Undanfarið hefur slúðurtímaritið Séð og heyrt birt myndir og viðtöl sem hafa farið verulega fyrir brjóstið á mér. Um er að ræða myndir af Íslandsvininum Halim Al þar sem hann er ýmist brosandi eða hlæjandi og meðfylgjandi eru viðtöl við Halim Al þar sem hann segir frá högum sínum og daglegu lífi. Í þessum viðtölum hefur m.a. komið fram að hann íhugi ferðalög til Íslands og fleira. Þetta hefur angrað mig og því hef ég ákveðið að nota Deigluréttinn minn þennan mánuðinn til þess að rifja upp harmsögu Sophiu Hansen og dætra hennar.
Sophia Hansen og Halim Al giftu sig á Íslandi 13. apríl 1984. Áður höfðu þeim fæðst tvær dætur, Dagbjört og Rúna, árin 1981 og 1982. Halim Al fékk íslenskan ríkisborgararétt í apríl 1987 og árið 1990 fór hann með einkadæturnar í frí til Tyrklands. Dagbjört og Rúna hafa ekki komið heim síðan. Árið 1992 fékk Sophia skilnað frá Halim Al á Íslandi og jafnframt forræði yfir dætrunum. Árið áður hóf hún málarekstur fyrir tyrkneskum dómstólum þar sem hún krafðist forræðis. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að Halim fengi forræðið, en Sophia fengi umgengnisrétt. Þennan rétt braut Halim margsinnis á næstu árum. Sophia leitaði oft réttar síns fyrir tyrkneskum dómstólum en uppskar lítið. Meðal dóma sem féllu var um eitt hundrað króna sekt sem Halim Al hlaut vegna umgengnisréttarbrots. Árið 1997 kærði Sophia tyrknesk stjórnvöld til Mannréttindadómstóls Evrópu. Dómurinn féll Sophiu í vil, en hann er sá fyrsti sinnar tegundar. Mannréttindadómstóllinn staðfesti að tyrknesk stjórnvöld hefðu brotið gegn 8. gr. mannréttindasáttmálans með því að tryggja ekki að Sophia fengi að sjá dætur sínar eins og hún átti rétt á. Tyrkneskum stjórnvöldum var gert að greiða Sophiu 6,6 milljónir í skaðabætur. Tyrkneskir fjölmiðlar fjölluðu um málið á þá leið að tyrknesk stjórnvöld þyrftu að greiða fyrir mistök Halims Al.
Frá því að forræðisdeila Sophiu og Halims Al hófst árið 1991 hefur Sophia lítið sem ekkert af séð dætrum sínum. Þá var Rúna sjö ára og Dagbjört nú ára. Lengst hafa liðið nokkur ár milli funda mæðgnanna því að Halim Al hefur staðið því í vegi.
Aðstæðurnar sem Rúna og Dagbjört hafa þurft að lifa við eru skelfilegar. Meðan þær bjuggu hjá föður sínum voru þær fangar hans og allir á heimilinu fylgdust grannt með þeim. Þær fengu þó að mennta sig í íslömskum fræðum og eru í raun og veru lærðar eins og íslamskir prestar. Þær fá þó ekki að predika í moskum þar sem þær eru konur. Seinna meir kenndu þær þessi fræði við heimavistarskóla í Istanbúl og er sá skóli víggirtur allt um kring. Aðra hvora helgi náði Halim Al síðan í dæturnar og þá gistu þær á heimili hans. Staðfest hefur verið að Halim Al, og jafnvel aðrir á heimilinu, hafi beitt stúlkurnar miklu andlegu og líkamlegu ofbeldi. Í gegnum árin hefur Sophia sent Rúnu og Dagbjörtu bréf og kort og reynt að hringja í þær. Halim Al skipti ítrekað um símanúmer og kom engu til skila sem hún sendi þeim. Sophia hefur hingað til ekki viljað greina nákvæmlega frá þeim fáu fundum sem hún hefur átt með dætrum sínum því þær fengju þá að kenna á því hjá föður sínum. Nýlega gifti Halim Al Rúnu, 25 ára gömlum manni sem var skólagenginn úr skóla öfgafullra múslima. Það er því ekki líklegt að líf hennar hafi breyst til hins betra.
Árið 1997 komu Sophia Hansen og Halim Al fram í tyrkneskum sjónvarpsþætti og sátu fyrir svörum. Í þættinum var hringt í Rúnu og Dagbjörtu og sögðu þær þá að þær vildu ekkert með móður sína hafa og að þetta væri ákvörðun sem þær hefðu tekið af fúsum og frjálsum vilja. Þetta endurtóku þær nokkrum sinnum við mikinn fögnuð föður síns, en Sophia brast í grát. Þátturinn var stöðvaður stuttu seinna af stjórnandanum sem var augljóslega mjög brugðið. Fjölmiðlar í Tyrklandi fjölluðu um málið og m.a. var skrifuð grein í þriðja stærsta dagblað landsins þar sem sagði að ,,Allt Tyrkland hefði fylgst með grimmum föður, tveimur heilaþvegnum dætrum og þjáðri móður.” Höfundur óskaði þess jafnframt frá hinu dýrlega almætti að ,,þessi undirförli maður ætti það líf sem hann á skilið”. Í fjölmiðlum kom jafnframt fram að það væri slæmt að slík deila væri tengd við íslam; þar segði hvergi að skilja ætti að móður og börn.
Sagan af Sophiu Hansen, Rúnu og Dabjörtu er sönn harmsaga. Hún er saga af móður sem hefur aldrei gefist upp í voninni um að endurheimta dætur sínar sem voru hrifsaðar af henni. Baráttan hefur gert hana skulduga upp fyrir haus, auk þess sem hún þjáist af ýmsum kvillum bæði andlegum og líkamlegum. Þrátt fyrir allt saman segist Sophia ekki vera reið út í Halim Al, segir hann vera andlega veikan og án dómgreindar og siðferðiskenndar. Pistlahöfundur getur alls ekki tekið undir með Sophiu, allavega ekki hvað varðar reiðina.
Ég vona innilega að þessi pistill verði til þess að rifja upp fyrir fólki sögu þessarar mögnuðu konu. Ég held jafnfram að það væri nær hjá Séð og heyrt að birta viðtöl og fregnir af henni. Reyndar fjallaði blaðið um Sophiu Hansen um daginn á mjög ósmekklegan og óvæginn hátt þar sem staðhæft var að hún ætti í tygjum við tyrkneskan mann. Sú frétt er ósönn.
Ég veit ekki hver tilgangurinn hjá blaðinu er með þessum viðtölum við Halim Al. Ef til vill er þetta einhver skrítinn vinnustaðahúmor; hann kemst ekki til skila til lesenda svo mikið er víst. Ég vona bara að blaðamennirnir sem fyrir þessu stóðu hafi einfaldlega ekki vitað betur og bæti nú úr. – Tyrkneskir fjölmiðlar ættu ekki að vera einir um að fjalla um Halim Al sem skepnuna sem hann er.
- Besta hátíðin - 9. apríl 2023
- Lýðræðið mun sigra - 2. júlí 2021
- Norræn vídd í varnarsamstarfi - 29. júní 2021