Göngum til góðs

Í dag fer fram söfnunarátakið Göngum til góðs á vegum Rauða kross Íslands. Að þessu sinni verður söfnunarfénu varið til hjálpar börnum sem eiga um sárt að binda vegna alnæmis.

Í dag fer fram söfnunarátakið Göngum til góðs á vegum Rauða kross Íslands. Að þessu sinni verður söfnunarfénu varið til hjálpar börnum sem eiga um sárt að binda vegna alnæmis.

Þessi landssöfnun Rauða krossins er nú haldin í fjórða sinn . Hverju sinni hefur sérstakt málefni verið valið til að styrkja en í ár er áhersla lögð á að leggja þeim börnum lið sem eiga um sárt að binda vegna alnæmis og búa í sunnanverðri Afríku. Þetta svæði er jafnan álitið þungamiðja alnæmisfaraldursins. Það kann þó að breytast ef nýsmit í Asíu aukast líkt og gert er ráð fyrir.

Í fjórum löndum í sunnanverðri Afríku eru um 30% fullorðinna smitaðir. Í ákveðnum samfélagshópum er talan enn hærri. Víða er þó hægt að fá ódýr alnæmislyf en fjölmargir íbúar álfunnar eiga ekki kost á þeim bæði vegna kostnaðar og skorts á almennri heilsugæslu. Skammarlegt er til þess að vita að þeir sem mest þarfnast þessara lyfja geti ekki nálgast þau. Það myndi bæði auka lífsgæði þeirra sem þegar eru smitaðir og hjálpa til við að halda alnæmisfaraldrinum í skefjum.

Alnæmi hefur valdið fjölmörgum nýjum vandamálum á umræddum svæðum í sunnanverðri Afríku. Ástæðan er einföld. Sjúkdómurinn veikir smitaða og fæðuöflun verður mun erfiðari sökum þess að geta samfélaganna til þess að rækta eða veiða fæðu verður minni. Þetta hefur svo aftur neikvæð áhrif á þau vandamál sem fyrir eru á borð við fátækt, skuldir, náttúruspjöll og vopnuð átök. Bágborin staða kvenna veldur sömuleiðis enn hraðari útbreiðslu en ella. Þrátt fyrir þetta sjást nokkur merki um að áróður og fræðsla séu að bera árangur þar sem nýsmitum meðal ungs fólks fer fækkandi.

Nú er svo komið að stærsta vandamálið í sunnanverðri Afríku er fjöldi þeirra barna sem eiga smitaða foreldra eða eru munaðarlaus. Alnæmi hefur þannig óbein áhrif á börnin og reyndar hugsanlega bein áhrif þar sem ný skýrsla sýnir að börn foreldra með alnæmi eru líklegri til að smitast en önnur börn. Þau þurfa einnig oft að hætta skólagöngu til þess að afla heimilinu tekna og eru gjarnan illa haldin af þunglyndi og streitueinkennum.

Þau samfélög í sunnanverðri Afríku sem Göngum til góðs átakinu er ætlað að hjálpa eru þannig uppbyggð að án utanaðkomandi hjálpar mun þeim veitast mjög erfitt að komast af. Munaðarlaus börn lenda hjá aðstandendum þar sem fátæktin er jafnvel enn meiri en á þeirra eigin heimili og þau þurfa að vinna fyrir sér nánast frá blautu barnsbeini. Þau eiga því nánast enga von um bjarta framtíð.

Þegar ástandið er jafnslæmt og raun ber vitni ætti ekki að vera mikið mál að standa upp frá tölvunni, rölta á næstu söfnunarstöð (ein í hverju póstnúmeri) og ganga til góðs í tvo tíma eða svo. Pistlahöfundur ætlar í það minnsta ekki að láta sitt eftir liggja enda ekkert nema jákvætt við það að fá sér frískt loft, hressandi göngutúr og gera góðverk í leiðinni.

Ég hvet þá sem ekki ætla að ganga til góðs að taka vel á móti sjálfboðaliðum þegar þeir banka upp á. Ekki væri verra að undirbúa sig og eiga tilbúið klink eða seðla til að setja í söfnunarbaukinn. Pistlahöfundur minnir lesendur á það sama og kom fram í laginu forðum: Að gleyma ekki sínum minnsta bróður þótt höf og álfur skilji að.

Heimild:
http://www.redcross.is/redcross/starfid%5Ferlendis/alnaemisverkefni/

Latest posts by Davíð Gunnarsson (see all)