Framsóknarflokkurinn hefur verið í mikilli tilvistarkreppu undanfarin misseri. Fylgi flokksins samkvæmt skoðanakönnunum hefur hrunið og útkoma hans í síðustu sveitastjórnarkosningum var ekki góð þar sem flokkurinn t.a.m. harkaði það á lokasprettinum að koma manni inn í Reykjavík.
Segja má að fylgi flokksins hafi byrjað að dala þegar Halldór Ásgrímsson tók við af Davíð Oddssyni sem forsætisráðherra á haustdögum 2004. Enda má með sanni segja að Halldór hafi ekki reynst góður forsætisráðherra þar sem stefnuleysi og ákvörðunarfælni lituðu daga hans í starfi. Ekki hefur það heldur hjálpað til að flokkurinn hafi innan sinna raða einn óútreiknanlegasta þingmann landsins, Kristin H. Gunnarsson, sem virðir allt það sem kallast flokksagi að vettugi. Oft á tíðum hefur það því, í það minnsta út á við, litið þannig út að óeining og sundrung hafi ríkt innan flokksins.
Bitlingapólitík og stöðuveitingar eru enn fremur eitt af því sem hefur loðað við Framsóknarflokkinn lengi. Í hugum margra er Framsóknarflokknum stjórnað af þröngri klíku með menn eins og Finn Ingólfsson fremstan í flokki en honum ásamt fleirum innvígðum grænum tókst að selja sér Búnaðarbankann á spottprís við einkavæðingu hans. Telja má ljóst að umræða um Búnaðarbankasöluna og aðkomu Framsóknarflokksins eða hans helstu flokksgæðinga að henni hefur ekki verið til að auka vinsældir flokksins. Í þriðja stað má nefna að sú varðborg sem Framsóknarflokkurinn slær utan um landbúnað í landinu og áfram haldandi ríkisstyrki nýtur sífellt mynni hylli meðal kjósenda.
Ákaflega klúðursleg atburðarrás sem átti sér stað þegar Halldór ákvað að tilkynna afsögn sína sem ráðherra í vor var heldur ekki til að auka álit almennings á flokknum. Á einu augabragði átti að dúkka Finn Ingólfsson upp sem næsta formann flokksins en jafnskjótt féll sá leikur um sjálfan sig og Jón Sigurðsson seðlabankastjóri var skyndilega orðinn iðnaðarráðherra. Ljóst var hver hugmynd flokksklíkunnar var, Jón var henni þóknanlegur og átti að verða næsti formaður flokksins. Segja má að aðdragandi þessa skrípaleiks hafi verið þegar Árni Magnússon, hætti óvænt sem ráðherra og þingmaður á síðasta ári en Árni var sá maður sem flokksmenn höfðu helst litið til að tæki við forystuhlutverkinu af Halldóri. Við brotthvarf Árna má því segja að framtíð flokksins hafi verið í ákveðnu uppnámi og því þurfti innsta klíka flokksins að finna nýjan óskaprins enda ólíklegt að Guðni eða Siv hafi talist álitlegir kostir að hennar mati.
Þessari leit lauk svo endanlega nú um helgina þar sem flokksþing Framsóknarflokksins var haldið á Hótel Loftleiðum. Þar bar helst til tíðinda að ný stjórn var kjörin og Jón Sigurðsson tók við formennsku af Halldóri Ásgrímssyni. Guðni Ágústsson var endurkjörinn varaformaður og Sæunn Stefánsdóttir var kjörin ritari.
En hver er þessi Jón Sigurðsson og er hann líklegur til að hífa Framsóknarflokkinn upp úr dauðateygjunum? Jón er fæddur árið 1946 og varð því sextugur á árinu. Hann lauk BA prófi í íslenku og sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1969 og MBA prófi í rekstrarhagfræði frá Bandaríkjunum árið 1993. Auk þess lauk hann MA prófi í menntunarfræðum og doktorsprófi í sömu fræðum frá Bandaríkjunum 1998. Hann hefur ekki verið þekktur af sínu stjórnmálastarfi í gegnum árin en hefur þó setið í nefndum á vegum Framsóknarflokksins og fékk seðlabankastjórastól Framsóknar árið 2003 sem losnaði þegar Finnur Ingólfsson lét af starfi seðlabankastjóra.
Það er erfitt að segja hvort að Jón Sigurðsson sé lausn Framsóknarflokksins á sínum vandræðum. Það er til að mynda ekki auðvelt að ímynda sér að karlmaður á sjötugsaldri glæði ímynd flokksins þeim ferskleika sem hann sárlega vantar. Ekki bætir úr skák að einn uppstrílaðasti og þreyttasti stjórnmálamaður landsins, Guðni Ágústsson, var kjörinn sem varaskeifa Jóns.
Hugmyndafræðilega er erfitt að átta sig á því fyrir hvað Jón stendur nema að hans afstaða til stóriðjumála virðist vera kúvending á afstöðu flokksins, í það minnsta ef miðað er við afstöðu Valgerðar Sverrisdóttur forvera hans í iðnaðarráðuneytinu og núverandi utanríkisráðherra. Sú afstaða kann að ná til nýrra kjósenda en hitt er líklegra að óbreytt afstaða í öðrum málum, s.s. landbúnaðarmálum fæli þá aftur frá. Enn fremur talaði Jón mikið um þjóðhyggju í ræðu sinni á flokksþinginu á föstudag og að þjóðin þyrfti á flokknum að halda til að tryggja þjóðhyggju. Erfitt er að átta sig á því hvað Jón eigi við með þessu en hugsanlega er hann að skjóta á stéttaskiptingu og misskiptingu afls og auðs í landinu. Það má því vera að Jón sé að mörgu leyti að boða aukna sókn Framsóknar til vinstri frá miðjunni frekar en til hægri.
Framsóknarflokksmenn þurfa svo sannarlega að taka á öllu því sem þeir eiga til að flokkurinn gjaldi ekki afhroð í næstu Alþingiskosningum, vorið 2007. Hvort að Jón Sigurðsson verður ný hetja í augum framsóknarmanna á vordögum er erfitt að spá fyrir um. En líklega er vandi Framsóknarflokksins djúpstæðari en svo að einn hentiformaður nái að rétta framsóknarskútuna við. Líklegra er en ekki, að flokkurinn sé orðinn örflokkur til frambúðar.
- Eru skuldir heimilanna ofmetnar um 70 milljarða? - 23. febrúar 2009
- Augun full af ryki og nefið af skít! - 8. janúar 2009
- Reið framtíð? - 6. desember 2008