Margir hafa líklega búist við því að hér á eftir myndi fylgja einhvers konar greining á vanhæfni hinna og þessara stjórnmálamanna þjóðarinnar. Svo er ekki. Fréttastofur landsins gera mistökum stjórnmálamanna nú þegar nokkuð góð skil. Þó ekki nema með tilsjón af hægri, vinstri eða öðrum huglægum sveiflum sem loða við viðkomandi fréttamanneskju, -stofu eða -tímarit. Þess í stað er tilgangurinn að snúa augum lesenda um 180 gráður og aftur í átt að fréttaflytjendunum. Nánar tiltekið íþróttafréttamanneskjum.
Lýsingar á íþróttaviðburðum í íslensku sjónvarpi eru líklega eitthvert það átakanlegasta sjónvarpsefni sem finna má. Þetta á sérstaklega við þegar íþróttaviðburðirnir eru alþjóðlegir og ýmiss konar nöfn eða jafnvel tæknilegar hliðar íþróttarinnar fara að þvælast fyrir viðkomandi lýsendum. Við einstaka tækifæri verða áhorfendur hugsanlega að sjá í gegnum fingur sér varðandi vankunnáttu lýsarans. Það ætti þó einungis að vera tilfellið ef íþróttin er þeim mun meira framandi eða óþekkt hér á landi. Hinsvegar er nú kannski ekki til of mikils ætlast að launað starfsfólk kynni sér til hlýtar þau verkefni sem þau hafa fyrir höndum.
Staðreyndin er engu að síður sú að þær íþróttir sem hafa yfirgnæfandi sýningartíma í íslensku sjónvarpi eru langt frá því að vera framandi eða óþekktar. Knattspyrna er, sem dæmi, án efa sú íþrótt sem íþróttafréttamenn þurfa oftast að spreyta sig á við að lýsa. Þrátt fyrir gríðarlegrar alþjóðlegrar vinsældar knattspyrnu virðast flestir íslenskir lýsarar eiga stórkostlega erfitt með að komast frá 90 mínútunum án þess að verða sér skammar. Þessi starfsstétt lifir og hrærist í heimi íþrótta en það virðist litlu breyta þegar kemur að lýsingum á kappleikjunum.
Í raun má skipta lýsurunum í tvo flokka. Annars vegar eru það atvinnuíþróttafréttamanneskjurnar sem eru sjónvarpsvanar og vita nokkurn veginn út á hvað lýsingin gengur, má segja að þau þekki rútínuna. En í stað þess að nýta þekkinguna og reynsluna sér til framdráttar verða þau iðulega vanaföst og ákaflega einhljóma í öllum lýsingum. Hinsvegar eru það svokallaðir sérfræðingar, þar eru venjulega á ferðinni fyrrverandi atvinnu- og afreksfólk eða þjálfarar úr viðkomandi íþrótt. Þessir aðilar hafa oft á tíðum mjög skemmtilega og fræðandi mola sem þau deila með hlustendum. Gallinn á gjöf Njarðar er hinsvegar sá að þetta fólk á oftar en ekki í stökustu vandræðum í myndverinu. Til dæmis varðandi hvenær á að tala og hvenær ekki.
Það má ekki skilja pistilinn sem svo að hér sé verið að níða íþróttafréttaflutning á Íslandi í heild sinni, enda væri það innantóm vitleysa. Flestum íþróttum eru gerð góð skil í fréttaflutningi hér á landi. Aftur á móti er hér verið að harðlega gagnrýna íþróttalýsingar. Erlendar sjónvarps- og útvarpsstöðvar hafa sýnt og sannað að íþróttalýsingar þurfa ekki að vera einhljóma, óáhugaverðar og jafnvel skemmandi fyrir áhorfendur og hlustendur. Þvert á móti geta þær verið stórskemmtilegar.
Það væri því ekki úr vegi að slá botnin í þennan pistil með ákalli til útvarps- og sjónvarpsstöðva landsins. Íþróttir eru fyrst og fremst skemmtun fyrir þá sem fylgjast með, skemmtun sem fólk oftar en ekki þarf að borga fyrir að njóta. Þess vegna mættu stöðvarnar sjá heiður sinn í því að tryggja starfsfólki sínu nægilega menntun svo það geti sinnt starfi sínu með viðunandi útkomu.
- Fimm til að fylgjast með - 17. ágúst 2011
- Raunveruleika útgáfan af FM (CM) afturkölluð af UEFA - 15. júlí 2011
- Þorláksmessa knattspyrnuaðdáenda - 10. júní 2010