Mótmælastjórnmál

Áður fólst í mótmælum krafa fólks um grundvallarbreytingar á samfélagsgerðinni. Í dag snúast mótmæli frekar um umbætur, sem aðferð til að krefjast umbóta á frekar afmörkuðum sviðum. Líta má á mótmæli sem pólitískt úrræði, á borð við þátttöku í kosningum eða kosningaherferðum, sem einstaklingar noti til þess að ná fram sínum markmiðum í stjórnmálum.

Eitt af meginmarkmiðum lýðræðisríkja er að virkja þátttöku einstaklinganna í samfélaginu í pólitískum málefnum. Þátttaka almennings í kosningum er kærkomin að mati stjórnvalda en virk þátttaka almennings kemur einnig fram í aðild að ýmis konar félagasamtökum og þrýstihópum. Mótmæli eru einnig eitt birtingarform virkrar þátttöku einstaklings í samfélaginu og umdeilt sem slíkt.

Mótmælastjórnmál hafa þróast frá því sem var í upphafi, þegar áhersla var lögð á einhvers konar byltingu. Áður fólst í mótmælum krafa fólks um grundvallarbreytingar á samfélagsgerðinni. Í dag snúast mótmæli frekar um umbætur, sem aðferð til að krefjast umbóta á frekar afmörkuðum sviðum. Nú eru mótmælastjórnmál skipulögð, ekki bara uppþot múgsins. Stórir hlutar mótmælastjórnmála eru atvinnumennska, skipulagðar hreyfingar og skipulögð starfsemi. Hreyfingar á borð við Greenpeace-samtökin eru með fólk á launum við að skipuleggja mótmæli og andóf.

Þær skoðanir sem koma fram hjá mótmælendum eiga ekki endilega mikinn stuðning almennings. Þeir sem leggja mikið á sig og berjast hatrammlega fyrir skoðunum sínum eru oft lítill, öflugur minnihlutahópur. Það, hversu ákaft einhverju er mótmælt, segir ekkert til um stuðning almennings við málefnið. Velta má fyrir sér hvort mótmæli hafi góð eða vond áhrif á lýðræði þar sem hætta er að fámennir mótmælahópar verði of öflugir á kostnað venjulegra kjósenda. Sterkari hópar geta skipulagt sig vel og komið ef til vill meiru til leiðar á þann hátt.

Mótmælin gegn Kárahnjúkavirkjun hafa verið talsvert í umræðunni undanfarið og skiptar skoðanir fólks um þær aðferðir sem þar er beitt. Mótmælendur hafa farið inn á vinnusvæði sem þeim er ekki heimilt að vera á og hlekkjað sig við tæki í þeim tilgangi að stöðva vinnu á svæðinu. Talsmenn mótmælenda hafa síðan komið fram í fjölmiðlum og kvartað yfir harkalegri meðferð lögreglu.

Við Kárahnjúka hafa mótmælendur sagst standa fyrir friðsamlegum mótmælum og að þeir leggi enga í hættu nema sjálfa sig fyrir hugsjónina. Þó er óvíst að lögreglumennirnir sem þurftu að klifra upp í krana til að sækja mótmælendur þangað líti eins á málið. En þetta hefur leitt til mikillar umfjöllunar sem hlýtur að helga meðalið. Hvort það séu aðgerðirnar sem slíkar eða ásakanir um að lögreglan sé að beita mótmælendur harðræði er annað mál.

En spurningin er hvaða aðferðum er beitt við mótmæli. Eiga mótmælendur að koma sínum málstað á framfæri í sátt og samlyndi við alla aðila, halda sig á skilgreindum svæðum með kröfuspjöldin sín eða eiga þeir að grípa til róttækari aðgerða sem brjóta reglur, hvort sem það felst í eignarspjöllum á vinnuvélum eða að sletta skyri á ráðstefnugesti.

Stjórnmálaþátttaka almennings hefur verið að breytast. Kosningaþátttaka hefur farið minnkandi semog aðkoma að starfi stjórnmálaflokka. Líta má á mótmæli sem pólitískt úrræði, á borð við þátttöku í kosningum eða kosningaherferðum, sem einstaklingar noti til þess að ná fram sínum markmiðum í stjórnmálum. En til að það hafi vægi sem úrræði þarf að greina á milli hvað eru mótmæli og þess að skemma eignir og skapa hættu. Hvað þjónar málstaðnum?

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.