Afstaða íslenska ríkisins til samskipta ríkja almennt hefur ekki hlotið mikla athygli í þjóðmálaumræðunni. Hún er þó verðugt athugunarefni og verður hér bent á visst ósamræmi í þeim efnum.
Árið 2004 var skýrslan Hafið – stefna íslenskra stjórnvalda gefin út af sjávarútvegs-, utanríkis- og umhverfisráðuneytinu. Í henni birtist stefnumörkun íslenska ríkisins í málefnum hafsins. Í skýrslunni kemur fram að stefna Íslands í málaflokknum grundvallist á þremur stoðum. Ein þessara stoða er það sjónarmið að stjórnun og ákvarðanataka við verndun vistkerfa hafsins og nýtingu lifandi auðlinda hvíli á þeim ríkjum sem mestra hagsmuna eiga að gæta og ákvarðanir snerta með beinum hætti. Í skýrslunni er bent á að mörg ríki sem móta umfjöllun á alþjóðavettvangi um málefni hafsins eigi lítilla eða engra beinna hagsmuna að gæta ef hlutdeild sjávarútvegs í þjóðarframleiðslu er notuð sem mælistika á slíka hagsmuni. Af lestri skýrslunnar fær lesandinn á tilfinninguna að íslensk stjórnvöld líti það hornauga að ríki með takmarkaða beina hagsmuni af sjávarnytjum láti til sín taka í umræðu um málefni hafsins.
Í röksemdum sem Halldór Ásgrímsson setti fram til stuðnings framboði Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í ræðu utanríkisráðherra til Alþingis árið 2003 birtist annað viðhorf til samskipta ríkja: „Ef til vill mætir frumkvæði af Íslands hálfu minni tortryggni en frumkvæði margra annarra ríkja, því Ísland hefur enga stórveldishagsmuni sem litað geta afskipti af einstökum málum. Þá er hlutfallsleg smæð íslensks efnahagslífs kostur, þar sem síður er hætta á að tortryggni vakni um að íslensk stjórnvöld gangi erinda íslenskra fyrirtækja og setji hagsmuni þeirra framar óeigingjarnri aðstoð við viðkomandi ríki. Fyrst og síðast er framboðið spurning um áræði og metnað fyrir hönd Íslands á alþjóðavettvangi […] Ef vilji er til að Ísland sé metið á jafnræðisgrundvelli í samfélagi þjóðanna, verða Íslendingar að leggja af mörkum í samræmi við getu.“
Hér er um visst ósamræmi að ræða. Hugmyndir af realískum og ídealískum toga virðast notaðar sitt á hvað. Til að sýna fram á sannleiksgildi þessarar fullyrðingar er hægt að máta framboð Íslands til öryggisráðsins í ramma áðurnefndrar stoðar í stefnu íslenskra stjórnvalda í málefnum hafsins og öfugt.
Ef framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna er mátað í ramma stefnu Íslands í málefnum hafsins um að stjórnun og ákvarðanataka hvíli á þeim ríkjum sem mestra hagsmuna eigi að gæta og ákvarðanir snerta með beinum hætti er líklegt að slíkt framboð myndi mæta andstöðu innan stjórnkerfisins. Herlaust ríki í Norður-Atlantshafi með enga hergagnaframleiðslu á takmarkaðra beinna hagsmuna að gæta í ráði sem ber aðalábyrgð á varðveislu heimsfriðar og öryggis af hálfu Sameinuðu þjóðanna og þar sem meirihluti mála lýtur að málefnum fjarlægra heimsálfa þar sem Ísland á varla nokkurra hagsmuna að gæta.
Ef umrædd stoð í stefnu Íslands í málefnum hafsins er mátuð í þeim ramma sem framboð Íslands til öryggisráðsins er sett í er líklegt að nokkur andstaða væri gegn slíkri stefnu þar sem ríki eiga að leggja sitt af mörkum í samfélagi þjóðanna í samræmi við getu. Stjórnun og ákvarðanataka alþjóðasamfélagsins í málefnum hafsins hvílir því ekki einungis á þeim ríkjum sem mestra hagsmuna eiga að gæta og ákvarðanir snerta með beinum hætti.
Misræmi þetta í afstöðu íslenska ríkisins til samskipta ríkja er hægt að skýra með hagsmunabaráttu Íslands á alþjóðavettvangi. Eins og kunnugt er á íslenska ríkið og Íslendingar mikilla hagsmuna að gæta í sjávarútvegi. Það þjónar því hagsmunum Íslands að stjórnun og ákvarðanataka við verndun vistkerfa hafsins og nýtingu lifandi auðlinda hvíli á þeim ríkjum sem mestra hagsmuna eiga að gæta og ákvarðanir snerta með beinum hætti. Í tengslum við framboð Íslands til öryggisráðsins verður að hafa í huga að eftir lok kalda stríðsins hefur Ísland misst hernaðarlegt mikilvægi sitt og þar með það tangarhald sem ríkið hafði á vestrænum stórveldum. Íslenskir ráðamenn virðast því telja að Ísland verði að sækja fram á við á erlendum vettvangi í auknum mæli, m.a. í friðargæsluverkefnum á vegum NATO og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Slíkt mat íslenskra ráðamanna skýrir e.t.v. að einhverju leyti þær hugmyndir er birtast í flutningsræðu utanríkisráðherra vegna skýrslu hans til Alþingis um utanríkismál árið 2001: „Aðeins að lokum vil ég fagna því að þingmenn taka undir að Íslendingar hafa ákveðið að bjóða sig fram til setu í öryggisráðinu. Það er m.a. lykillinn að því að við komumst til meiri áhrifa í alþjóðamálum, lykillinn að því að við getum haft meiri áhrif á mál sem hæstvirtir þingmenn leggja áherslu á.“
Af ofansögðu virðist vera hægt að draga þá ályktun að röksemdir og undirliggjandi hugmyndir íslenska ríkisins um samskipti ríkja séu valdar eftir hagsmunum þess hverju sinni. Slík niðurstaða kemur þó varla á óvart og er varla einsdæmi. Hagsmunir eru jú lykilatriði í alþjóðastjórnmálum hvað svo sem hugsjónum líður.
Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 14. ágúst síðastliðinn.
- Fara fyrirætlanir E.C.A. Program gegn samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar? - 24. mars 2010
- …að vera eða vera ekki herloftfar… - 23. mars 2010
- Friðlýsingahugmyndir stangast á við hafréttarsamning SÞ - 19. maí 2009