Í stað þess að einblína á núverandi skulda og eignastöðu vill Kotlikoff að fólk horfi á núvirt framtíðargjöld og tekjur. Þetta hefði verið gagnlegt tæki í umræðum um stöðu Reykjavíkurborgar
|
Fyrir utan það hversu lítið hefur verið fjallað um þessa grein, þá kemur helst á óvart hversu virtir aðilar standa að greininni en yfirleitt myndi maður telja að grein með fyrirsögninni hérna að ofan kæmi frá þekktum öfgamönnum en hér er þvert á móti um að ræða einn af seðlabönkum Bandaríkjanna sem setur nafn sitt við greinina og velþekktur fræðimaður sem ritar hana.
Kotlikoff hafnar þjóðarskuldum sem réttri mælieiningu á því hversu heilbrigð fjármál þjóðar er. Hann vill frekar skoða líftíma skuldbindingar núverandi og framtíðarkynslóða landsmanna. Ef þessar skuldbindingar eru meiri heldur en eignir (resources) þessara kynslóða, þá hættir rekstur landsins að vera sjálfbær og getur leitt til þjóðargjaldþrots. Þessi aðferð kallar Kotlikoff kynslóðauppgjör (e. Generation accounting).
Hvernig standa Bandaríkin sig í þessu samhengi. Kotlikoff vitnar þá í rannsókn eftir Gokhale & Smetters (2005) þar sem þeir mæla muninn á núvirði allra framtíðarútgjalda ríkisins (þar á meðal afborgana á núverandi skuldum) og allra framtíðartekna. Gokhale & Smetters unnu mjög náið með starfsmönnum fjármálaráðuneytis Bandaríkjanna (U.S. Treasury) við rannsóknina og er hún því nálægt því að vera besta spá hins opinbera um eigin stöðu.
Niðurstaða Gokhale og Smetters er ótrúleg, að þeirra mati er núverandi halli Bandaríkjanna 65,9 billjónir dollara! (tólf núll). Þetta er meira en fimmföld verg landsframleiðsla Bandaríkjanna. Sambærileg tala fyrir Ísland væri að Íslenska ríkið myndi skorta 5.000 milljarða til þess að geta staðið undir framtíðargreiðslum.
Áfallið sem maður fær við að lesa þessa tölu ágerist svo enn þegar Kotlikoff kemur með þrjár tillögur sem hann telur að gæti brúað bilið. Í fyrsta lagi þá lítur hann á tekjuhliðina og stingur upp á því að í stað núverandi skattkerfis þá komi einfaldlega 33% söluskattur á allar vörur ásamt endurgreiðslukerfi fyrir fátækustu borgurunum.
Næst stingur hann upp á að leggja niður núverandi lífeyrissjóðskerfi og taka þess í stað upp kerfi þar sem 7,15% er dregið af launum allra og sett í sjóð sem er eyrnamerktur þeim sem greiðir (og er hans eign) ríkið myndi síðan fjárfesta þessum peningum (?) í vel dreifð eignasöfn þannig að allir greiðendur myndu fá sömu ávöxtun.
Í þriðja lagi leggur hann til lagfæringar á heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna sem byggist á því að í stað þess að greiða fyrir þá þjónustu sem sjúklingur fær þá myndu allir bandaríkjamenn fá ávísun einu sinni á ári fyrir þeim kostnaði sem ríkið telur líklegt að þeir þurfi. Aldrað fólk og veikt myndi þannig fá hærri ávísun. Ef fólk þarf meiri læknisþjónustu þá borga tryggingar þeirra mismuninn (og eins stinga peningunum í vasann ef fólk notar ekki ávísunina). Þannig getur ríkið sett efri mörk á eyðslu í heilbrigðismálum og tryggingarfélög fá meira svigrúm til samkeppni.
Þessi grein Kotlikoffs er mjög athyglisvert innlegg í umræðu um fjármál hins opinbera og vekur upp þá þörfu spurningu hvort fjármálaráðuneytið á Íslandi hafi reiknað út framtíðarútgjaldaþörf miðað við framtíðartekjur. Slíkar tölur væru mjög athyglisverðar fyrir pólitíska umræðu í landinu.
* Seðlabanki bandaríkjanna (U.S. Federal Reserve) skiptist í tólf banka þar á meðal þennan í St. Louis sjá betur á heimasíðu seðlabankans.
Hlekkur á grein Kotlikoffs: Grein Laurence J. Kotlikoff
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021