Síðastliðinn laugardagur var hápunktur Hinsegin daga í Reykjavík, en þetta var í áttunda sinn sem þessir dagar voru haldnir hátíðlega. Sambærilegar hátíðar hafa verið haldnar víðsvegar um heiminn síðan á áttunda áratugnum með það að markmiðið að gera mannréttindabaráttu homma og lesbía sýnilegri í samfélaginu. Það má segja að þessu markmiði hafi verið náð á Íslandi, enda fjölmennti gagnkynhneigt jafnt sem samkynhneigt fólk í árlega gleðigöngu samkynheigðra niður Laugarveginn til að sýna málstaðnum samstöðu.
Hér á landi hefur náðst mikill árangur í mannréttindabaráttu samkynheigðra, en 14. júní s.l. voru samþykktar breytingar á lagaákvæðum http://www.althingi.is/altext/132/s/1445.html er varða réttarstöðu samkynhneigðra s.s. sambúð, ættleiðingar, tæknifrjóvgun ofl.
Ekki er hægt að horfa framhjá því að enn er mismunur á stöðu samkynhneigra og gagnkynheigðra í lögum þar sem trúfélögum er ekki heimilt að gefa saman samkynhneigð pör. Í lögum um staðfesta samvist kemur fram að einungis sýslumenn geti gefið samkynhneigð pör saman.
Biskup Íslands, Herra Karl Sigurbjörnsson hefur lagst alfarið gegn því að alþingi veiti trúfélögum frelsi til þess að velja, velja hvort þau framkvæmi staðfesta samvist samkynhneigðra og segir slíka lagasetningu þvinga kirkjuna óbeint. Nefnd um réttarstöðu samkynhneigðra fjallaði sérstaklega um þetta atriði og hvatti þjóðkirkjuna í skýrslu sinni til þess að vinna að því að ná samstöðu um að samkynhneigðir geti fengið kirkjulega vígslu líkt og gagnkynhneigð pör. Að mínu mati á það ekki að vera á valdi eins trúfélags, jafnvel þrátt fyrir að um þjóðkirkju sé að ræða að standa í vegi fyrir að önnur trúfélög fái heimild til þess að gifta samkynhneigð pör. Nú þegar hafa þrjú trúfélög óskað eftir slíkri heimild.
Segja má að löggjöf og stefnumótun stjórnvalda endurspeglist að verulegu leyti af almenningsáliti. Það er því að miklu leyti á okkar ábyrgð að hvetja alþingismenn á nýju þingi í haust til þess að tryggja mannréttindi samkynhneigðra til jafns við gagnkynhneigðra og vera öðrum þjóðum til fyrirmyndar og eftirbreytni með því að útrýma misrétti gagnvart samkynhneigðum.
- Þessi blessaða veira er fordómalaus, reynum að vera það líka - 30. mars 2021
- Má ég faðma þig? - 13. janúar 2021
- Til hamingju Frú Vigdís - 15. apríl 2020