Nánast hver einasti einstaklingur tekur þátt í einhvers konar félagsstörfum á lífsleiðinni. Sumir meira en aðrir og sumir geta jafnvel ekki hætt því félagsstörfin veita þeim svo mikla ánægju. En af hverju í ósköpunum tekur fólk þátt í félagsstörfum eða stjórnmálum án þess að fá oftast krónu fyrir? Hvaðan kemur drifkrafturinn sem drífur hina miklu félagsmálaflóru áfram?
Það er oft talað um að skipta megi fólki sem tekur þátt í hvers konar sjálboðaliðastarfi og félagsstarfi upp í þrjá hópa. Það eru síðan mismunandi hvatir eða þarfir sem drífa hvern hóp áfram og skapa þá ánægju og gleði sem iðulega fylgir störfum í félögum eða hópum.
Verkefnafólkið
Margir sem taka þátt í félagsstörfum eru drifnir áfram af þeirri ánægju sem fylgir því að klára vel unnið verk. Þenna hóp köllum við verkefnafólk (e. Task oriented people). Fyrir þennan hóp skiptir meira máli að klára verkefnin og skila þeim vel heldur en hvernig þau eru unnin, í hvaða umhverfi og með hvaða fólki. Einstaklingum í þessum hópi finnst einnig oft betra að vinna sjálfir að verkefnunum heldur en að vinna í hóp. Til að ná fram því besta og hvetja áfram fólk í þessum hóp er góð aðferð að hrósa fyrir vel og örugglega kláruð verkefni. Þannig finnur þessi hópur ánægjuna af félagsstörfum.
Félagsfólkið
Félagsfólkið (e. Social oriented people) er hópur sem er frekar drifinn áfram af samvinnu og samvistum við annað fólk heldur en að klára verkefni. Þessum einstaklingum er nokkuð sama þó að verkefni klárist ekki endilega í tíma heldur er lykilatriðið hvernig verkefnið er unnið, t.d. í góðum hóp, skemmtilegri aðstöðu o.s.fr. Þessir einstaklingar vinna mun betur í hóp heldur en einir. Til að ná fram því besta og hvetja áfram fólk í þessum hóp er góð aðferð að hrósa fyrir það hversu góð aðferð var notuð og hversu góð samvinna var þegar unnið var að verkefninu.
Ég sjálfur-fólkið
Hópurinn sem drifinn er áfram af því að læra nýja hluti og auka hæfileika sjálfs síns er kallaður ég sjálfur – fólkið (e. Self oriented). Hjá þessum hóp snúast hlutirnir um að einstaklingurinn græði eitthvað persónulega á félagsstörfunum. Þessir einstaklingar vilja í sífellu fá ný og krefjandi verkefni sem krefjast nýrrar kunnáttu, þekkingar og hæfni. Ég sjálfur-fólkið getur unnið að verkefnum jafnt í hóp sem og eitt – svo framarlega sem því finnst það sjálft græða eitthvað á því. Til að ná fram því besta og hvetja áfram fólk í þessum hóp er góð aðferð að hrósa fyrir það hvað viðkomandi hafi farið fram sem einstaklingi í síðasta verkefni sem hann tók að sér.
Verkefni stjórnandans
Eins og sjá má á lýsingunum hér að ofan er það mismunandi áhugi og þarfir sem drífa okkur áfram í félagsstörfum og halda okkur áfram við efnið. Það er því vandasamt, en jafnframt mikilvægt, verkefni hvers formanns, stjórnanda eða hópstjóra að reyna að greina í hvaða hópi fólk á heima og nýta sér þessa þekkingu til að útdeila verkefnum og hrósa á réttan hátt. Því það er jú lykillinn að árangri í öllu félagsstarfi að laða fram það besta í hverjum einstaklingi svo hópurinn nái hámarks árangri – og hámarskgleði.
Í hvaða hópi ert þú?
- Fjárfestingar í sprotafyrirtækjum - 11. nóvember 2010
- Störfin sem vaxa ekki á trjánum - 22. september 2010
- Viðhorf á villigötum - 11. ágúst 2010