Citigroup
|
Í nýlegri skýrslu um bankakerfið sem samkeppnisyfirvöld á Norðurlöndum birtu sameiginlega er meðal annars fjallað um samþjöppun á bankamarkaði, skort á erlendum banka á Íslandi og þörf fyrir aukinn hreyfanleika viðskiptavina. Er samkeppniseftirlitið hugsanlega á villigötum?
Sé litið inn á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins, www.samkeppni.is, má strax sjá tilgang og hlutverk stofnunarinnar í borða á efst á forsíðunni. Þar segir að Samkeppniseftirlitinu sé ætlað að stuðla að virkri samkeppni, almenningi til hagsbóta. Þetta er einkar göfugt markmið og að óreyndu verður að gera ráð fyrir því að Samkeppniseftirlitið hafi þetta markmið að leiðarljósi í einu og öllu. Sé hins vegar rýnt í hina nýútkomnu bankaskýrslu og sömuleiðis aðrar aðgerðir Samkeppniseftirlitsins þá kemur á daginn að hagsmunir almennings virðast ekki þeir einu sem litið er til.
Í fréttatilkynningu um skýrsluna eru nefnd þau atriði sem höfð voru að leiðarljósi við gerð skýrslunnar. Þarna er sérstaklega litið til þróunar og samþjöppunar á norrænum bankamarkaði árin 1995 til 2004, aðgengi nýrra banka að greiðslukerfum sem nauðsynleg eru fyrir almenna bankastarfsemi, fyrirkomulags á greiðslukortamarkaði og hreyfanleika viðskiptavina milli banka. Eins og sjá má þarf ekki að opna skýrsluna til þess að sjá eitthvað athugavert.
Fyrsta atriðið sem skýrslunni var ætlað að skoða er þróun og samþjöppun á norrænum bankamarkaði árin 1995 til 2004. Hefði ekki verið nær að skoða einfaldlega þróun á þessum markaði á umræddu árabili í stað þess að setja fram slíka hlutdrægni sem þessi fullyrðing ber vott um, strax í upphafi? Á glærum sem sýndar voru á blaðamannafundi þar sem fjallað var um skýrsluna kemur fram að samþjöppun á íslenskum bankamarkaði sé mjög mikil og hið sama gildi um hin Norðurlöndin.
Þetta hljómar að sjálfsögðu mjög illa í fyrstu. Þó má velta því upp hvort núverandi ástand hafi ekki einmitt skapast vegna þess að bankarnir höfðu hagmuni almennings að leiðarljósi. Stærri einingar eru gjarnan hagkvæmari og því er líklegt að stærri bankar hafa meiri burði til þess að bjóða viðskiptavinum betri kjör. Þá kemur reyndar upp sú spurning hvort kjörin skipti öllu máli.
Fjölmargir stunda viðskipti við einn banka eða annan vegna þess að þeir þekkja sinn þjónustufulltrúa sem er boðinn og búinn til aðstoðar hvað sem upp kemur. Þetta getur skipt miklu meira máli en 0,1% hærri eða lægri vextir eða ókeypis kreditkort. Kjör bankanna eru líka svo áþekk að segja má að litlu máli skipti hvar viðskiptin eru stunduð nema að um sé að ræða einstakling með hundruð milljóna viðskipti.
Samkeppniseftirlitið virðist einnig telja það annmarka á íslenska bankakerfinu að enginn erlendur banki skuli hafa hér starfsemi. Þetta kemur pistlahöfundi nokkuð undarlega fyrir sjónir enda er stærsta ástæðan fyrir þessu líklega sú að erlendir bankar hafa engan áhuga á því að bjóða fram þjónustu sína hérlendis. Kostnaðurinn sem erlendur banki þyrfti að leggja í til þess að opna útibú hér á landi er líklega alltof mikill til þess nokkuð væri uppúr því að hafa. Ef bankar á borð við Citigroup, þann stærsta í heimi með 300.000 starfsmenn, hefðu áhuga á því að starfa hér, þá gætu þeir svo að segja gleypt landið í einum munnbita. Í þessu sambandi má nefna að tekjur Citigroup á síðasta ári voru um 5.300 milljarðar króna en tekjur íslenska ríkisins aðeins rúmlega 421 milljarður.
Það sem Samkeppniseftirlitið telur mest gagnrýni vert við íslenska bankamarkaðinn er þó jafnframt hvað undarlegast. Því er slegið fram að viðskiptavinir bankanna skipti ekki um banka, svonefndur hreyfanleiki þeirra sé mjög lítill og aðgerða sé þörf. Hvers vegna er Samkeppniseftirlitið, sem ber hag almennings fyrir brjósti, að velta sér uppúr því að „hreyfanleiki“ viðskiptavina bankanna sé lítill? Ætla má að þetta sé ekkert nema jákvætt því að þeir sem skipta sjaldan um banka hljóta að vera ánægðir hjá sínum banka. Einn banki hér á landi notar þetta einmitt sérstaklega og auglýsir að þar séu „ánægðustu viðskiptavinirnir í bankakerfinu“ ár eftir ár. Varla fara þeir að skipta um banka.
Ástæður lítils hreyfanleika eru svo helstar taldar vera kostnaður við að skipta, erfitt sé að bera saman kjör bankanna og að þetta sé einfaldlega frekar flókið mál. Þetta ætti ekki að koma á óvart, því einstaklingur sem er með nokkra reikninga, fasteignalán hér og þar, yfirdrátt, skuldabréf, bílalán og tryggingar getur jú átt von á því að málin séu nokkuð flókin. Bankarnir létta hins vegar þarna verulega undir og leysa flest flókin mál án þess að einstaklingarnir finni fyrir því.
Einnig er áhugavert að sjá Samkeppniseftirlitið nefna stimpilgjald og uppgreiðslugjald í samhengi við að skipta um banka. Þetta kemur að sjálfsögðu til að fólk þarf að færa húsnæðislánin milli banka til þess að fá betri kjör og kemur illa við marga að þurfa að greiða stimpil- eða uppgreiðslugjald eða bæði. Stimpilgjaldið tengist samkeppni á bankamarkaði ekkert því það er samkvæmt lögum greitt til ríkisins, sama yfirvalds og Samkeppniseftirlitið starfar undir. Svipað virðist uppi á teningnum með uppgreiðslugjaldið, því að eftir því sem næst verður komist býður einn aðili lán með uppgreiðslugjaldið – Íbúðalánasjóður – sem er jú ríkisstofnun, eins og Samkeppniseftirlitið.
Samkeppnisyfirvöld eru gjarnan á villigötum, bæði hér á landi og erlendis. Þau telja sig efla samkeppni og bera hag almennings fyrir brjósti en átta sig oft ekki á því að almenningi er sennilega best treystandi fyrir sínum eigin hag.
- Eldgos, gjörðu svo vel! - 30. apríl 2021
- Ameríkuferð Reykjanesskagans - 2. mars 2021
- Þegar landið rís - 25. janúar 2021