„Seðlabankastjóri“

Þrátt fyrir að Íslendingar séu fyrir nokkru komnir út úr moldarkofunum þá erum við talsvert langt að baki öðrum siðmenntuðum ríkjum þegar kemur að skipun í embætti seðlabankastjóra.

Þrátt fyrir að Íslendingar séu fyrir nokkru komnir út úr moldarkofunum þá erum við talsvert langt að baki öðrum siðmenntuðum ríkjum þegar kemur að skipun í embætti seðlabankastjóra.

Seðlabanki er mikilvægur hluti fjármálamarkaða í hverju landi eða á hverju svæði, eftir því sem við á. Í flestum þeim löndum sem við Íslendingar berum okkur saman við ákvarða Seðlabankar stýrivexti og hafa þannig áhrif á vaxtastigið í viðkomandi mynt. Markmið seðlabanka er í flestum tilfellum að stuðla að stöðugleika í þjóðarbúskapnum með viðundandi hagvexti. Það eru nánast óteljandi þættir sem þarf að taka tillit til í hvert skipti sem ákvörðun um stýrivexti er tekin því vaxtastig hefur umtalsverð áhrif á hegðun og væntingar á fjármálamörkuðum.

Af framansögðu má álykta að mikilvægt sé að þeir sem taka ákvarðanir um stýrivexti hjá viðkomandi seðlabanka hafi víðtæka menntun, yfirgripsmikla þekkingu og djúpan skilning á hagfræði, þá sérstaklega þjóðhagfræði og jafnvel reynslu úr fjármálaheiminum. Það er varla til of mikils ætlast af þeim sem fara með svo mikilvægar ákvarðanir.

Þau lönd eða svæði sem við berum okkur helst saman við eru Evrópa og Bandaríkin og þar starfa seðlabankar Bretlands, Evrusvæðisins og Bandaríkjanna. Seðlabanki Bandaríkjanna er líklega áhrifamestur þessara þriggja og bíða fjármálamarkaðir beggja vegna Atlantshafs jafnan í ofvæni eftir ákvörðunum hans. Þær hafi umtalsverð áhrif á hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði þegar þær birtast og greiningaraðilar og aðrir sjálfskipaðir „sérfræðingar“ reyna hver í kapp við annan að lesa sem mest út úr orðalagi yfirlýsinga bankans.

Seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Ben Bernanke, er einn virtasti hagfræðingur landsins, að sjálsögðu með doktorspróf í hagfræði og hefur 15 ára starfsreynslu í opinberum fjármálum. Hann hefur bæði numið og kennt við virtustu skóla heims og skrifað greinar um fjölmörg efni innan hagfræðinnar, þar á meðal peningamálastefnu og þjóðhagfræði. Svipaða sögu er að segja af seðlabankastjórum Bretlands og Evrópu, þrátt fyrir að ferill Bernanke sé einna glæsilegastur.

Bankaráð þessara þriggja seðlabanka eru einnig að mestu leyti skipuð þekktum hagfræðingum sem flestir hafa doktorsgráður frá heimsþekktum háskólum. Í bankaráði Seðlabanka Bandaríkjanna situr meðal annarra Frederic Mishkin sem er einn virtast og þekktasti hagfræðingur heims og hefur hann um árabil stundað rannsóknir tengdar fjármálum hins opinbera.

Að svo mæltu er skemmtilegt að beina sjónum aftur hingað heim til Íslands. Líklega þekkja flestir Íslendingar núverandi Seðlabankastjóra, Davíð Oddsson. Hann er mörgum kostum gæddur eins og alþjóð veit og sannarlega einn merkasti stjórnmálamaður sem Ísland hefur átt. Hann er samt ekki hagfræðingur – hann er lögfræðingur. Því er ekki að neita að hann hefur víðtæka reynslu þegar kemur að ríkisfjármálum og þekkir þau líklega betur en flestir, en þegar öllu er á botninn hvolft hefur hann hvorki hagfræðimenntun né reynslu af fjármálamörkuðum.

Hér er ætlunin þó ekki að vega að Davíð Oddssyni. Það er nefnilega sömu sögu að segja af fjölmörgum bankastjórum sem setið hafa á undan honum – þeir hafa hvorki haft þá menntun né reynslu sem æskilegt væri að Seðlabankastjóri hefði til þess að geta tekið skynsamlegar ákvarðanir. Stóll Seðlabankastjóra hefur verið notaður fyrir stjórnmálamenn sem hafa ekki viljað hverfa alveg úr þjóðmálaumræðunni, en samt hafa tíma til þess að bæta forgjöfina.

Það er eiginlega hálfsorglegt að svo mikilvægt embætti skuli enn vera notað sem pólitískur bitlingur, sérstaklega þegar áhugi erlendra fjárfesta á Íslandi hefur aukist til muna og trúverðugleiki Seðlabankans skiptir sífellt meira máli. Það er einlæg von pistlahöfundar að næsti Seðlabankastjóri verði skipaður á grundvelli menntunar og reynslu en ekki vegna fornrar frægðar, vinskapar eða starfa í þágu ákveðinna stjórnmálaflokka.

Latest posts by Davíð Gunnarsson (see all)