Það hefur greinilega kólnað í veðri. Ógnvænlegt merki um það að veturinn sé ekki langt undan og hátísku vetrarklæðnaður virðist ekki miða að því að halda á fólki hita. Haustið kemur samt víst á undan, en ekki er það skárra þar sem að regnhlífar koma að furðulega litlum notum hérlendis. Skólarnir eru flest allir byrjaðir og Íslendingar lentir á klakanum eftir dvöl erlendis. Margir þættir stuðla því að því að smám saman fer umferðin að þyngjast.
Íslendingar eru ekki þolinmóðasta þjóð heims. Að vísu get ég ekki vitnað í neina alheimskönnun sem styður mál mitt, en ég hef persónulega reynslu fyrir mér. Það má jafnvel segja að Íslendingar séu yfir höfuð óþolinmóðir. Þeir hafa oftar en ekki gremjusvip á sér þegar þeir standa í röð og hvaða önnur ástæða gæti verið fyrir minnkandi vinsældum handavinnu? Gleggsta merkið um þennan skapgerðarbrest má þó finna í umferðinni hér á landi. Sumir vilja e.t.v. kenna um mistökum í samgöngumálum borgarinnar síðastliðinn áratug eða svo, en ég vil hvetja ökumenn til þess að líta í eigin barm í stað þess að finna einhvern sökudólg fyrir vaxandi umferðarhnútum. Þeir sem eru ekki tilbúnir að gera það geta auðvitað alltaf tekið það upp með sjálfum sér að senda Degi B. ítarlegt kvörtunarbréf þar sem þeir lýsa yfir óánægju sinni, ég ætla mér alls ekki að standa í vegi fyrir þeim.
Þeir sem finna hvað mest fyrir þessari gremju og pirringi í umferðinni eru ökunemar. Hver hefur ekki verið of seinn í matarboð eða á fund með húsfélaginu og lent fyrir aftan ökunema í umferðinni sem virtist ekki geta haldið bílnum gangandi? Þegar slíkar aðstæður koma upp getur það virst þjóðráð að flauta allkröftuglega og láta þannig vita af sér. Nokkrum gæti jafnvel dottið í hug að stíga út úr bílnum og banka á rúðuna hjá ökunemanum til þess að undirstrika mál sitt. Ekki það að ég hafi lent í því. Raunin er sú að það er ekki það sem kemur bílnum aftur í gang hjá vesalings ökunemanum. Ég veit það fyrir víst þar sem að það er ekki langt síðan að ég var sjálf ökunemi. Og þegar ég drap á bílnum, sem var ósjaldan þar sem að ég setti met í fjölda verklegra ökunámstíma, fannst mér ekkert verra en að lenda fyrir framan óþolinmóðan ökumann sem lét mig vita prúðmannlega með flautunni að ég væri að gera mistök.
Ég held það sé óhætt að segja að allir ökunemar drepi einhvern tímann á bílnum og tefji þannig fyrir eldri og vanari ökumönnum í umferðinni. Það besta sem aðrir ökumenn geta gert fyrir ökunemann er að senda honum hlýja strauma og vonað að hann komi bílnum í gang sem fyrst. Ökukennarinn er í flestum tilfellum fullfær um að öskra á ökunemann og láta hann vita hversu óhæfur hann sé.
Að lokum vil ég benda á það að það er lágmark að fólk gefi stefnuljós í umferðinni. Annað er bara hreinn og klár dónaskapur.
- Besta hátíðin - 9. apríl 2023
- Lýðræðið mun sigra - 2. júlí 2021
- Norræn vídd í varnarsamstarfi - 29. júní 2021