og fiskveiðiþorp við ströndina. Síðan mynduðust þorp við ákveðin vegamót þegar þjóðin fór að ferðast á landi í stað láði. Síðan mynduðust iðnaðar-, verslunar- og þjónustubæir. Sumir voru stærri en aðrir og urðu miðstöðvar þekkingar og skólastarfsemi. Litla þjóðin bjó síðan til borg og skapaði þar með forsendu fyrir samkeppnishæfni landins í alþjóðlegu umhverfi heimsvæðingarinnar. Og virðist ætla að láta það dæmi ganga upp.
Allt hefur þetta orðið fyrir tilstuðlan tiltölulegra frjálsra og óheftra markaðskrafta. Krafta sem eflaust hefur skapað álíka hræðslu við breytingar hjá forfeðrum okkar síðustu þúsund árin líkt og nú. Eflaust hafa álíka tilfinningar brotist um í hjörtum forfeðra okkar við hjá þeirri kynslóð sem nú ríkir við það að horfa upp á hrörnun ákveðinna byggðalaga á meðan önnur uxu og döfnuðu. En ólíkt forfeðrum okkar kjósum við nú að berjast á móti þróuninni. Við kjósum að horfast ekki í augu við staðreyndir málsins, heldur að leita allra leiða til að fyrirbyggja sársaukann. Og slá ryki í augun á okkur. Enda höfum við – ólíkt þeim – efni á því.
En hversu skynsamlegt er að heyja þetta stríð? Og ef svarið við því er jákvætt, getur skynsamlegasta leiðin þá talist vera sú að njörva byggðir landsins niður í óbreytt ástand? Að reyna að halda þjóðinni niðri á frumvinnslustiginu á meðan hún kýs í raun menntun og þróað iðnaðar- og þjónustustig á alþjóðavettvangi 21. aldarinnar?
Hversu lengi háði þrumuguðinn Þór baráttu við Elli kellingu áður en kappinn miklu áttaði sig á staðreyndum málsins og neyddist til að játa sig sigraðan? Erum við – líkt og þrumuguðinn – e.t.v. sífellt að berjast við hið óumflýjanlega? Og farin að kosta of miklu til? Bæði náttúru lands og þreki þjóðarinnar?
- Hálendisfrumvarpið er dautt, lengi lifi hálendisfrumvarpið - 10. júní 2021
- Gamalt vín á nýjum belgjum - 7. apríl 2021
- Borgarlína á toppnum - 20. febrúar 2021