Ýmist tíðindi rötuðu upp á tölvuskjáinn í morgunrápinu um netheimana. Eins og venjulega þá neyddist vinnuveitandinn til að splæsa nokkrum mínútum í þann sem þessi orð rita til að svala fréttaþorstanum þennan blauta mánudagsmorgun.
Og helstu tíðindi morgunsins voru þau að glaðbeitti ástralinn í grænu stuttbuxunum hvarf – því miður – yfir móðuna miklu í leiðinlegu slysi við köfun undan ströndum Ástralíu. Það verður sannarlega sjónarsviptir af Steve Irwin. Hann kom ástríðu sinni á náttúru og dýralífi fram á jákvæðan og uppbyggilegan hátt þannig að erfitt var að hrífast ekki með.
En morgunrápið færði manni þó öllu alvarlegri tíðindi. Tíðindi sem liggja manni töluvert nær. Því auk Steve Irwin var sá sem þessi orð skrifar einnig máður út úr tilverunni nú um helgina. Rétt eins og Brúsi Willis í Sjötta skilningarvitinu rann það upp fyrir manni að umhverfið – raunveruleikinn – var í raun blekking ein. Ég er ekki til. Ég er víst bara skugginn af sjálfum mér.
Tíðindin sem urðu þessu valdandi voru þær niðurstöður sem greiningardeild Vinstri-grænna komst að nú um helgina. Og hún er afdráttarlaus. Hægri-grænir eru ekki til.
Eins og allt annað sem greiningardeild Vinstri-grænna skilar af sér er niðurstaðan óskeikul. Hún byggir – eins og allt annað sem þaðan kemur – á hnökralausri rökhyggju. Forstöðumaður greiningardeildarinnar steig upp í pontu nú um helgina og lýsti því yfir að hægri grænir væru ekki til. Að einungis undir formerkjum vinstrimennsku væri lykilinn að umhverfisvernd að finna.
Í stuttu máli kemst greiningardeildin þannig að því einungis undir formerkjum opinberrar miðstýringar, íhlutunar, ríkisafskipta og fjarveru markaðshyggjunnar sé stuðlað að heilbrigðri náttúruvernd. Einungis með því að hefta hina mótandi markaðskrafta getum við stuðlað að verndun umhverfisins. Samfélaginu er víst ómögulegt að skilgreina leikreglur markaðarins og setja og setja réttan verðmiða á eigin auðlindir á eigin forsendum og samkvæmt ráðandi gildismati.
Enn ein ástæðan fyrir því að undirritaður var þurrkaður út nú um helgina er að hann var haldinn alvarlegum misskilningi. Hann stóð í þeirri meiningu að aðall sjálfbærrar þróunar fælist einmitt í því – þegar vel tekst til – að virkja kraft samfélagins að neðan í frjálsu og óheftu ferli samskipta og virðingar gagnvart náunganum. Að forsenda fyrir sjálfbærri þróun snérist um samræðu og tilittsemi milli ólíkra sjónarmiða. Og að út frá gagnkvæmum skilningi milli hlutaðeigandi hagsmunaaðila í viðkvæmu en öflugu lærdómsferli mætti skilgreina þær lausnir og leiðir sem með réttu megi telja afsprengi sjálfbærrar þróunar. Og ekki síst með lágmarks utanaðkomandi afskiptum og íhlutun.
Nei, samkvæmt greiningardeild Vinstri-grænna þá skal sjálfbær þróun vera handstýrð að ofan. Í gegn um ríkisbákn sem ætlað er að hafa vit fyrir okkur hin. Umhverfisstefna vinstri manna getur því aldrei falist í öðru en því að gildum báknsins sé troðið inn á þá sem hlut eiga að máli. Þeir eiga að innprenta í okkur hin hvað okkur sé fyrir bestu og hvað ekki. Við eigum ekki að fá að læra það sjálf í gegn um frjálst flæði samskipta og kynnum af gildismati hvors annars. Okkur er ekki treystandi til þess að læra hvert af öðru.
Samkvæmt greiningardeildinni eru álvæðing og virkjanastefna ekki mein sem rekja má til opinberrar íhlutunar og tilraunar hins opinbera við að ráðskast með þá markaðskrafta sem mótað hafa byggð á landinu í árþúsundir. Nei, allt er þetta frjálshyggjunni að kenna. Kárahnjúkavirkjun er ekki ávöxtur markaðsherferðar opinberra starfsmanna á erlendri grundu með Low Price Terawattstundirnar að vopni eða tilraun hins opinbera til að halda þjóðfélaginu á frumvinnslustiginu. Nei, þetta er frjálshyggjunni að kenna. Það eru ekki virðingarleysi gagnvart ógurlegri náttúrufegurð Íslands og framtíðarmöguleikum ferðaþjónustunnar sem eru uppspretta slæmrar ákvarðanatöku í umhverfismálum. Nei, þetta er allt frjálshyggjunni að kenna.
Samkvæmt greiningardeildinni er frjálshyggjan ekki lausnin heldur meinið. Eða eins og forstöðumaðurinn segir í óskeikulli greiningu sinni: “Frjálshyggjan gagnast ekki í baráttunni fyrir vernd náttúruauðlinda og lífsskilyrða á jörðinni, sameiginlegu heimili jarðarbúa. Náttúruverndarbarátta er róttæk í eðli sínu, og þess vegna hafa róttækir vinstrisinnaðir stjórnmálaflokkar víða megnað að reisa merkið og bera það fram af þrótti”. Enn einu sinni kemst greiningardeildin að rökréttri niðurstöðu. Bravó.
Sjötta skilningarvit Vinstri-grænna hefur fleytt þeim of langt. Nú er mál að blekkingunni linni. Ég neita því nefnilega að vera ekki til.
- Hálendisfrumvarpið er dautt, lengi lifi hálendisfrumvarpið - 10. júní 2021
- Gamalt vín á nýjum belgjum - 7. apríl 2021
- Borgarlína á toppnum - 20. febrúar 2021