Fyrsta helgi ágústmánaðar er eins og flestir Íslendingar vita tileinkuð verslunarmönnum. Þrátt fyrir það snýst verslunarmannahelgin fyrst og fremst um útilegur landsmanna og þar af leiðandi fá verslunarmenn sjaldnast frí þessa helgi. Því miður er það svo að eiturlyf, ofbeldi og slys hafa oft einkennt þessa helgi og varpað skugga yfir þá skemmtun sem á sér stað. Hryllileg slys hafa átt sér stað á þessum tíma sem seint munu gleymast, en auðvitað hafa verið verslunarmannahelgar sem hafa gengið næstum áfallalaust og því má alls ekki gleyma.
Síðast liðin helgi var einmitt verslunarmannahelgi og kom hún og fór með sínum afleiðingum. Hátt í 80 fíkniefnamál komu fram og því hlýtur að vera við hæfi að þakka lögreglunni fyrir sitt verk. Ofbeldisbrot voru þó nokkur og tilkynnt var um nauðganir bæði í Eyjum og á Akureyri. En það sem sló mig var að í fréttum kom fram „enn hafði ekki komið neitt alvarlegt ofbeldisbrot komið fram’’.
Íslendingar eiga oft hættu á því að taka hluti sem sjálfsagða, góða og slæma. En erum við oft að gera ráð fyrir röngum hlutum?
Þá spyr ég er eðlilegt að við gerum ráð fyrir því að stúlku verði nauðgað um verslunarmannahelgina? Er eðlilegt að gera ráð fyrir því að fólk verði tekið með fíkniefni í fórum sínum? Er eðlilegt að við gerum ráð fyrir því að fólk verði barið og þurfi að fara á spítala? Er eðlilegt að við gerum ráð fyrir miklum umferðaslysum og jafnvel dauðsföllum?
Ástæða þess sem ég velti þessu upp er sú að um helgina hlustaði ég á fréttir eins og eflaust margir gerðu og á einni stöðinni var því haldið fram að: ,,aðeins hafa komið tilkynningar um 3 nauðganir og aðeins ein kærð”. Hvernig er hægt að segja í sömu setningu „aðeins“ og „þrjár nauðganir“? Eftir nauðgun má þolandinn lifa við hræðslu við kynsjúkdómasýkingu, þungun, innri blæðingu og alnæmissmit. Auk þess er andleg líðan eftir nauðgun slæm, þolandinn upplifir oft skerta sjálfsmynd, sektarkennd, erfiðleika í kynlífi og þunglyndi. Nauðgun er refsiverður glæpur og refsing er allt frá 1 upp í 16 ár.
Enginn getur fært rök fyrir því að nauðgun sé ekki alvarlegur glæpur. Þar afleiðandi tel ég fréttaflutning á borð við: „aðeins ein nauðgun hefur verið kærð, aðeins þrjár nauðganir hafa verið tilkynntar, aðeins ein stúlka var send frá Eyjum til Reykjavíkur vegna nauðgunar’’ ámælisverðan og draga úr alvarleika málsins.
Nauðgun er stóralvarlegt mál og því bendi ég fjölmiðlum vinsamlega á að sýna tillitsemi í fréttafluttningi, því þrátt fyrir að það sé verslunarmannahelgi þá eru ofbeldisbrot alltaf jafn alvarleg.
- Óður til Dollýar - 29. júlí 2021
- Aðförin að heilbrigðisþjónustu landsmanna - 9. júní 2021
- Þegar mennskan hverfur - 26. apríl 2021