Einn stærsti árlegi viðburður Reykjavíkurborgar, menningarnótt, er framundan. Eftir einungis 2 daga verður höfuðborgin iðandi af mannlífi og munu íbúar og gestir borgarinnar geta notið menningar og lista í öllum hugsanlegum birtingarformum. Dagskrá menningarborgar er mjög metnaðarfull sem endranær og fjölmargir aðilar sem koma þar að. Þar er að finna ýmis dans- og tónlistaratriði, myndlist, ljóðalestur, leiklist, sagnfræðileiðsögn og svo mætti lengi telja. Það er því afar ólíklegt að ekki muni allir finna eitthvað við sitt hæfi.
Eitt af því sem vakið hefur athygli á dagskrá menningarnætur er sá atburður sem Stígamót bjóða upp á. En eins og flestir vita eru Stígamót óformleg grasrótarsamtök kvenna sem starfrækt hafa verið síðan 1990. Stígamót eru staðsett við Hlemmtorg og bjóða upp á ráðgjöf og aðstoð fyrir einstaklinga sem starfa eða hafa starfað við kynlífsiðnaðinn, einstaklinga sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi og aðstandendur þeirra. Bæði er boðið upp á einstaklingsbundna ráðgjöf en einnig sjálfshjálparhópa.
Meginviðfangsefni Stígamóta er því ofbeldi í einni af sínum verstu birtingarmyndum. Því hefur vakið mikla athygli að á laugardaginn næstkomandi á milli klukkan 17 og 22 mun atburður Stígamóta bera yfirskriftina „Sólarhliðarnar á Stígamótum“. Í tilkynningu þeirra segir að um sé að ræða „kærkomna tilbreytingu frá hefðbundinni starfsemi í húsinu.“ Lögð verður áhersla á fallegri birtingarmyndir mannlegra samskipta og mun daglegt viðfangsefni þeirra, ofbeldi og svik, verða lagt til hliðar þennan mikla hátíðisdag. Ýmsir listamenn, stjórnmálamenn og aðrir þjóðþekktir einstaklingar munu stíga á stokk hjá Stígamótum og ýmist segja frá, lesa úr bókum, syngja eða miðla af eigin reynslu af jákvæðum samskiptum við fólk. Á vissum tímum verður gestum og gangandi boðið að gera slíkt hið sama.
Ástæðan fyrir því að ég ákvað að draga fram þennan ákveðna dagskrárlið í umfjöllun um menningarnótt er sú að þarna finnst mér endurspeglast með sérstaklega skýrum hætti tilgangur menningarnætur. Á menningarnótt er allt lagt til hliðar sem heitir daglegt amstur í borginni og í einn dag á ári njóta íbúar og gestir borgarinnar einungis þess besta sem hún hefur upp á að bjóða og fagna saman hugviti, ímyndunarafli, hæfileikum og nærveru hvors annars. Ég hvet ykkur því til að nýta næstu tvo daga í að kynna ykkur dagskrá menningarnætur og taka svo virkan þátt í þessum stóra samverudegi um leið og þið gleðjist yfir útvöldum dagskrárliðum, með öðrum þeim sem annað hvort njóta eða veita.
- Þrautaganga þingmáls - 11. júní 2021
- Af flísum og bjálkum - 25. apríl 2010
- Já-kvæði - 27. ágúst 2008