Í kvöld stíga Chippendales folarnir á stokk á Broadway með það að markmiði að trylla íslenskt kvenfólk með erótískum dansi og leikatriðum. Uppselt er víst í betri sæti hússins og aðeins örfáir miðar eftir í önnur. Íslenskar konur virðast því töluvert spenntar fyrir komu folanna og má gera ráð fyrir að þakið rifni af Broadway í kvöld.
Chippendales hópurinn var stofnaður árið 1979 í Bandaríkjunum og varð stuttu eftir stofnun orðinn eitt vinsælasta skemmtiatriðið í landinu. Hópurinn hefur síðan þá ferðast um allan heiminn með sýningar sínar og slegið alls staðar í gegn. Í auglýsingu um atburðinn kemur fram að þetta sé ein langlífasta og vinsælasta sýning heims. Þar stendur jafnframt að milljónir kvenna hafi borið sýninguna augum, tekið virkan þátt í henni og aldrei kvartað, enda sé Chippendales hópurinn samansettur af fullkomnustu karlmönnum heims sem hafi það eitt að markmiði að dýrka konur.
Hér er því greinilega á ferðinni frábært tækifæri fyrir íslenskar til að bera dýrðina augum og skemmta sér ærlega í leiðinni. Enda eiga fullorðnir einstaklingar að geta farið á slíkar skemmtanir ef þeir kjósa svo.
Það sem kemur á óvart er að ekkert hefur heyrst frá andmælendum slíkra skemmtana. Í gegnum tíðina hafa ýmsir einstaklingar og félög, líkt og Femínistafélag Íslands, gagnrýnt harðlega skemmtistaði sem boðið hafa upp á erótískan dans kvenna og talið það niðurlægjandi fyrir konur. Það vekur því furðu að þegar einn stærsti skemmtistaður landins býður upp á erótísk dansatriði þar sem margir ungir karlmenn munu fækka fötum fyrir framan hundruði kvenna virðist það ekki ámælisvert.
Af hverju er það ekki gagnrýnt? Er það af því að um heimsfrægt sýningaratriði er að ræða og þá sé það ekki niðurlægjandi fyrir viðkomandi að fækka fötum? Eða getur það verið að það skipti máli að um ræðir karlkyns fatafellur en ekki kvenkyns fatafellur?
Hvort þetta séu ástæður þess að viðburðurinn hefur ekki verið gagnrýndur eða hvort aðrar ástæður liggja þar að baki skiptir kannski ekki öllu. Hvort þörf er á að gagnrýna slíkar skemmtanir yfir höfuð er annað mál, en ef einstaklingar eða hópar telja að svo sé þarf hún að vera réttmæt og trúverðug. Þegar það sama gildir ekki um konur og karla er aðeins um tvískinnung að ræða.
- Þú ert það sem þú hugsar - 9. nóvember 2007
- Verða allt sem þú getur - 15. júní 2007
- Hver velur hvað ég borða? - 8. september 2006