Sarkozy, sonur ungverskra innflytjenda, hefur ávallt borið á sér gríðarlegan metnað. Tuttugu og tveggja ára gamall var hann kosinn í bæjarstjórn í heimabæ sínum, Parísarúthverfinu Neuilly-sur-Seine. Aðeins tuttugu og átta ára var hann orðinn bæjarstjóri og fimm árum seinna (1988) var hann kominn á franska þingið.
Orka og dugnaður Sarkozy kom honum fljótt inn í innsta hring hjá Jaques Chiracs og var hann lengi talinn vera “Chirac” maður. Hinvegar þá var hann milli 1993 og 1995 ráðherra í ríkisstjórn Eduard Balladur og studdi hann svo Balladur gegn Chirac í frönsku forsetakosningunum 1995. Chirac vann kosningarnar og leit á brotthvarf Sarkozys sem svik og var Sarkozy sviptur öllum embættum í kjölfarið.
Chirac gat þó ekki endalaust horft framhjá vinsældum Sarkozys og þegar hann var endurkjörin forseti árið 2002* þá fékk Sarkozy embætti innanríkisráðherra og 2004 var hann settur í embætti fjármálaráðherra. Þá var farið að bera á metnaði Sarko til Forsætisembættisins í fjölmiðlum.
Chirac og Sarkozy komust að þeirri málamiðlun að Sarkozy myndi fá formennsku yfir flokki Chiracs, UMP gegn því að hann myndi segja af sér ráðherraembætti. Chirac vildi þannig að Sarkozy væri minna í sviðsljósinu til að minnka líkurnar á sigri hans. Það gerðist hinsvegar að í næstu uppstokkun á ríkisstjórninni 2005 þá var Sarkozy aftur kominn í stól innanríkisráðherra.
Sem innanríkisráðherra hefur hann öðlast miklar vinsældir fyrir að berjast af hörku gegn glæpum. Gagnrýnendur segja sumir að glæpaaldan hafi verið ofmetin en Sarkozy gætti þess ávallt að hafa aðgerðir sýnilegar og tilkynna allan árangur með miklum lúðrablæstri.
Sarkozy hefur í Frakklandi verið sakaður um að vera efnahagslegur frjálshyggjumaður (líberalisté) en aðgerðir hans hafa þó frekar einkennst af því að hann gerir hvað sem hann telur að virki hverju sinni.
Þannig hefur hann barist fyrir lægri sköttum og meiri sveigjanleika á vinnumarkaði en hefur einnig barist hatrammlega gegn því að frönsk fyrirtæki séu seld til erlendra fyrirtækja. Einnig lagði hann til að lönd í Austur-Evrópu sem lækkuðu skatta myndu ekki fá styrki frá Evrópusambandinu enda sýndu skattalækkanirnar að þau þurftu þá ekki.
Einnig vakti það athygli þegar hann lét þau orð falla að Frakkar væru búnir að fá nóg af því að afsaka það stöðugt að vera franskir, og að ef innflytjendur kynnu illa við Frakkland þá gætu þeir bara snúið aftur þar sem hann þótti vera farinn að taka upp orð sem hafa hingað til átt betur heima hjá fasistanum Jean-Marie LePen.
Umfram allt annað þá hefur Sarkozy ákveðin gagnrýnistón sem skortir sárlega í franskri stjórnmálaumræðu. Hann er tilbúinn að benda á veikleika Frakklands sem liggja í gríðarlega ósveigjanlegum vinnumarkaði og alltof miklum áhrifum ríkisins. Það verður spennandi að fylgjast með hvernig kosningabaráttan fer á næsta ári og sjá hvort Frakkar vilji alvöru breytingar eða meira af hinu sama.
Heimildir:
http://timescorrespondents.typepad.com/charles_bremner/
* Frakkar kusu áður forseta til sjö ára (eins og 1995 til 2002) en kjósa þá einungis til fimm ára í dag (eins og 2002 til 2007)
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021