Fyrir um viku síðan greindi nýr stjórnarformaður Orkuveitunnar, Guðlaugur Þór Þórðarson, frá því að heildarkostnaður við byggingu nýju höfuðstöðvanna hefði numið 5,8 milljörðum króna. Fráfarandi stjórnarformaður, Alfreð Þorsteinsson, svaraði Guðlaugi í stórmerkilegu útvarspviðtali sama dag á þeim nótum að: 1) þetta væri bull en hann væri hins vegar ekki talnaglöggur maður, 2) að sjálfstæðismenn mættu vara sig á því að birta svona óþægileg tíðindi og 3) að svona framúrkeyrslur væru eðlilegar. HVAÐ!
Því miður var fréttamaður ekki ágengari en svo að hann lét sér þessi svör fráfarandi stjórnarformanns nægja. Alfreð sendi hins vegar frá sér yfirlýsingu sama dag þar sem hann endurtók skoðun sína að “hér [væri] um svo grófa fölsun að ræða að engu tali [tæki]” og hótaði Sjálfstæðimönnum aftur fyrir að segja sannleikann: “Samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn hlýtur að spyrja sig hvort vinnubrögð formanns OR séu til marks um vinnubrögð sem eigi að innleiða á öðrum sviðum.”
Samkvæmt frétt Morgunblaðisins um málið virðist Alfreð vísa þar til þess að hans eigin kostnaðaráætlun hefði ekki tekið tillit til innréttinga hússins, framkvæmda við bygginguna á árinu 2005 sem og nokurra tíkalla við einhverja rafstöð. Jafnframt hefði hans kostnaðaráætlunin verið uppfærð einu sinni á tímabilinu, eftir að ljóst var að framúrkeyrsla hefði verið gífurleg og honum hentaði því betur að miða við þá áætlun. Með öðrum orðum: Sé heildarkostnaður við bygginguna skoðaður og frá honum dregnir nokkrir milljarðar króna sem beint má rekja til byggingu höfuðstöðvanna fæst út tala sem er ekki nema 500-600 milljónum hærri en uppfærð kostnaðaráætlun Alfreðs. Nýr stjórnarformaður Orkuveitunnar fer því augljóslega með fleipur.
Reykvíkingar virðast hins vegar ekki hafa kippt sér mikið upp við þessa frétt sem er bæði umhugsunarefni og alvarlegt mál. Líklega mun því enginn þurfa að svara fyrir mesta bruðl með fjármuni borgarbúa sem sögur fara af.
Til gamans má geta þess að á eftir umræddu útvarpsviðtali við fráfarandi stjórnarformann Orkuveitu Reykjavíkur, sem nú hefur verið treyst fyrir byggingu nýs hátæknisjúkrahúss, var spilað hið sívinsæla lag “BA-NA, NA NA NAA NAA, VEEEE EIIII ÓÓÓÓ, BA-NA-NA”.
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009